Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:24:34 (8361)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er í sjálfu sér ekki verið að fjalla um nýtt mál á Alþingi Íslendinga. Hér er verið að fjalla um mál sem gífurleg vinna hefur verið lögð í. Sennilega hefur mesta vinnan verið lögð í þetta mál undir forustu Lárusar Jónssonar sem þá var þingmaður Norðurl. e. og með honum störfuðu þingmenn frá öllum stjórnmálaflokkum. Það var mikil skýrsla sem nefndin lagði fyrir þingið, mikil álitsgerð. Það merkilega var að skýrslan var varla komin út fyrr en nokkrir af forkólfum Sambands ísl. sveitarfélaga af suðvesturhorni landsins ruku upp með hávaða og hófu blaðaskrif og mæltu eindregið gegn niðurstöðum skýrslunnar.
    Einn daginn er talað um sveitarstjórnarstigið á þann veg að sjálfstæði þess eigi að vera sem mest. Við höfum samþykkt Evrópusamning á þessu sviði og það er dálítið merkilegt að við skulum skrifa undir slíka samninga á sama tíma og við höfum ráðherra yfir landinu sem telur að ekki þurfi meiri hluta atkvæðisbærra manna í sveitarfélagi til þess að taka ákvörðun um að svipta sveitarfélagið tilveru sinni. Það eru sjálfstæðir menn eða hitt þó heldur sem eru sviptir tilveru sinni. Með leyfi forseta get ég ekki látið hjá líða að vitna í þessa þáltill.:
    ,,Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem gerður var í Strassborg 15. október 1985.``
    Sáttmálinn er prentaður sem fskj. með þáltill. Til þess að það fari ekkert á milli mála og ljóst sé að þetta er ekki hugsað til skrauts er kannski rétt að fara lið fyrir lið niður í skyldurnar sem hið æðra stjórnsýslustig tekur á sig og einnig Alþingi Íslendinga eigi það að verða við því. það er rétt að lesa þetta upp, með leyfi forseta:
  ,,1. gr. Samningsaðilar skuldbinda sig til að telja sig bundna af eftirfarandi greinum á þann hátt og að því marki sem fyrir er mælt í 12. gr. þessa sáttmála.
    2. gr. Stjórnskipunarlegur og lagalegur grundvöllur sjálfsstjórnar sveitarfélaga.
    Meginreglan um sjálfsstjórn sveitarfélaga skal viðurkennd í landslögum og í stjórnarskránni ef unnt er.
    3. gr. Hugtakið sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    1. Sjálfsstjórn sveitarfélaga gefur til kynna rétt og getu sveitarstjórna til að stjórna og annast lögum samkvæmt verulegan hluta opinberra mála á eigin ábyrgð og íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta.
    2. Þessi réttur skal vera í höndum ráða eða þinga skipuðum fulltrúum kjörnum í frjálsum og leynilegum kosningum, sem byggjast á milliliðalausum, jöfnum og almennum kosningarétti, og sem geta haft á að skipa framkvæmdanefndum ábyrgum gagnvart þeim. Þetta ákvæði skal á engan hátt rýra rétt þegnanna til að fjalla um mál á borgarafundum, í þjóðaratkvæðagreiðslum eða á hvern annan hátt sem lög leyfa beina þátttöku þegnanna.
    4. gr. Sjálfsstjórnarsvið sveitarfélaga.
    1. Í stjórnarskrá eða lögum skal kveðið á um réttindi og skyldur sveitarstjórna í grundvallaratriðum. Þetta ákvæði skal þó ekki hindra það að sveitarstjórnum verði veitt vald og ábyrgð í sérstökum tilgangi samkvæmt lögum.
    2. Sveitarstjórnir skulu lögum samkvæmt hafa heimild til þess að eigin frumkvæði að taka til meðferðar sérhvert mál sem ekki er undanþegið valdsviði þeirra eða falið öðru stjórnvaldi.``
    Þetta fjallar sérstaklega um það að æðra stjórnvald getur ekki sett um það reglur hvert sé verksvið sveitarfélaga heldur geti sveitarstjórnarstigið sjálft tekið það upp. Samkvæmt greininni hefur sveitarstjórnarstigið heimild til þess að skipa nefnd og láta rannsaka hvort rekstur ríkisins og stjórnsýsla sé eðlileg og hvort leggja beri niður efsta stjórnsýslustigið eða færa þar eitthvað til. Frelsið er til þess að taka fyrir hvað sem þeir vilja til athugunar.
