Atvinnuþróun í Mývatnssveit

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:30:57 (8349)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að segja að það sé mikil hugarró yfir formanni umhvn., hv. 5. þm. Austurl., þessa stundina. Hv. þm. kemur hér ítrekað í ræðustól og býr sér til tilefni og leggur öðrum orð í munn í sambandi við þá þingskapaumræðu sem hér fer fram. Og ekki aðeins það heldur brýtur þingsköp Alþingis trekk í trekk hér í þessari umræðu með því nú síðast með því að beina orðum sínum til þingmanns út í sal, þess sem hér stendur, og krefja hann svara. Ég spyr: Á hvaða forsendum eru menn sem þannig standa að verki settir inn í forsætisnefnd þingsins og ætlað það veigamikla hlutverk að stýra hér fundum sem ekki hafa áttað sig betur á þingsköpum Alþingis heldur en fram kemur í máli þessa hv. þm.?
    Ég veit ekki betur en í þingskapaumræðu, virðulegur forseti, þá sé það umræða milli þingmanns og forseta ( Forseti: Rétt.) en ekki við þingmenn úti í sal. Það sem hv. þm. kallar hótanir af minni hálfu, hefur kallað það svo, ég leyfi mér að skýra það mál fyrir virðulegum forseta hvernig það blasir við mér. Það er nú ekkert annað en það að ég hef leyft mér að benda hæstv. forseta á það sem fram fór hér í fundarbyrjun í morgun og sem lagt var af forseta þá sem grundvöllur fyrir starfi dagsins vegna þess að hæstv. forseti sem nú stýrir fundi held ég að hafi ekki hlýtt á þá umræðu á fyrstu mínútum fundar í morgun. Og ég hef bent á góðfúslega hvernig þingskjöl liggja fyrir hér að því er varðar 19. og 20. mál en jafnframt tekið fram mjög skýrt og skal endurtaka það að ekki mun ég leitast við að hafa áhrif að öðru leyti á það í hvaða röð mál eru tekin hér á dagskrá heldur aðeins taka þátt í umræðu eftir því sem efni standa til af minni hálfu.