Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er í framhaldi af atburðum sem urðu í atkvæðagreiðslunni áðan að ég óska eftir því að hæstv. forseti úrskurði um það hvort þáltill. á þskj. 878, till. til þál. um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum, sem flutt er af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Sigbirni Gunnarssyni hafi í atkvæðagreiðslunni áðan fengið endanlega meðferð á þessu þingi og verið felld. Í ljósi þess að efnislega nákvæmlega samhljóða ákvæði voru felld í atkvæðagreiðslunni áðan þá hlýtur að koma til álita hvort ekki eigi við það ákvæði þingskapa að sama mál geti ekki komið fyrir á einu og sama þinginu þegar það hefur einu sinni verið afgreitt eða fellt. Sé svo þá er þáltill. væntanlega fallin út af dagskrá þessa þings og verður ekki aftur upp tekin. Ef svo er ekki og forseti úrskurðar á þann veg að hún geti eftir sem áður verið á dagskrá og komið hér fyrir þá er að sjálfsögðu eðlilegt í ljósi ummæla flm. að óska eftir því að tillagan komist á dagskrá.