Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:19:33 (8401)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er þá er ég eindreginn andstæðingur aðildar okkar að EES. Það uppnám sem verið hefur varðandi landbúnaðarmálin hér á Alþingi undanfarna daga eru afleiðingar inngöngu okkar í EES. Því er það mál sem hér er á dagskrá, flutt vegna aðildar Íslands að EES. EES tekur ekki gildi fyrr en opnað er á innflutning búvara til Íslands. Það eru menn þegar búnir að kokka. Þess vegna þarf að setja varnagla sem reynt er að gera með þessu frv. En, hv. alþm., sem samþykktu EES, má ég spyrja: Voru menn ekki búnir að sjá fyrir innflutning á búvörum þegar þeir greiddu EES atkvæði sitt?
    Í fjölmiðlaumræðunni undanfarna daga hefur gleymst um of að draga fram vandræðabörnin sjálf, þ.e. EES og Jón Baldvin. Rétt er að undirstrika í þessum umræðum að stuðningsmenn EES eru og munu ávallt verða í mestu vandræðum að verja afkvæmi sitt gagnvart landbúnaðinum. Það er m.a. vegna þess að við blasir miklu meiri innflutningur á landbúnaðarvörum en talsmenn EES hafa viljað vera láta.
    Já, því miður erum við komin þarna inn. Það var ekki hlustað á aðvörunarorð. Að vísu er EES enn ekki orðið að veruleika en hætt er við að ekki verði komið í veg fyrir að það verði að veruleika á þessu ári eða um áramót. Að innflutningur verði meiri en búist var við og við séum ekki í stakk búin til að taka við EES valda m.a. þau vinnubrögð sem gerst hafa í samningaferlinu undir stjórn Jóns Baldvins. Hefði verið betur að þessum málum staðið hefði landbúnaðurinn e.t.v. getað lifað með EES. Ég undirstrika, hefði e.t.v. getað lifað með EES.
    Þessu næst vil ég aðeins fara yfir nokkrar staðreyndir úr samningaferlinu. Það er óhjákvæmilegt að það sé dregið fram í þessari umræðu. Í upphafi samninga um EES var ekki gert ráð fyrir að landbúnaður eða sjávarútvegur kæmi inn í samningana. Hvað landbúnaðinn varðar væri stefna EB og einstakra EFTA-ríkja svo ólík að ekki væri nokkur kostur að semja um sameiginlega landbúnaðarstefnu og fella landbúnaðinn inn í samningana. Um mitt ár 1990 var þessi skoðun ítrekuð á fundi samningsaðila í Genf þar sem m.a. mætti fulltrúi frá landbrn. Það var ekki fyrr en í lok ársins að EB og EFTA urðu sammála

um að gera sameiginlegan samning allra ríkja um landbúnaðinn sem er bókun 3. Landbrn. var þrátt fyrir það ekki kallað til, til að taka þátt í þessum samningum. Það var ekki fyrr en í júlí 1991 sem það tók þátt í fundum um landbúnaðarmálin en þá lá fyrir samkomulag milli EFTA og EB um texta bókunar 3 sem stóð til að undirrita. Í þeim drögum að samkomulagi var fallist á frjálsan innflutning á Smjörva, Létt og laggott og ísvörum sem landbrn. fékk síðan utanrrn. til að leita eftir undanþágu fyrir. Hefði verið gengið frá EES-samningnum á umræddum fundi eins og til stóð, það strandaði m.a. á sjávarútvegsmálunum, hefði Ísland orðið að samþykkja innflutning áðurnefndra vara þar sem enginn fyrirvari hafði verið gerður um annað af utanrrn.
    Í umræðum um bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hefur komið fram að utanrrn. hefur samið um landbúnaðarmál samningsins meira og minna án samráðs við landbrn. og samtök bænda. Þannig kemur fram í skýrslu utanrrn. frá 20. maí 1991 að Evrópubandalagið hafi lagt fram lista um 72 suðrænar tegundir garð- og gróðurhúsaafurða sem krafist sé afnáms tolla á og það verði bundið í samningum. Niðurstaðan hefur orðið sú að utanrrh. hefur samþykkt innflutning samkvæmt þessum lista með yfirlýsingu í bréfi til Evrópubandalagsins án þess að listinn hafi verið borinn undir Alþingi. Hann hefur einnig án samráðs við þá aðila sem málið varðar samþykkt, þó svo að EES-samningurinn hafi ekki verið staðfestur og komi jafnvel aldrei til framkvæmda, sem vonandi verður, að leyfa tollfrjálsan innflutning samkvæmt þessum lista frá og með 14. apríl sl.
