Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 14:52:14 (8365)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið allmikil umræða um þetta frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og sameiningarmálin almennt hafa verið mjög til umfjöllunar, bæði hér og í þjóðfélaginu. Margir hafa talað um sameiningu sveitarfélaga sem allra meina bót og út af fyrir sig ef það væri, þá væri auðvitað löngu búið að sameina sveitarfélög í stórum stíl. En það eru margir annmarkar á því oft og tíðum að sameina sveitarfélög.
    En um hvað fjallar þetta frv., sem við erum hér að tala um? Í stuttu máli fjallar frv. einfaldlega um það að leyfa fólki á lýðræðislegan hátt að segja álit sitt á sameiningu sveitarfélaga og það er það sem hefur komið út úr allri þessari vinnu sem sveitarfélaganefndin hefur verið að vinna í, það er að fram fari kosningar um sameiningu sveitarfélaga. Menn hljóta að vera sammála því. Þetta er hin lýðræðislega leið sem rétt er að fara. Og menn voru mjög ánægðir þegar þessi niðurstaða kom þó að sumir segðu að þetta hefði hvorki verið fugl né fiskur því að það eru svo sem engar sérstakar ákvarðanir teknar með þessu frv. aðrar en þessar kosningar. Þetta er sem sagt skoðunarkönnun um þetta mál.
    En eins og hér hefur komið fram, þá var Adam ekki lengi í Paradís því að um leið og menn voru að fagna því að nú mætti fólk á lýðræðislegan hátt fara að fjalla um þessi mál, þetta yrði fært frá sveitarstjórnarmönnum, eins og þessi umræða hefur jafnan verið milli sveitarstjórnarmanna, til fólksins sem nýtur þjónustu sveitarfélaganna, þá kemur hæstv. félmrh. í fjölmiðla og segir: Ef þið etið ekki þennan bita, sem sagt, ef þið samþykkið ekki stærri sameiningar, þá verður að líkindum breytt lögum þannig að sveitarfélögin verði gerð stærri, sem sé lögum samkvæmt. Og það kemur auðvitað afturkippur í þetta mál þegar fólki finnst það hálfpartinn vera platað með þessari skoðanakönnun því ef fólkið er ósammála í skoðanakönnun, ósammála stórri sameiningu, þá kemur yfirvaldið með lögboð um sameiningu. Það er þetta sem menn hafa verið að gagnrýna hér og eru ekki ánægðir með. En það sem mér finnst þó jákvæðast við þetta er að umræðan fer yfir af sveitarstjórnarstiginu til hins almenna borgara og það er það sem hefur alla tíð vantað þegar verið er að tala um þessa sameiningu. Hvað getum við fengið með þessari sameiningu í aukinni og bættri þjónustu? Það er það sem skiptir máli.
    Ég vona svo sannarlega að sú ágæta tillaga sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem tengist þessu máli nái fram að ganga, að eins og kemur fram í þessu frv., þá er einfaldur meiri hluti sem fær því ráðið í kosningu en það er ekki hin almenna regla samkvæmt sveitarstjórnarlögum og auðvitað þarf að breyta þeirri reglu, að það sé ein regla sem gildi og það er um það sem tillaga hv. þm. fjallar. Og ég skil ekki þá stífni að menn skuli ekki vera tilbúnir að samþykkja svo einfalda og sjálfsagða tillögu.
    Meira ætla ég ekki að segja í þessu máli að svo stöddu, en mun að sjálfsögðu samþykkja þetta frv.