Mat á umhverfisáhrifum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:55:34 (8331)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en eins og fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa talað, m.a. hjá frsm., þá hefur verið mjög mikil vinna lögð í þetta frv. Raunar má segja að það sé nýtt frv. sem kemur hér fyrir þingið. Það hefði e.t.v. verið eðlilegra að flytja nýtt frv. um umhverfismat en í nefndinni varð niðurstaðan sú að flytja það með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. brtt. við það frv. sem kom frá hæstv. umhvrh. Það breytir því ekki að við þurftum að vinna gífurlega mikla vinnu., ég var að vísu fjarverandi drjúgan hluta af þessu, í veikindaforföllum, en nefndin vann gífurlega gott starf. Ég held að niðurstaðan sé vel ásættanleg en eins og alltaf vill verða þá hefðu kannski einhverjir viljað sjá eitt og eitt atriði öðruvísi, en breytir því ekki að um þessar brtt. var gott samkomulag. Á lokasprettinum reyndi auðvitað mest á hv. 5. þm. Norðurl. e. þegar upp komu alls konar vandamál þegar farið var að líta á málið í heild, en það urðu auðvitað miklu fleiri til þess að taka á málunum með þeim hætti að útkoman er að mínu mati mjög góð.
    Þetta er mjög mikilvægt mál og vona ég að þetta verði til farsældar fyrir landið, fyrir náttúruna. Ég vona að það verði sem fyrst farið að vinna að því að undirbúa málið en eins og fram kemur er ekki miðað við að frv. komi til framkvæmda fyrr en á næsta ári þar sem það krefst ákveðins undirbúnings.
    Ég vil bara ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og fyrir að fá að vera þátttakandi í að vinna að þessu máli en ég var einmitt ein af þeim sem töldu réttast að vísa því til baka til föðurhúsanna og segja þeim að koma með betur unnið frv. Sem betur fer var það ekki gert heldur ákvað nefndin að taka málið og vinna það. Árangurinn kemur nú fram á borðum þingmanna og vona ég að allir séu jafnánægðir með afkvæmið og við nefndarmenn í umhvn.