Rannsóknir á botndýrum við Ísland

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:09:21 (8305)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mál lætur lítið yfir sér. Ég fullyrði þó að það er miklu merkilegra en kannski flest það sem hér hefur verið sagt um Evrópubandalagsmál og öll önnur samskipti okkar við útlendar þjóðir og gæslu okkar réttinda. Öllum þeim tíma sem hefur verið eytt í nytlausa, svo maður segi ekki meira, hluti, ónýta hluti í viðræðum við Evrópuþjóðirnar sem við höfum eytt öllu þessu þreki í sem við eigum víst að fá eitthvert frí frá um þessa helgi og fagna ég því.
    Þessi tillaga fjallar sem sagt um rannsókn á botndýrum við Ísland. Það er rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að hann hefur beitt sér nokkuð í þessum málum og mikið raunar, eins og í mörgum þjóðþrifamálum öðrum, en það er einhvern veginn eins og menn vilji ekki skilja það hér að fullveldisréttinda Íslands er ekki gætt. Öðru nær. Í 76. gr. Hafréttarsáttmálans segir: Strandríkið beitir fullveldisréttindum yfir landgrunninu að því er varðar rannsóknir á því og hagnýtingu náttúruauðæfa þess. --- Öllu landgrunninu. Við eigum 350 mílna landhelgi á Reykjanesi. Við eigum 600 mílna landhelgi suður í höf, allan Hatton-Rockall bankann sem er okkar megin við miðlínu frá Bretum og vorum fyrir nokkrum árum í samvinnu við Breta að hagnýta þessi svæði. Við eigum síðan hafsbotnsréttindi alveg norður á pól. Enginn má vera að því að hugsa um þetta. Ekki nokkur maður. Við Hjörleifur Guttormsson höfum kannski einstaka sinnum hresst okkur upp í það að segja að við ættum nú að fara að nota mestu auðæfi sem nokkurt ríki veraldarinnar á. Það er jafnvel gengið svo langt að það er verið að semja um einhver réttindi, um karfa eða einhver önnur sjávardýr, fyrir innan 200 mílurnar. Þetta horfum við upp á eins og þetta væri bara sjálfsagður hlutur. Tala við útlendinga um það sem við heimtum fyrir hálfum öðrum áratug eða svo, óskoraðar 200 mílur. En það er bara það að við eigum svo miklu, miklu meira heldur en þessar 200 mílur.
    Tillaga þessi, sem ég tel mjög merka, hefst á því að Alþingi álykti að fela sjútvrh. að láta Hafrannsóknastofnun vinna áætlun um frekari rannsóknir á botndýrum við Ísland með megináherslu á tegundum sem vænleg eru til nýtingar.
    Það vita allir menn sem vilja vita og allir fræðimenn náttúrlega gjörla að það eru gífurleg auðæfi í hafsbotninum sjálfum, alveg burt séð frá olíunni og þungmálmunum og þessu mangan sem eru mjög verðmætar kúlur sem verða til á hafsbotninum. Það er í botninum sjálfum og á honum og í snertingu við hann gífurleg auðæfi í fiski. Þann fisk eigum við að hagnýta og ýmiss konar skelfisk og dýr, ýmiss konar dýr sem eru svo til hreyfingarlaus eða hreyfa sig með snertingu við botninn. Ég er enginn fræðimaður á því sviði, síður en svo, en ég hef hlustað á --- já, hér er einn ágætis fræðimaður á þessu sviði en hann hlustar bara ekki á í augnablikinu, ég ætla samt að hæla honum þó hann ekki heyri, að hann sé ágætur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fræðimaður á þessu sviði og er vís til þess að styrkja málstaðinn. Nú er komið svo að þeir tveir menn hér inni sem ég hefði haldið að væru áhugasamastir um þessi málefni, hafa báðir verið á tali meðan ég er að tala hér og eru að tala enn um annað. --- Ég get svo sem endurtekið það sem ég sagði fyrir einni mínútu eða svo að jafnvel væri svo komið að þeir mennirnir sem hér inni hefðu mestan áhuga á þessum málum væru að tala og hlustuðu ekki. Ég er orðinn svo þreyttur á að tala þetta, ég held að maður geti svo sem alveg látið það vera í bili. Það koma þeir tímar auðvitað að menn sjá að þetta getur ekkert gengið. Það getur ekkert gengið að eyða hér dögum og nóttum, tímunum saman, mánuðum saman, ár eftir ár, í allra handanna gjörsamlega handónýta hluti, marga til þess að torvelda þjóðinni lífsbaráttuna eins og við þekkjum og Evrópubandalagsmálin öll sömul sem verið er að dengja út, óskapnaður, meira að segja málfræðilega eyðileggjandi tungu þjóðarinnar að sjá þessi ósköp sem verið er að dengja yfir okkur í endalausum umræðum og málfærslu sem ekkert gagn gera. Látum það nú vera að við borguðum alla þessa peninga og leyfðum þessu fólki að dunda við að reikna út þessi dæmi sín öll sömul í Evrópumálunum ef það brenndi þetta svo. Það þyrfti enginn að vera að angra sig á því að lesa þessi ósköp og reyna að fá einhvern samanburð í það hvað standi í þessum bæklingnum eða hinum, hvað þessi spekingurinn eða hinn hafi sagt. Við getum haldið ágætis bókabrennu og borgað fyrir hana. Við þurfum ekki annað en að fara út á Reykjaneshrygg, svona 300 mílur þangað og ná þar í botnlæga fiska og draga þá að landi á Íslandi. Við eigum flota til þess að gera það. Þó ég hafi ekki verið mikið á sjó, en var þó kokkur eitt sumar, þá væri ég alveg til í að fara í svona leiðangur og selja það sem fiskaðist og borga einhverjum fyrir að dútla áfram við þessa spekinga í kerfinu. Leyfa þeim að éta góðan fisk eða jafnvel krabba, alveg rándýr krabbadýr. (Forseti hringir.) En tíminn er búinn og það þarf auðvitað ekkert meira að segja. Það er allt í lagi þó tíminn sé búinn, en ég ætla að tala aftur þegar tækifæri gefst.