Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:30:57 (8310)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er dálítið sérkennilegt að þegar frsm. sjútvn. hefur mælt fyrir málum, þá gengur formaður nefndarinnar, frsm., yfirleitt úr þingsal. Ég sé að hann hefur nú horfið til baka sem gott er.
    Ég vildi nefna hér nokkur atriði í tengslum við þessa tillögu. Það má segja að það sé auðvitað athugunarefni hvort og þá hvernig eigi að ráðast í það af opinberri hálfu að kanna möguleika Íslendinga á veiðiheimildum í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Og hér í tillögunni er vísað til fjarlægra hafsvæða. Einna næst mun vera Barentshafið en síðan er farið um víðan völl, til Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Og þessi mál hafa vissulega verið til umræðu, bæði í mínum flokki og víðar og að sjálfsögðu í þjóðfélaginu hvaða möguleikar séu til þess að nýta okkar fiskiskipaflota sem verður verkefnalaus og það í vaxandi mæli bæði vegna niðurskurðar en ekki síður vegna þess stjórnkerfis sem í gangi er í fiskveiðum.
    Mér finnst aðalspurningin í tengslum við þetta mál vera sú, hvort Íslendingar eigi að einbeita sér að því að leita að möguleikum á að komast inn í lögsögu annarra ríkja eða hvort við eigum að eftirláta það þeim aðilum sem stunda útgerð og hafa áhuga á slíku. Ég á hér við hvort það eigi að vera opinber stefna okkar og hvort íslensk stjórnvöld eigi að beita sér á þessum vettvangi. Mér finnst það umhugsunarefni og ég set spurningarmerki við það þó að önnur sjónarmið þekki ég, bæði úr mínum flokki og annars staðar, og af hverju geri ég það? Ég tel að ástand lífríkis sjávar og nytjastofna sjávar á heimsmælikvarða sé mikið áhyggjuefni og þó að finna megi undantekningar frá því og sjá megi að það kemur upp viðgangur í fiskstofna, t.d. í Barentshafi tímabundið, þá eru býsna margir að elta þau kvikindi sem þar er um að ræða. Og hér er í rauninni verið að leggja til að við Íslendingar eigum að slást í þá för. Ég vil nefna það að frá 1950 hefur fiskafli úr sjó vaxið fimmfalt en ætli fjárfesting til þess að ná þessum afla hafi ekki verið drjúgum meiri en þetta. Mér er kunnugt um það eða hef tölur um það að fjárfesting í fiskiskipum hefur tvöfaldast frá árinu 1986 að telja, tvöfaldast, og er auðvitað orðin gífurlega mikil. Og tæknin til þess að ná fiskunum og sjávardýrum sem veidd eru hefur auðvitað tekið slíkri stökkbreytingu á þessum tíma sem ég nefndi hér, frá 1950, og þarf auðvitað ekki svo langt til og er alltaf að fullkomnast. Ég held að það blasi við að hér geti orðið stórfellt umhverfisslys að því er varðar ágengni við lífríki sjávar og þá er ég að tala um þetta í víðu samhengi eins og tillagan býður upp á. Og ég held að þau ríki sem hér er verið að tala um að gætu lært af okkur Íslendingum með tækni og búið sig betur og byggt upp sinn flota o.s.frv. til þess að elta stofnana á sínu yfirráðasvæði, væru kannski betur komin með því að huga að öðrum veiðiaðferðum. Það sé nú ekkert víst að tækniuppbygging, hátækniflotar iðnaðarríkjanna eða fremstu fiskveiðiþjóða séu fyrirmyndin sem passi fyrir Namibíu og hvað þessi ríki heita sem hér eru nefnd og eru nú í fátæktinni og umkomuleysi að fara inn á það spor að selja aðgang að sínum fiskimiðum. Og ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort við eigum ekki að reyna að standa þannig að málum gagnvart okkar eigin landhelgi og eigin veiðum að við horfum fyrst og fremst til þessa svæðis og ekki bara þess sem við höfum nú lögsögu yfir heldur út fyrir hana tengt íslenskri fiskveiðilögsögu eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur minnt okkur á hér margoft og gerði síðast á þessum morgni. En það er nú eitthvað annað að gerast hér. Það er einmitt verið að hleypa hér inn fiskiskipum frá Evrópubandalaginu og ætli menn séu komnir þar í einhverja endastöð? Það grillir í þá stefnu frá Alþfl. að það geti nú verið svo sem alveg sama hver veiði þetta, það eigi bara að selja aðgang að auðlindinni og svo sitja menn heima í stofu og skipta með sér afrakstrinum af sölu veiðiheimildanna. Það er nefnilega leiðin inn í Evrópubandalagið. Það er möguleikinn sem Alþfl. sér til þess að fara inn í Evrópubandalagið, það er að taka hér upp allsherjarsölu á okkar fiskveiðilögsögu þannig að það geti hver boðið í og við hleypum þeim sem hæst býður inn í lögsöguna.
    Þessum hugleiðingum, virðulegi forseti, vildi ég koma hér á framfæri og ég nefni það að á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári og í tengslum við hana komu fram mjög athyglisverð sjónarmið og aðvaranir sem ég er sumpart að flytja hér, m.a. frá sjávarlíffræðingi sem ég vænti að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kannist við. Hann er kominn nokkur til ára sinna en sprækur þó í hugsun, Jacques Cousteau, franski sjávarlíffræðingurinn sem flutti eitthvert athyglisverðasta erindi sem fram kom í tengslum við umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári. Og ég bið menn um að íhuga þetta sem standa hér að flutningi og samþykkt þessarar tillögu. Ég geri ráð fyrir að skipta mér ekki af því hvaða niðurstöðu hún fær. Ég mæli þessi varnaðarorð hér. Ég geri ráð fyrir að hún verði samþykkt fyrst sjútvn. hefur sameinast um hana þótt með fyrirvörum sé af hálfu nokkurra nefndarmanna og ég ætla ekki að fara að leggjast hér í víking gegn þessari tillögu en mér er mjög til efs að menn séu á réttri slóð.