    Í áðurnefndri skýrslu utanrrn. kemur líka fram að bæði Sviss og Austurríki hafa heldur kosið að taka landbúnað fyrir í tvíhliða samningum en að semja sérstaklega um tollfrjálsan innflutning á garð- og gróðurhúsaafurðum. Einnig að Evrópubandalagið hafi sett það sem lokatakmark að aflétt verði hindrunum á innflutningi unninna landbúnaðarafurða til EFTA-ríkjanna. Það kom ekki til framkvæmda strax heldur verður það sett sem langtímamarkmið í samningum í sérstakri grein sem fjallar um það. Þá er enn fremur tekið fram að Ísland hafi ekki tekið þátt í óformlegum könnunarviðræðum um afléttingu tolla á landbúnaðarafurðum vegna þess að EB hafi ekki lagt fram tillögur sínar um lækkanir og niðurfellingu tolla á sjávarafurðum.
    Í lokin er nefnt í skýrslunni að tekið hafi verið skýrt fram af Íslands hálfu að sé tilboð EB í sjávarafurðum viðunandi geti Ísland fallist á að fella niður öll gjöld á garð- og gróðurhúsaafurðum samkvæmt kröfu EB með árstíðabundnum magntakmörkunum á nokkrum þeirra, svo sem tómötum, gúrkum, afskornum blómum o.fl.
    Í framhaldi af þessari ákvörðun gerði utanrrn. óformlegt tilboð um niðurfellingu tolla á þessum afurðum með tímabundnum takmörkunum á innflutningi. Þetta tilboð var gert án nokkurs samráðs við hagsmunaaðila í garð- og gróðurhúsarækt og án samráðs við landbrn.
    Í viðræðum við innflytjendur blóma um tollfrjálsan innflutning frá EB hefur komið fram að ekki eru miklar líkur á að innlend framleiðsla á blómum standist samkeppni við innfluttu blómin, þegar innflutningur á þeim er frjáls og án tolla. Það mun fara mjög illa með markað íslenskra blómabænda um jól, páska og jafnvel um hvítasunnu vegna þess að unnt er að lengja áhrif innflutningsins með því að geyma blómin á sérstakan hátt.
    Í samningum um viðauka 2 í bókun 3 milli EB og EFTA hefur það verið markmið EB að koma í veg fyrir álagningu verðjöfnunargjalda á kjöt og olíu. Fyrsta skrefið í þá átt tók EB á sl. ári með því að krefjast þess að ekki verði leyfð verðjöfnun þessara vera nema varan innihaldi ákveðið lágmark af hráefni, kjöti eða olíu. Þessar tillögur komu öllum EFTA-ríkjunum á óvart.
    Á fundi sem haldinn var í lok mars sl. kom enn á ný krafa frá EB um að kjöt og olíur verði ekki á lista yfir hráefni úr landbúnaði sem öllum sé heimilt án skilyrða að verðjafna fyrir. Einungis verði leyft að verðjafna fyrir þessum hráefnum, hafi verið verðjafnað fyrir þeim 1. janúar 1992. Þá kröfu byggir EB við ákvæði í bókun 3 sem miðar að því að verðjöfnunaraðgerðir skuli hjá engu ríki verða víðtækari en þær voru áður en EES-samningurinn er gerður og einnig á samþykktum frá samningsviðræðum um frágang á hráefnislista sem skal koma fram í viðbæti 2 með EES-samningnum sem fram fóru við lokafrágang hans. Þessar samþykktir hafa aldrei verið nefndar á nafn af utanrrh. við kynningu á möguleikum Íslands til verðjöfnunar en skipta meginmáli við lokafrágang samningsins. Þannig hefur EB stöðugt komið fram með ný atriði í samningunum sem utanrrh. hefur haldið fram að væru löngu frágenginn. Það er því hvorki unnt að reiða sig á þær fullyrðingar hans eða það að ekki komi fram nýjar kröfur af hálfu EB. Eingöngu skýlausar undanþágur fyrir Ísland frá þeim ákvæðum sem EB krefst að komi inn í samninginn er ásættanleg og trygg lausn.