  ,,3. Opinber trúnaðarstörf skulu að öðru jöfnu vera innt af hendi af þeim stjórnvöldum sem næst standa þegnunum. Þegar trúnaðarstarf er falið öðru stjórnvaldi skal tekið tillit til umfangs og eðlis verkefnisins og þörf á aukinni virkni og hagkvæmni.``
    Hér er beinlínis vikið að því að færa valdið ekki svo langt frá þegnunum að hinn almenni maður geti lent í erfiðleikum með að ná tali af þeim sem hann þarf að tala við innan sveitarstjórnarstyrksins. Hvað skyldu það vera margir tugir km? Ætli það sé eðlilegt að það séu 100 km sem menn eru að tala um í þessu sambandi?
  ,,4. Það vald sem sveitarstjórnum er veitt skal að öllu jöfnu vera fullt og óskorað. Það má annað stjórnvald ekki skerða eða takmarka, hvort sem er um að ræða ríkis- eða héraðsstjórnarvald, nema samkvæmt heimild í lögum.
    5. Þegar ríki eða héraðsstjórn felur sveitarstjórnum vald skal, eftir því sem unnt er, veita þeim svigrúm til að aðlaga framkvæmd þess aðstæðum í sveitarfélaginu.``
    Hér er beinlínis farið fram á það við löggjafann að hann hafi lagasetninguna það rúma að hún sé ekki miðuð við stærstu sveitarfélögin heldur sé tekið tillit til stöðu hinna ýmsu stærða sveitarfélaga og lagasetningin sett í samræmi við það.
  ,,6. Leita skal álits sveitarstjórna í tæka tíð og á viðeigandi hátt, ef unnt er, varðandi skipulagningu og ákvarðanir í öllum málum sem þær varða.

    5. gr. Vernd staðarmarka sveitarfélaga.
    Ekki skal gera breytingar á staðarmörkum sveitarfélaga án þess að leita fyrst álits viðkomandi sveitarfélaga svo sem með almennri atkvæðagreiðslu þar sem lög leyfa.``
    Almenn atkvæðagreiðsla getur aldrei verið túlkuð á annan veg en þann að fara eigi eftir meirihlutaréttinum eins og gert er í öllum venjulegum kosningum. Samt þarf að flytja hér brtt. á þann veg að meiri hlutinn eigi að ráða í atkvæðagreiðslunni. Sú brtt. kemur fram á tillögu Kristins Gunnarssonar.
  ,,6. gr.
    2. Ráðningarkjör starfsmanna sveitarfélaga verða að vera slík að unnt sé að ráða hæfileikafólk á grundvelli verðleika og getu. Til þess að tryggja þetta verður að veita starfsmönnum viðunandi tækifæri til þjálfunar, launa og frama í starfi.
    7. gr. Starfsskilyrði sveitarstjórnarmanna.
    1.     Starfsskilyrði kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum skulu vera slík að þeir geti óhindrað framkvæmt skyldustörf sín.
    2. Þau skulu gera ráð fyrir hæfilegu endurgjaldi vegna kostnaðar við framkvæmd þessara skyldustarfa og, þar sem það á við, hæfilegum bótum vegna tekjutaps eða greiðslu fyrir unnin störf og samsvarandi félagslega vernd.
    3. Með lögum eða grundvallarreglum skal ákveða hvaða störf og athafnir skulu teljast ósamrýmanleg stöðu kjörins sveitarstjórnarmanns.
    8. gr. Eftirlit með starfsemi sveitarstjórna.
    1. Allt eftirlit með starfsemi sveitarstjórna má einungis framkvæma á þann hátt og í þeim tilvikum sem mælt er fyrir í stjórnarskránni eða í lögum.
    2. Allt eftirlit með starfsemi sveitarstjórna skal að jafnaði aðeins beinast að því að farið sé að lögum og grundvallarreglum stjórnskipunar. Þegar hentar geta æðri stjórnvöld þó haft eftirlit með framkvæmd sveitarstjórna á verkefnum sem viðkomandi stjórnvöld hafa framselt sveitarstjórnum.
    3. Eftirlit með sveitarstjórnum skal framkvæma á þann hátt að hægt sé að tryggja að íhlutun eftirlitsstjórnvalds sé í hlutfalli við mikilvægi þeirra hagsmuna sem því er ætlað að vernda.``
    Hér komum við svo að næstu grein og þar er gripið á kjarnaatriðum þess að samningurinn var staðfestur.
