Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:04:12 (8356)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það flækir mjög alla umræðu ef henni er blandað saman á þann hátt að hoppað er á milli mála. Enn þá flóknara verður þetta ef það er eins og það fari eftir forseta sem situr í stólnum hverju sinni hvaða mál séu tekin inn og hvaða mál séu sett út. Það skapar slíka óvissu um hvað ætlunin sé að gera. Ég segi fyrir mig að það er alveg vonlaust annað en að þessi sveitarstjórnarlög fái verulega umræðu, alveg gjörsamlega vonlaust annað. Ég spyr hæstv. forseta, dettur hæstv. forseta í hug að sveitarstjórnarlög, mikill málaflokkur, svífi bara hér eins og fótbolti í gegnum salinn án þess að það verði umræða? Þetta er nú einu sinni annað stjórnsýslustigið af tveimur yfir þessu landi. Er það orðið þannig að hægt sé að afgreiða slík mál eftir rennibraut á örfáum mínútum? Ég segi bara, það má þakka fyrir að sveitarstjórnarstigið ákveður ekki leikreglur efra stigsins ef þeir tækju upp á að hafa sömu vinnubrögð, ferðuðust bara á skautasvelli með málið. Ég held að það hljóti náttúrlega að vera skilningur á því að ef þær leikreglur eiga að vera hér sem forseti lýsti svo fagurlega, aðalforseti þingsins, að þau mál sem ekki yrði mikil umræða um yrðu tekin fyrir, þá verður náttúrlega að fara eftir því alveg án tillits til þess hvaða forseti situr í stólnum hverju sinni. Annars þarf hver forseti sem kemur í stólinn að gefa út sérstaka stefnuyfirlýsingu hvernig hann ætli að standa að því að stjórna fundinum. Megum við búast við því? Sex stefnuyfirlýsingar frá forsetum þingsins um hvernig eigi að standa að málum? ( Gripið fram í: Og svo séu þeir í þingsköpum þess á milli.) Og svo til að kóróna allt saman þá eru forsetarnir í þingsköpum af og til, til að rífast við hina forsetana ( Gripið fram í: Til að brjóta þau.) --- og brjóta þau.