Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:17:13 (8343)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins undirstrika það sem hér hefur komið fram að í morgun var það stefna aðalforseta þingsins og lýst eftir því sérstaklega gagnvart þingmönnum að hér yrði fylgt þeirri stefnu í dag við meðferð mála á dagskrá að taka fyrst þau mál sem líklegt væri að ekki kölluðu á miklar umræður og væru samkomulag um frá nefndum. Og athygli forseta var vakin á því að nokkur mál væru á dagskránni sem þannig stæði á um og forseti tók við þeim skilaboðum. Ég tel að þetta sé skynsamleg stefna sem þarna var mörkuð af forseta og átti von á því að henni yrði fylgt. Þá gerist það að einn úr forsætisnefnd, hv. 5. þm. Austurl., gengur hér fram með fyrirgangi nokkrum og gleymir nú svona venjulegum kurteisissiðum gagnvart forseta í leiðinni og heimtar það að ekki sé fylgt þessari stefnu heldur sé önnur stefna uppi höfð. Þetta er satt að segja mjög sérkennilegt. Menn hljóta að spyrja, hvaða viðhorf eru það sem eiga að ráða hér ferðinni á þessum degi, virðulegi forseti, af hálfu þeirra sem ráða meira en við óbreyttir þingmenn um gang mála á dagskrá? Og ég vil bara vekja enn og aftur athygli á þessu. Ég mun ræða þetta 19. mál að sjálfsögðu þegar það er tekið fyrir og gera grein fyrir mínum sjónarmiðum og ég hef greint frá því að ég mundi þurfa að koma þar ýmsu á framfæri. Ég vek enn og aftur athygli forseta á því. Ef það er talinn besti háttur hér á þingstörfunum að það mál sé hér rætt næstu klukkustundirnar, þá mun ég að sjálfsögðu ekki skorast undan því, heldur nota minn rétt eftir sem efni standa til varðandi þetta þingmál. Og fyrst það er svo eindregið krafa hv. 5. þm. Austurl. að taka þátt í þeirri umræðu nú, þá ætla ég sannarlega ekkert að skorast undan því. Ég vil bara vekja ítrekaða athygli forseta á þessari stöðu mála.