    Í frv. að breytingu á búvörulögum sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að fjmrn. fari með álagningu á jöfnunargjaldið þegar landbrh. hefur leyft innflutning. Það er stutt með því að þegar sé búið að breyta tollalögum og ekki unnt að hafa annað fyrirkomulag. Í frv. er gert ráð fyrir að landbrh. sé heimilt að leyfa innflutning samkvæmt samningum við önnur ríki sem gerðir hafa verið og kunni að verða gerðir og bókunum eða bréfaskiptum við þá. Í reynd mun það verða svo að hann á engan annan kost en að samþykkja innflutning til að uppfylla þá samninga sem utanrrh. gerir um frjálsan innflutning landbúnaðarafurða þar sem Ísland sé bundið samkvæmt alþjóðarétti til að uppfylla gerðan samning þó svo hann sé aðeins gerður í formi bréfaskipta og ekki hlotið samþykki Alþingis.
    Nefna má að ákvörðun á verðjöfnunargjöldum í landbúnaði eru alfarið á vegum norska landbrn.

og sænska ráðuneytisins í tengslum við landbn. Þar með hafa þessi tvö lönd alla stjórn búvöruframleiðslunnar á einni hendi. Með þessu fyrirkomulagi, að hafa þessa hluti eins og við ætlum að gera á Íslandi, er verið að færa verulegan hluta af verðstjórnun í landbúnaði á hendur fjmrh. frá landbrh. Verði af svokölluðum GATT-samningum og öll lönd skylduð til að leyfa óheftan innflutning landbúnaðarafurða með jöfnunargjöldum eða hinum svonefndu tollaígildum, væri þessi verðstjórnun í landbúnaði alfarið komið í hendur fjmrh. í stað landbrh. sem fer með þau mál í dag.
    Í frv. er gert ráð fyrir að landbrh. ákveði hvaða landbúnaðarhráefni megi verðjafna vegna útflutnings. Við ákvörðun endurgreiðslufjárhæðar verði farið eftir sömu reglum og gilda um álagningu verðjöfnunargjalda af innflutningi. Þær reglur er að sjálfsögðu nauðsynlegt að landbrh. setji eftir því sem við á.
    Við EES-samninginn á fyrri hluta árs 1991 ákvað utanrrh. að draga samningamenn Íslands út úr samningum um landbúnað. Það var gert að hans sögn til þess að knýja á um að EB kæmi fram með tilboð í fisk. Þetta aðgerðaleysi náði, auk samninga sem enduðu með bókun 3, til samnings um tollfrjálsan innflutning garðávaxta og blóma EFTA-ríkjanna, til hagsbóta fyrir suðlægari ríki EB að því er sagt var. Ég hef aðeins minnst á þetta fyrr í minni ræðu. Af Íslands hálfu var Spánverjum og samningamönnum EB gefið til kynna að Íslendingar væru tilbúnir til að semja á rausnarlegan hátt um tollfrjálsan innflutning á blómum og garðávöxtum til Íslands, næðist viðunandi staða fyrir Ísland í niðurfellingu eða lækkun tolla á fiskútflutningi Íslands til EB.
    Í júlí 1991 lágu svo fyrir drög að samningi um landbúnað sem EFTA-ríkin og EB voru búin að ganga frá, án þátttöku Íslands. Í þessum samningsdrögum var að sjálfsögðu að engu gætt hagsmuna Íslands vegna aðgerðaleysis í samningum um viðskipti með landbúnað í bókun 3. Því var í reynd verið að fórna hagsmunum íslensks landbúnaðar í þeim tilgangi að reyna að þvinga fram tilboð vegna fisks. Sú fórn varð hins vegar til einskis því að ekkert tilboð eða samkomulag varð á milli Íslands og EB og reyndar strönduðu samningarnir á tollamálum sjávarútvegsins m.a. í júlí 1991. Því má segja að hefði verið gengið frá EES-samningi í júlí 1991, eins og til stóð, hefði tekist að fórna algerlega hagsmunum landbúnaðarins af Íslands hálfu með þessu aðgerðaleysi og reyndar ekkert fengist í staðinn því EB kom ekki fram með neitt tilboð í fisk af hálfu EB til Íslands, eins og áður sagði, þrátt fyrir þetta agn sem hæstv. utanrrh. hélt sig vera að beita.
