Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 17:54:17 (8396)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem báðir þeir nefndarmenn sem hafa skrifað undir álit minni hluta landbn. eru fjarverandi þá hef ég tekið að mér að koma á framfæri áliti minni hluta sem Kristín Ástgeirsdóttir er framsögumaður að.
    Í þessu áliti segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er á ferð eitt af þeim frumvörpum sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Frumvarpið er til komið vegna þeirra ákvæða sem felast í bókun 3 í EES-samningnum en hún kveður á um að heimilt verði að flytja inn ýmsar landbúnaðarvörur, þar með taldar einstakar mjólkur- og kjötvörur sem ekki hefur verið heimilt að flytja inn hingað til. Bókunin stríðir gegn núgildandi lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og því þarf að breyta þeim verði samningurinn að veruleika. Samkvæmt nýsamþykktum tollalögum er heimilt að leggja verðjöfnunargjöld m.a. á innfluttar landbúnaðarvörur. Það er túlkun ríkisstjórnarinnar á bókun 3 að heimilt sé að leggja á slík gjöld en ekki er ljóst hvort Evrópubandalagið fellst á þá túlkun m.a. vegna orðanna hljóðan í bókun 3. Endanlegt samkomulag um landbúnaðarþátt samningsins liggur þó ekki fyrir.
    Í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans felst að innflutningur landbúnaðarvara, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbúnaðarráðherra og gengið er út frá því að sá innflutningur sem leyfður verður eigi sér fyrst og fremst stað þegar innlend framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn, með nokkrum undantekningum þó. Þá er og kveðið á um að ráðherra geti, þrátt fyrir þær takmarkanir sem áður er greint frá, heimilað innflutning í samræmi við fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Íslendingar eru aðilar að, enda sé verðjöfnunargjöldum beitt. Þetta þýðir að almenna reglan er sú að innflutningur landbúnaðarvara er undir stjórn landbúnaðarráðherra en hann getur heimilað innflutning í samræmi við þá samninga sem Íslendingar gera við önnur ríki, þó þannig að verðjöfnunargjöldum verði beitt til þess að íslenskur landbúnaður standist samjöfnuð við innflutninginn.
    Það liggur fyrir að fjármálaráðuneytið er ekki sátt við hvernig að þessum málum er staðið í frumvarpinu, enda heyrir álagning jöfnunargjalda undir það ráðuneyti. Þann þátt málsins hefði þurft að athuga betur, en hart er deilt innan stjórnarliðsins um samskipti ráðuneyta fjármála og landbúnaðar um verðjöfnunargjöldin og vinnubrögð við afgreiðslu málsins.
    Minni hlutinn er sammála því að nauðsynlegt sé að standa vörð um hagsmuni íslensks landbúnaðar andspænis samkeppni utan frá en telur rétt að ríkisstjórnarflokkarnir beri ábyrgð á framkvæmd samningsins um EES og þeim umdeildu áhrifum sem hann mun hafa m.a. á íslenskan landbúnað. Undirritaðir nefndarmenn munu því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.``
    Undir þetta rita Kristín Ástgeirsdóttir og Ragnar Arnalds.
    Við sem höfum fylgst með þingstörfum hér síðustu daga höfum orðið vör við að það hefur verið titringur í stjórnarliðinu út af þessu máli. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki enn náð samstöðu um það mál svo vitað sé. Enginn veit í raun og veru á þessari stundu hvort til atkvæðagreiðslu kemur um þetta mál.
    Þegar samningurinn um EES var til umræðu þá bentum við andstæðingar samningsins á það að margt væri óljóst í honum, m.a. það sem varðaði landbúnaðarþáttinn. Innflutningur á landbúnaðarvörum, sala á landi, jörðum og nýting orkulinda, svo eitthvað sé nefnt, allt var þetta óljóst. Og það hefur komið í ljós, ekki síst með þessu frv., að þar höfðum við á réttu að standa. Síðan höfum við orðið vitni að því að þeir sem starfa í landbn. ekki hvað síst eru að reyna að stoppa í götin og vernda íslenska framleiðslu svo sem mögulegt er.
    Nú skyldi maður ætla að miðað við allar aðstæður, ekki síst í íslensku atvinnulífi nú, þá vildu sem flestir verja og efla íslenskan iðnað. En e.t.v. gildir ekki það sama um búvöruiðnað. Ef ríkisstjórnin getur ekki staðið saman um það að vernda íslenska framleiðslu á sama hátt og gert er í löndunum í kringum okkur þar sem við vitum að allar nágrannaþjóðir okkar keppast við að vernda sína framleiðslu, ekki síst búvöruframleiðsluna, ef ríkisstjórnin getur ekki borið gæfu til að standa saman um þetta þá verður stjórnarandstaðan enn einu sinni að reyna að koma í veg fyrir alvarleg áföll sem geta hlotist af stefnu ríkisstjórnarinnar. Við andstæðingar EES-samningsins og sennilega fleiri hljótum því að hjálpa þeim stjórnarliðum sem hér eru að verja þessa atvinnugrein.
    Við munum skoða það ef svo fer að þetta mál komi til afgreiðslu hvort allir verði ekki að leggjast á eitt og styðja það svo það nái fram að ganga því að mikilvægi málsins er greinilegt.
    Ég harma það einnig að í Tímanum í dag, sem annars er mjög virðingarvert blað sem reynir yfirleitt að halda sig við sannleikann, skuli það tekið fram að landbn. Alþingis að fulltrúa Kvennalistans í nefndinni undanskildum hafi lagt til að landbúnaðurinn fengi heimild til að banna innflutning á einstökum búvörum o.s.frv. Þarna er ekki farið rétt með mál því að fulltrúi Kvennalistans lagðist ekki gegn málinu í nefndinni, eins og raunar hefur komið fram hjá flutningsmanni meirihlutaálitsins hér áðan, heldur hafa bæði fulltrúi Kvennalistans og fulltrúi Alþb. bent á það sem auðvitað er rétt að ríkisstjórnin verður að standa ábyrg fyrir sínum gerðum. Hún er búin að gera þennan samning og hún hlýtur að taka ábyrgð á honum. En hitt er svo annað að þegar uppgötvast alls konar gallar og vitleysa sem fylgir þessum samningi þá verða menn jafnvel að brjóta odd af oflæti sínu og styðja þau mál sem eru til þess að bæta um.
    Þetta vildi ég að kæmi fram hér, virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er hvorugur framsögumanna minnihlutaálitsins viðstaddur og ég held ég tali hér fyrir munn mjög margra bæði í Kvennalistanum og Alþb. hvað varðar niðurstöðu atkvæðagreiðslu um þetta frv.