  ,,9. gr. Tekjustofnar sveitarfélaga.
    1. Sveitarstjórnum skuli tryggðir fullnægjandi tekjustofnar innan ramma hinnar opinberu fjármálastefnu og skal þeim frjálst að ráðstafa þeim að eigin vild innan valdsviðs síns.
    2. Tekjustofnar sveitarfélaga skulu vera í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskránni og lögum.
    3. Að minnsta kosti hluti af tekjum sveitarstjórna skal eiga rætur sínar að rekja til staðbundinna skatta og þjónustugjalda og hafa sveitarstjórnir vald til að ákveða upphæð þeirra eftir því sem kveðið er á um í lögum.
    4. Fjármálakerfið sem tiltækar tekjur sveitarstjórna grundvallast á skal vera nægilega fjölþætt og sveigjanlegt í eðli sínu til þess að geta haldið í við raunverulega hækkun kostnaðar við framkvæmd verkefnanna, svo sem framast er unnt.
    5. Til að tryggja hag sveitarstjórna, sem standa verr að vígi fjárhagslega, þarf að vera fyrir hendi fyrirkomulag um jöfnun tekna eða samsvarandi aðgerðir sem hafa það markmið að leiðrétta áhrif ójafnrar tekjuskiptingar og þeirra útgjalda sem þær þurfa að standa undir. Slíkar leiðir og aðgerðir skulu ekki draga úr athafnafrelsi sveitarstjórna innan valdsviðs þeirra.
    6. Á viðeigandi hátt skal leita álits sveitarstjórna á úthlutun jöfnunargreiðslna til þeirra.
    7. Framlög til sveitarstjórna skal ekki, ef unnt er, eyrnamarka til fjárjöfnunar á sérstökum verkefnum. Veiting framlaga skal ekki skerða grundvallarrétt sveitarstjórna til athafnafrelsis innan staðarmarka þeirra.
    8. Sveitarstjórnir skulu innan marka laganna hafa aðgang að innlenda lánsfjármarkaðnum til lántöku vegna fjárfestinga.``
    Hér er rétt að staldra við. Hvað yrði sagt um þann frambjóðanda sem bæri fé á menn til þess að reyna að hafa áhrif á það hvernig þeir stæðu að kosningum? Hvað yrði sagt við slíkan aðila? Hvernig hefur hæstv. félmrh. staðið að þeirri reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem félmrh. hefur undir höndum? Hún hefur gengið þannig til þessa verks að það væri auðvelt dæmi fyrir þá sem bjuggu í Eyjafjarðarsveit að reikna það út að ef sveitarfélögin sameinuðust kæmu stórauknar greiðslur úr Jöfnunarsjóðnum til þeirra og þá er það spurningin: Eru það heiðarleg vinnubrögð að standa með sjóðinn í hendinni og segja: Ef þið sameinist látum við ykkur hafa meiri peninga? Er það í samræmi við þessa grein? Samkvæmt þessari grein var félmrh. að mínu viti skyldugur til þess að láta þessi sveitarfélög fá sambærilega fjármuni hvort heldur þau stæðu að sameiningu eða ekki. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hitt er skýlaust brot á þeirri grein sem ég var að lesa upp áðan. Hver er þá tilgangurinn með að það eigi að samþykkja svona samninga ef ráðherrar ganga um á skítugum skónum og troða á þeim rétti sem þeir hafa lagt áherslu á að yrði staðfestur? Annaðhvort eru sveitarfélögin með þennan rétt að þau eigi sjálf að ráða sínum málum og ekki eigi að vera hægt að mismuna þeim á þann hátt sem gert er í gegnum sjóðinn eða þá að samningurinn er rugl,

algert rugl. Ég hefði ráðlagt þeim sem stóðu að því að fara yfir þessi mál að lesa samninginn nokkuð vel áður en þeir fóru í að skoða þetta.
    Hér kemur líka sem meginregla fram sú krafa að fjármagn til sveitarfélaga á ekki að eyrnamerkja. Það á að veita féð til sveitarstjórna og sveitarstjórnirnar eiga að taka ákvörðun um það í hvað fjármunirnir eiga að fara. Er farið eftir þessu? Ég held nú síður. Það er ekki farið eftir þessu.
