Fuglaveiðar og fuglafriðun

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:33:52 (8350)

     Frsm. meiri hluta umhvn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Á nál. 1169 um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 33 frá 26. apríl 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þá vil ég gera grein fyrir þessu nál. svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á fund sinn Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, ferðamálaráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélagi Íslands, Náttúruverndarráði, Eyþingi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Lífi og landi, Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Samkvæmt 2. og 3. tölul. 5. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun eru fuglaveiðar heimilar öllum íslenskum ríkisborgurum á afréttum og í almenningum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Sama gildir um fuglaveiðar í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla. Lagt er til að í stað þess að lögfesta undanþáguheimild í formi reglugerðarsetningar verði einstaklingum með lögheimili hér á landi veittur sami réttur og íslenskum ríkisborgurum. Er það einnig í samræmi við orðalag samsvarandi ákvæðis í frumvarpi til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum o.fl. sem lagt var fram á þessu þingi en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Þá er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt frumvarpsins er ekki verið að veita aukinn rétt að öðru leyti en fyrr er greint. Þannig er t.d. ekki verið að heimila framsal fuglaveiðiréttar af hendi þess sem réttinn á eða öðlast kann.``
    Undir álit meiri hluta umhvn. rita Gunnlaugur Stefánsson, Tómas Ingi Olrich, Árni R. Árnason, Árni M. Mathiesen, Kristín Einarsdóttir, með fyrirvara, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara og Valgerður Sverrisdóttir.
    Um þetta mál er það að segja að það var flutt upphaflega tengt fyrirhuguðum breytingum vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Eftir skoðun í nefndinni og umræður þá varð það niðurstaða meiri hlutans að flytja þetta mál ótengt hinu Evrópska efnahagssvæði enda kemur það greinilega fram í brtt. er meiri hlutinn flytur þar sem lagt er til að gildistaka verði ekki háð gildistöku Evrópska efnahagssvæðisins heldur að lögin taki strax gildi og ég lít svo á að þeir sem undir nál. riti líti á þetta sem sjálfstætt mál.
    Ég vil leggja á það áherslu að hér er fyrst og fremst um réttarbót að ræða. Hér er einvörðungu verið að fjalla um það hverjir það eru sem eigi að njóta þess réttar er lög kveða á um varðandi fuglaveiðar á afréttum og í almenningi. Það er ekki verið að breyta á nokkurn hátt eða gera tillögur á nokkurn hátt um breytingar á afréttum eða almenningum heldur einvörðungu verið að falla um þann hóp fólks sem á að njóta þessa réttar. Það er ekki tekin afstaða til réttmætis þessa réttar sem í gildi er fyrir íslenska ríkisborgara, hvort skynsamlegt sé að hann sé í gildi eða ekki. Hér er verið að upphefja þann mismun sem virðist ríkja um að einvörðungu íslenskir ríkisborgarar fái að njóta þessa réttar en ekki aðrir þeir sem lögheimili eigi á Íslandi þótt þeir væru annars þjóðernis. Þetta er þess vegna fyrst og fremst réttarbót að mínu mati og líka spurning um eðlilega sanngirni og spurning um það hvort rétt sé að vera með mismunun á milli fólks eftir þjóðerni hvað varðar aðgang að þessum afmarkaða rétti.
    Að lokum vil ég segja að það hefur verið mjög góð samstaða í umhvn. Alþingis í allan vetur um öll þau mál sem nefndin hefur afgreitt frá sér. Ég hef leitast við að hafa forustu um að slík samstaða mætti ríkja um flest þau mál og öll þau mál sem nefndin hefur afgreitt frá sér. Kann að vera að stundum reynist það tímafrekara að starfa í nefnd undir slíkum kringumstæðum að leita eftir samkomulagi allra aðila um flest mál eins og frekast má og vonandi er það til þess að mál verði betur undirbúin þegar samstaða ríkir um niðurstöður.
    En hitt vil ég segja að hér í þessu máli verður undantekning. Hv. 4. þm. Austurl. skilar sér nál. og treystir sér ekki til að standa að þessari niðurstöðu málsins þótt við höfum komið til móts við almenn markmið sem nefndin hafði sett sér í sambandi við skoðun mála er tengjast EES, að skoða þau ekki fyrst og fremst út frá EES-markmiðum, heldur að skoða þau út frá íslenskum aðstæðum og í ljósi þeirra milliríkjasamnninga er við höfum gert og teljum að verði gerðir í nánd. En að okkar leiðarljós yrðu íslenskar aðstæður fyrst og fremst. Ég tel að það hafi tekist mjög vel að verja þau markmið og það markmið hér staðfest í þessu nál.
    Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til að þessu máli verði vísað til 3. umr.