Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:40:28 (8296)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú fagna þeirri skoðun hv. 3. þm. Vestf. að úthluta eigi heimildum eftir þörf. Það er auðvitað grundvallaratriði í félagslega kerfinu að menn mæli þörfina og mæti henni hvar svo sem hún er. Þá stendur einungis eftir sú spurning hvort það sé skoðun flm. að félagslega íbúðakerfið hafi verið misnotað og það sé þess vegna sem hann leggi til að lög og reglugerðir verði skoðaðar um það mál. Ef hann er ekki þeirrar skoðunar, þá stendur bara eftir sú niðurstaða að íbúðalánakerfið fyrir almenna markaðinn hefur brugðist landsbyggðinni og ég get nokkuð tekið undir það. En ef skoðuð er dreifing útlána í húsnæðiskerfinu, þá er hlutur landsbyggðarinnar ákaflega rýr í því og höfuðborgarsvæðið sópar til sín nánast obbanum af öllum þessum milljörðum sem er dælt út í það kerfi frá því að það var stofnað. Það er ekki landsbyggðarvinsamlegt lánakerfi, því miður, og hitt, virðulegi forseti, sem átti að vera sérstakt bjargráð landsbyggðarinnar, almenna kaupleigukerfið, hefur brugðist líka. Húsnæðismálastjórn hefur sérstaklega óskað eftir tiltekinni breytingu á því kerfi til þess að almennar kaupleiguíbúðir geti verið vænlegur kostur úti á landi, en hv. 3. þm. Vestf. felldi þá tillögu hér um daginn.