    Nei, aðferðin er ákaflega einföld. Félmrh. hefur komið því þannig fyrir með aðstoð Alþingis Íslendinga að verulegum fjármunum er safnað í ákveðinn sjóð, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þegar kemur að því að greiða úr sjóðnum þá er troðið á minnstu sveitarfélögunum alveg miskunnarlaust, þörf þeirra fyrir jöfnun er ekki virt. Hún verður aðeins virt ef þau sameinast. Þetta veit hv. þm. mætavel, Guðjón Guðmundsson, 5. þm. Vesturl. Hann þekkir þessi mál örugglega. Hann veit um sveitarfélagið sem stofnað var í Skaftafellssýslunum. Hann veit hvaða hækkanir þeir fengu sem voru á því svæði, vegna sameiningarinnar. Hann veit hvaða hækkun var einnig afhent þeim sem sameinuðust í Eyjafjarðarsveit. En í hverju liggur þá blekkingin? Aukast fjármunir á Íslandi við það að allir sameinist? Aukast fjármunirnir? Nei. Þegar allir eru búnir að beygja sig undir valdið þá minnka peningarnir aftur vegna þess að þá verður ekkert forréttindasveitarfélag. Samkvæmt þessu er þá búið að ganga þannig frá því að það er sami sjóður sem er farinn að dreifa á annan hátt.
    Í reynd er það svo að hæstv. félmrh. hefur staðið með gullið og dreift því út til þeirra sem eru þóknanlegir þeirri stefnu sem félmrh. hefur viljað viðhafa í þessum málum.
    Herra forseti. Ég hyggst, með leyfi forseta, halda hér áfram lestri upp úr þessum samningi:
 ,,10. gr. Réttur sveitarstjórna til að stofna samtök.
    1. Sveitarstjórnum skal heimilt í starfi sínu að hafa samvinnu við og innan marka laganna að stofna til samtaka með öðrum sveitarstjórnum í því skyni að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.
    2. Sérhvert ríki skal viðurkenna rétt sveitarstjórna til að eiga aðild að samtökum til verndunar og eflingar sameiginlegra hagsmuna og til að eiga aðild að alþjóðlegum samtökum sveitarstjórna.
    3. Sveitarstjórnum skal heimilt, með þeim skilmálum sem sett kunna að vera í lögum, að eiga samvinnu við hliðstæða aðila í öðrum ríkjum.``
    Fyrsta atriði þessarar greinar fjallar um það að ef sveitarfélög eru það fámenn og veik að þau treysta sér ekki sjálf til að leysa þau verkefni ein og óstudd sem til er ætlast af löggjafanum er gert ráð fyrir þeim möguleika að þau eigi samvinnu við önnur sveitarfélög og leysi málið með þeim hætti. Þetta er beinlínis bundið í samningnum. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu því þessi réttur er það mikilsverður, það er eini möguleikinn fyrir smærri sveitarfélög landsins til að halda sjálfstæði sínu að þessi réttur sé til staðar. Þá vík ég að næstu grein, með leyfi forseta:
 ,,11. gr. Lögvernd sjálfsstjórnar sveitarfélaga.
    Sveitarstjórnir skulu hafa rétt til að leita aðstoðar dómstóla til þess að tryggja sjálfsstjórn sína og til þess að haldnar séu í heiðri þær grundvallarreglur um sjálfsstjórn sem lögfestar eru í stjórnarskránni eða löggjöf landsins.``
    Eitt af því sem lögfest hefur verið, hæstv. forseti, er þessi samningur. Það þýðir, að telji sveitarstjórn brotið á sér með þennan samning, þá hefur sveitarstjórnin heimild til að stefna hæstv. félmrh. á grundvelli samningsins. Svo einfalt er það mál. Ef sveitarstjórn telur Jöfnunarsjóðnum misbeitt, það sé ekki farið eftir leikreglunum sem tilteknar eru samkvæmt tekjuskiptingunni, þá hefur sveitarfélagið heimild til þess að stefna félmrh. eða stjórn Jöfnunarsjóðsins og sækja sinn rétt. Það eru dómstólar sem mundu skera úr því hvort rétt væri skipt. Svo alvarlegt er það mál. Og ég er ekki búinn að sjá það að nokkur dómstóll mundi kveða upp þann úrskurð að það gerbreytti rétti til þess að veita fjármagn á ákveðið svæði hvort þar væru sveitarfélög sameinuð eða ekki því grundvallaratriðið í þeim efnum hvort sveitarfélögin eigi að fá fjármagn er skilgreint út frá því hver þörfin er. Þörfin breytist ekki nokkurn skapaðan hlut við það að nokkur sveitarfélög séu gerð að einu sveitarfélagi. Talið er að það sé til hagræðingar og ef eitthvað ætti að vera, samkvæmt þessum samningi, þá ætti það að geta leitt til þess að þau fengju minni peninga eftir en áður.
