Húsnæðisstofnun ríkisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 15:21:03 (8369)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur vakið undrun manna að þegar verið er að endursemja löggjöf um húsnæðismál hér á landi skuli af hálfu stjórnvalda ekki vera lögð fram nein tillaga til að mæta þeim vanda sem uppi er vegna atvinnuleysis og tekjubrests og kemur fram í vaxandi vanskilum fólks af lánum vegna íbúðakaupa. Tillögur sem um það hafa verið fluttar í þá veru hafa allar verið felldar. Svo gleðilega vildi þó til

að tveir þingmenn Alþfl. lögðu fram tillögu sem gekk út á það að félmrh. skipaði nefnd til að undirbúa löggjöf um greiðsluaðlögun fólks. Sú tillaga var það seint fram komin að hún hefur ekki fengist tekin á dagskrá eða rædd. Því hef ég ákveðið að veita þeim tveimur þingmönnum Alþfl. þann stuðning í máli sínu að flytja þessa tillögu efnislega óbreytta sem ákvæði til bráðabirgða við þessi lög og vænti stuðnings hv. þm. Alþfl. við það og segi já.