Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:15:30 (8342)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að gera stórar athugasemdir við hvernig forseti tekur hér mál á dagskrá. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að ef hv. stjórnarliðar halda áfram því framferði sem þeir hafa viðhaft hér í morgun, þá eru litlar líkur á því að við komumst hér mikið áfram með dagskrána. Þeir ýmist fella mál fyrir hver öðrum eða fara hér í harðar þingskapaumræður um dagskráruppröðun að því er virðist í þeim eina tilgangi að tefja þingstörf og halda uppi málþófi, svo ég noti nú þeirra eigin orð sem þeim er mjög tamt að taka sér í munn, til þess að forða ríkisstjórninni falli þar sem hv. stjórnarliðar treysta sér ekki til þess að halda áfram með dagskrána af ótta við það að hér komi til umræðu 25. mál sem er á dagskrá en eins og við fylgjumst með hér í hliðarsölum er allt í óvissu um það og allt upp í loft.