  ,,II. hluti. Ýmis ákvæði.
    12. gr. Skuldbindingar.
    Sérhver aðili skuldbindur sig til að telja sig bundinn af a.m.k tuttugu ákvæðum í I. hluta sáttmálans, þar af skulu a.m.k. tíu vera valin úr eftirfarandi ákvæðum:
     2. gr.,
     3. gr. 1. og 2. tölul.,
     4. gr., 1., 2. og 4. tölul.,
     5. gr.,
     7. gr. 1 tölul.,
     8. gr. 2. tölul.,
     9. gr., 1., 2. og 3. tölul.,
    10. gr., 1. tölul.
    11. gr.
    2. Sérhver aðili skal tilkynna aðalframkvæmdastjórn Evrópuráðsins um þau ákvæði sem hann hefur valið sér skv. 1. tölul. þessarar greinar þegar hann afhendir fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal sitt.``
    Nú er það mín spurning til hæstv. félmrh., hvaða atriði af þessum voru send utan á sínum tíma sem staðfesting á því að þetta væri það sem Ísland mundi virða í þessum samningi? Hver voru þau atriði? Ég óska eftir því við hæstv. forseta, miðað við það að hæstv. félmrh. keyrir þetta mál áfram, að hæstv. forseti óski eftir viðveru hæstv. félmrh. til þess að fá svar við þeirri spurningu sem fram kemur í 12. gr. samningsins. Hvaða atriði voru það sem Ísland skuldbatt sig til að virða? Ég óska eftir að fá afhent það skjal sem þar var sett fram. Hafi Íslendingar ekki sent neitt skjal með þá er það staðfesting á því að þeir ætluðu að virða hvert einasta atriði þessa samnings. Með leyfi hæstv. forseta vil ég halda áfram:
  ,,3. Sérhver aðili getur hvenær sem er síðar tilkynnt aðalframkvæmdastjóranum að hann telji sig bundinn af ákvæðum í sáttmála þessum sem hann hefur ekki þegar samþykkt í samræmi við 1. tölul. þessarar greinar. Slíkar síðar gefnar skuldbindingar skulu taldar óskiljanlegur hluti fullgildingar, viðurkenningar eða samþykktar þess aðila sem tilkynninguna sendir og skulu þær taka gildi frá fyrsta degi þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóri tók við tilkynningunni.
    13. gr. Stjórnvöld sem sáttmálinn tekur til.
    Grundvallarreglur sjálfsstjórnar sveitarfélaga sem sáttmáli þessi fjallar um, taka til allra flokka sveitarstjórna sem fyrir hendi eru á landsvæði aðila. Hver aðili getur þó, þegar hann afhendir fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal sitt, tiltekið þá flokka sveitar- eða héraðsstjórna sem hann ætlar að láta ákvæði sáttmálans taka til eða þá flokka sem hann hyggst undanskilja ákvæðum sáttmálans. Hann getur einnig látið ákvæði sáttmálans taka til fleiri flokka sveitar- eða héraðsstjórna með síðari tilkynningum til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.``
    Mín spurning til hæstv. ráðherra er þessi: Voru íslensk sveitarfélög flokkuð niður eftir gæðum á þann hátt að tilkynnt var að sum þeirra ættu ekki að njóta þeirrar verndar sem þessi sáttmáli býður upp á? Var tilkynnt að það væru einhver sérstök sveitarfélög sem ættu að njóta þessarar verndar? Önnur sveitarfélög skyldu ekki njóta verndar sáttmálans. Það er mikilvægt að hæstv. félmrh. geri grein fyrir þessu. Þá held ég, með leyfi forseta, áfram lestrinum og vík að III. hluta, 15. gr.:
  ,,15. gr. Undirritun, fullgilding og gildistaka.
    1. Aðildarríki Evrópuráðsins geta undirritað þennan sáttmála. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra ráðsins til vörslu.
