Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:29:21 (8347)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það liggur við að maður geti bara sagt, ja hérna! Leyfum þingstörfunum að hafa sinn gang, sagði hv. 5. þm. Austurl. En greip síðan gróflega inn í stjórn hæstv. forseta á þinginu áðan. Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er fullfær um að svara hv. þm. um þeirra deilur ég ætla ekki að blanda mér í þær. En ég vildi taka það fram að ég er flutningsmaður einnig að þeirri tillögu sem er 20. mál á dagskrá þannig að það er ekki um að ræða að það séu eingöngu deilur milli 4. og 5. þm. Austurl. sem hér virðast vera komnar upp og mjög sérkennilega. Ég ítreka enn og aftur að ég tel að það sé forseti sem ræður hér störfum þingsins en ekki þingmenn utan forsetastóls. Auðvitað getur forseti tekið tillit til --- og er vanur að gera það --- þeirra óska og ábendinga sem koma eftir því sem forseti ákveður. En að vera að segja það hér: ,,leyfum þingstörfum að hafa sinn gang`` af hv. 5. þm. Austurl. með þeim hætti sem hann hefur blandað sér hér í þingstörf það þykir mér mjög sérkennilegt.