Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:58:15 (8362)

     Frsm. félmn. (Guðjón Guðmundsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna hugleiðinga hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um brtt. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og meðferð hennar þá vil ég láta það koma skýrt fram að í þessu frv. er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að meiri hluti ráði úrslitum. Það segir orðrétt hér í 2. mgr. 2. liðar 1. gr. þessa frv., með leyfi forseta:
    ,,Hljóti tillaga umdæmanefndar meiri hluta greiddra atkvæða í öllum þeim sveitarfélögum sem málið varðar, skulu sveitarstjórnir þær sem hlut eiga að máli taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur nauðsynleg atriði.``
    Ég bendi hv. þm. á að lesa þessa grein, þarna kemur þetta mjög skýrt fram.
    Vegna hugleiðinga hans um efni þessa máls í heild sinni þá vil ég segja að hér er að sjálfsögðu alls ekki gert ráð fyrir neinum þvingunaraðgerðum, það á ekki að þvinga nokkurn mann eða nokkurt sveitarfélag til að sameinast öðru. Það er eingöngu gert ráð fyrir nokkurs konar skoðanakönnun, þ.e. að fólkið í öllum sveitarfélögum landsins taki þátt í atkvæðagreiðslu um hvort það vill sameinast öðrum sveitarfélögum eða ekki. Vilji fólk það ekki þá verður auðvitað engin sameining.