    2. Sáttmáli þessi gengur í gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að fjögur aðildarríki Evrópuráðsins hafa lýst samþykki sínu á að vera bundin af sáttmálanum samkvæmt undanfarandi tölulið.
    3. Gagnvart hverju aðildarríki sem síðar lýsir samþykki sínu á að vera bundin af honum tekur sáttmálinn gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjalið er afhent.
    16. gr. Ákvæði um landsvæði.
    1. Sérhverju ríki er heimilt við undirritun eða við afhendingu fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjals síns að tilgreina það eða þau landsvæði sem þessi sáttmáli nær til.``
    Enn er vikið að þeim möguleika að við fullgildingu sáttmálans hafi viss svæði landanna verið skilin undan eða ætlaður annar réttur. Það er því mjög mikilvægt að upplýst sé hér í þinginu: Var svo gert eða ekki? Með leyfi hæstv. forseta vil ég halda áfram lestrinum og víkja að 3. atriðinu í 16. gr.:
  ,,3. Sérhverja yfirlýsingu sem gefin er samkvæmt tveimur undanfarandi töluliðum má afturkalla fyrir hvert það landsvæði, sem þar er tilgreint, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Afturköllunin öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst tilkynningin.``
    Ég lít svo á, herra forseti, að fyrst Alþingi Íslendinga samþykkti þennan sáttmála þá sé ekki hægt að tilkynna í dag af neinum aðila að ákveðin landsvæði séu undanskilin þessum sáttmála nema það sé borið undir Alþingi Íslendinga að svo skuli gert. Þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, halda áfram lestrinum:
  ,,17. gr. Uppsögn.
    1. Sérhver aðili getur sagt upp sáttmála þessum hvenær sem er eftir að liðin eru fimm ár frá þeim degi að sáttmálinn gekk í gildi, hvað hann varðar. Veita skal aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins sex mánaða frest. Slík uppsögn hefur þó ekki áhrif á gildi sáttmálans hvað aðra aðila varðar, að því tilskildu að þeir séu aldrei færri en fjórir.
    2. Í samræmi við ákvæði undanfarandi töluliðar getur sérhver aðili sagt upp hvaða ákvæði sem er sem hann hefur samþykkt í I. hluta sáttmálans að því tilskildu að aðilinn verði áfram bundinn hvað varðar fjölda og eðli þeirra ákvæða sem 1. tölul. 12. gr. áskilur. Sérhver aðili sem segir upp ákvæði og fullnægir þar með ekki lengur skilyrðum 1. tölul. 12. gr. telst einnig hafa sagt upp sáttmálanum.``
    Hér er skýrt tekið fram að það eru fimm ár sem verða að líða áður en hægt er að segja upp þessum sáttmála. Og miðað við það að hv. 5. þm. Norðurl. v. hvetur mjög til að við samþykkjum alla þá alþjóðlegu sáttmála sem hægt er og hafa einhvers staðar verið samþykktir þá bið ég hann að huga að því næst þegar rekið verður á eftir samþykkt sáttmála að það verði ekki til þess að hengja ráðherra í þeim ríkisstjórnum sem hann sjálfur styður. Ég fæ ekki séð að hæstv. félmrh. geti misnotað sitt vald varðandi Jöfnunarsjóðinn eins og gert hefur verið miðað við það sem hér stendur í þessum sáttmála, herra forseti, nema hæstv. ráðherra hafi sent á sínum tíma til Evrópuráðsins tilkynningu um að eitt og annað í þessum sáttmála ætti ekki að gilda hér á landi.
    Ég ætla ekki að sinni að hafa hér lengra mál. En það er óhjákvæmilegt, gersamlega óhjákvæmilegt, að fara ítarlega yfir þær tillögur sem Lárus Jónsson lagði til varðandi skipulagsmál mannlífs í þessu landi á lægri stjórnsýslustigum vegna þess að það er eina skýrslan sem unnin hefur verið á faglegan hátt um þessi mál. Yfir hinum skýrslunum hafa vissir hrægammar, kóngar af ákveðnum svæðum, viljað sitja og skipta sér af. Þau vinnubrögð eru ekki til góðs. Þetta er eitt af því sem varðar hvernig skynsamlegast sé að standa að stjórnsýslu í landinu. Það verður aldrei hægt að skipta slíku niður eftir því hverjir hafa verið kosnir í hreppsnefnd eða sveitarstjórn á ákveðnu tímabili. Þar verður að ríkja meiri víðsýni í ákvarðanatöku.