Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:02:56 (8316)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Á þessum notalega morgni finnst mér umræður hafi verið mjög uppbyggilegar og skýrt bæði fyrir mér og öðrum sjónarmið sem kannski hafa verið á sveimi og eru auðvitað á sveimi enn þá. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. sjútvrh. skýrði okkur frá því að Rússar hefðu sagt við hann að þeir mundu ekki heimila veiðar nema þeir fengju einhverjar veiðar í staðinn o.s.frv. Menn eru auðvitað uggandi yfir því og ekki síst ég að einmitt einhver slík rök kynnu að verða sett fram ef við færum að sækjast eftir, ef ég nota það orðalag, að sækjast eftir veiðiheimildum jafnvel hjá fjarlægum þjóðum. Það má aldrei gera með þeim hætti, því er ég sammála. Það gæti veikt okkar stöðu því við ætlum okkur í framtíðinni að vera aleinir um þetta gífurlega hafsvæði sem ég er að tala um þ.e. alveg norður á pól og suður undir Hattonbanka og allt Rochall-svæðið og reyndar svæðið á milli 200 mílna Noregs og Íslands líka. Um það semjum við ekki. Við þurfum þess vegna að gæta að því að við erum reiðubúnir að gera samninga við vanþróaðar þjóðir, sem báðir hagnast auðvitað af og ekki síst þeir, um það að við sjáum þeim fyrir þeirri þekkingu sem við höfum og getum jafnvel tekið þá í læri hjá okkur og sjálfir kennt þeim á sínum heimaslóðum. Við megum ekki rugla þessu saman. Umfram allt þá þurfum við einmitt í okkar litla þingi, þó það geti verið hávært stundum, við þurfum í okkar hagsmunamálum eins og alltaf að reyna að leita sátta og segja það sem óhætt er að segja fyrir opnum tjöldum en hitt sem vafasamara er eigum við að ræða í okkar hópi áður en það fer víðar. En takmarkið ætti að vera alveg ljóst, þessi víðáttumikla landhelgi sem heitir núna efnahagslögsaga og landgrunnsvæði er okkar eign. Við erum ekki bara eigendur að 200 mílum, við eigum a.m.k. jafnstórt svæði utan þeirra sem er friðað og okkar eign, það er okkar fullveldisréttur. Við þurfum auðvitað að fara dálítið með hægð en þó held ég varla. Þetta eru orðin alþjóðalög sem notuð eru í dómum hvar sem er.
    Það er verið að segja að ekki séu nægilega margir búnir að fullgilda hafréttarsáttmálann. Það skiptir engu máli. Að þjóðarétti eru þetta orðin lög og nálgast það nú raunar að ,,nægilegur`` fjöldi þjóða hafi fullgilt hafréttarsáttmálann. Þetta eru lög í raun eða ,,de facto`` eins og það heitir á lagamáli. Þannig hefur raunar allur þjóðaréttur orðið til. Hann hefur orðið til ýmist vegna valdbeitingar eða þá sem venjuréttur. Við Íslendingar kunnum þetta alveg, að halda okkar rétti þegar hægt er að sýna það með réttum lögum. Þess vegna ættum við þingmennirnir fyrst og fremst að hafa áhuga á því að vinna að þessum hafréttarmálum og víðar. Við getum líka aðstoðað erlendar þjóðir að finna það út, því það er stundum vandmeðfarið að reikna það nákvæmlega út, hve langt út eftir hafsbotninum réttindi þjóðarinnar eru einkaréttindi og hvar þeim lýkur þ.e. við brekkufót svokallaðan sem er þar sem höfin verða dýpst, þar sem aðalhalli hafsbotnsins er og 60 mílur út af honum. Það þarf vísindamenn til að mæla þetta allt út. Raunar er það nú þegar gert um allan heim af frægum stofnunum. Dr. Talwani sem var einmitt okkar trúnaðarmaður í öllum hafréttarmálunum og á hafréttarráðstefnunum og er það enn. Og ég hef flutt þau boð hans, af því að hann var hér á ferðalagi fyrir skömmu, að hann sé reiðubúinn til að athuga það að hjálpa okkur að finna nákvæmlega út hvað sé löglegt og hvað ekki löglegt. Svo mikið vitum við og það er á hreinu að ekki er verið að berjast fyrir einhverjum 200 mílum lengur, það er allt annað mál. 200 mílurnar verðum við auðvitað að friða alveg að öllu leyti og hleypa engri þjóð þar inn nokkurn tímann aftur. Það ætti að vera okkar takmark.