Húsnæðisstofnun ríkisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 15:25:47 (8372)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í ársskýrslu sinni fyrir árið 1991 segir framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar m.a. eftirfarandi um greiðsluerfiðleikamál:
    ,,Veiting svokallaðra greiðsluerfiðleikalána hófst á nýjan leik í ársbyrjun eftir nokkurt hlé. Voru þau nú veitt í formi húsbréfa. Gríðarmikil þörf var fyrir þessa aðstoð eins og sjá má af því að 1.840 umsóknir bárust til úrlausnar. Lagaheimildin gilti aðeins til ársloka 1991, en ótvíræð þörf virðist enn vera fyrir hendi þótt í miklu minna mæli sé.``
    Það er í samræmi við þetta og góðra gjalda vert að hv. þm. Alþfl., Össur Skarphéðinsson og Sigbjörn Gunnarsson, fluttu svohljóðandi þáltill. sem er á þskj. 878:
    ,,Tillaga til þingsályktunar um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Nefndin skal m.a. kanna svipuð lög annars staðar á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af þeim.``
    Nú hefur þessi tillaga ekki náð að koma á dagskrá eins og kunnugt er, hæstv. forseti, en þess í stað gefst mönnum, og þá ekki síst flm. tillögunnar, kostur á að styðja hana í reynd í formi brtt. á þskj. 1218, en sú brtt. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Við lögin``, þ.e. lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, ,,bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á árinu 1993 skal starfa þriggja manna nefnd er félmrh. skipar er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Nefndin skal kanna svipaða löggjöf á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af henni.``
    Væntanlega hefur þessi þáltill. þeirra hv. þm. Alþfl. verið flutt með vitund, vilja og samþykki þingflokks Alþfl. og væntanlega stendur hún enn í fullu gildi í dag. Þess vegna eru það auðvitað fáheyrð tíðindi þannig að ég man ekki önnur slík sem hér gerast áðan þegar annar flm. tillögunnar greiðir atkvæði gegn efnislega sinni eigin tillögu á einu og sama þinginu. Slíks minnist ég ekki fyrr og það verður fróðlegt að heyra hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson bregst svo við hér á eftir, en hann er mjög nálægt ræðumanni í stafrófinu og kemur þar af leiðandi röðin að honum innan skamms. Fylgir hann nú í hina lágu götu flm. sem með honum var á tillögunni og greiðir atkvæði gegn sinni eigin tillögu og þar af leiðandi væntanlega eigin samvisku og sannfæringu? En ég segi að sjálfsögðu já, hæstv. forseti, þar sem þetta er heldur þörf tillaga.