Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:45:13 (8298)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Guðjón Guðmundsson ):
    Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nál. efh.- og viðskn. um till. til þál. um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Nál. sem er á þskj. 1182 er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá fjmrn. Indriða H. Þorláksson skrifstofustjóra og Snorra Olsen deildarstjóra. Umsagnir bárust frá ASÍ, BHMR, BSRB, fjmrn., Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Verslunarráði Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt þáltill. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingar eru orðalagsbreytingar sem miða að því að gera orðalag hennar skýrara.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í efh.- og viðskmn. Brtt. sem er á þskj. 1183 er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.
    Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, séu metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar en aldrei hærri.
    Ákveði hið opinbera að leggja gjald á tiltekna þjónustu umfram kostnaðinn við að veita hana skal koma skýrt fram við innheimtu hve há slík skattlagning er.``