    Eins og kunnugt er var það síðan landbrn. undir stjórn Halldórs Blöndals sem gekk í það að ná til baka því sem utanrrh. var búinn að gefa eftir í landbúnaði með því að krefjast þess að ekki yrði samið við EB um frjálsan innflutning til Íslands á sýrðum mjólkurvörum, ísvörum, Smjörva og Létt og laggott eins og komið var í samningstillögurnar. Það var því að tilhlutan landbrn. að Ísland fékk þá undanþágu sem er í bókun 3, frá því að þurfa að flytja inn ísvörur, Smjörva og Létt og laggott. En hver er svo staðan í framkvæmd bókunar 3 samkvæmt viðauka 2, sem er um hráefni í landbúnaði sem verðjafna má, eftir fund sem haldinn var í byrjun þessa mánaðar?
    Fulltrúar Íslands gerðu tillögu innan EFTA um að Ísland fengi fulla heimild til að leggja verðjöfnunargjald á jurtafitu, jurtaolíu og dýrafitu við innflutning afurða sem má flytja inn með verðmiðlunargjöldum þrátt fyrir að þau hafi ekki verið lögð á 1. janúar 1992 og einnig að þeir fengju sömu undanþágu fyrir kjöt. EFTA-ríkin samþykktu að styðja þessa tillögu Íslands við EB. Á fundi með EB var þessari tillögu hafnað en þess í stað kom EB með þá hugmynd að Ísland mundi verða samflota Noregi í undanþágu og að semja þyrfti um takmarkaðan vörulista sem undanþágan næði til. Það þýðir að Ísland fengi takmarkaða heimild til verðjöfnunar fyrir fitu og kjöt, en hver þau takmörk eru er enn ekki ljóst þar sem þau mál verða rædd nánar í næstu viku. Enn er sem sagt verið að semja og semja á fullri ferð.
    Virðulegi forseti. Ég var þeirrar skoðunar að mál nr. 504, sem við erum hér að ræða, um framleiðslu og sölu á búvörum, mætti e.t.v. bíða og sjá fram á afdrif EES. Jafnframt hefði þurft að undirbúa það mjög vel í sumar. Með frv. hefði þurft að tryggja að öll búvöruframleiðslan væri undir stjórn landbrh. Það ætti að færa ákvörðun um upphæð jöfnunargjalda á innflutning búvöru frá fjmrh. til landbrh. Þetta benti Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur á í sinni álitsgerð. Með þeim hætti er þetta haft í Noregi og Svíþjóð svo sem fyrr kom fram í máli mínu.
    Kannski má ekki dragast lengur að veita Jóni Baldvin meira aðhald. Hann hefur leikið allt of lausum hala frá því að hann hóf sóknina til EES og EB í tíð fyrrv. stjórnar, stöðugt gengið fram hjá landbúnaðarnefndarmönnum og þeir hafa oft staðið frammi fyrir gerðum hlut eins og ég rakti hér að framan. Það er orðið mál að utanrrn. hætti að gera samninga með bréfaskiptum og bókunum um landbúnaðarmál án samráðs. Þá ber að mótmæla því að utanrrh. hefur notað heimildir um innflutning á landbúnaðarvörum sem skiptimynt í samningum um sjávarútvegsmál. En ekki hefur honum gengið betur í þeim efnum en svo að hann er búinn að láta EES og EB ýmislegt í té varðandi innflutning á landbúnaðarvörum án þess að vera búinn að fá neitt í staðinn fyrir skiptimyntina. Það kann ekki góðri lukku að stýra hvað samráðherrar Jóns Baldvins hafa gefið honum lausan tauminn í tveimur ríkisstjórnum. Um það má segja gömul sannindi:
          Hossir þú heimskum gikki,
          hann gengur lagið á.
          Og ótal asnastykki
          af honum muntu fá.

    En hvernig stendur á að ráðamenn vinna svona gegn framleiðsluatvinnuvegunum í landinu? Þekkja menn ekki samdráttinn og atvinnuleysið? Er ástæða að fækka atvinnutækifærum í landbúnaði með stórauknum innflutningi? Var ekki nóg að gert í bili með búvörusamningi til þrengingar landbúnaðinum? Er til aflögu gjaldeyrir til að flytja inn búvörur? Hvaðan kemur sá gjaldeyrir? Kemur hann frá sjávarútveginum sem er í miklum samdrætti og þrengingum? Kemur hann frá iðnaði? Kemur hann frá stóriðju með ál sem ekki sýnist í augsýn? Kemur hann frá samdrættinum sem er í þjónustustörfum? Eða kemur gjaldeyrir vegna hins nýja samdráttar sem blasir við á Keflavíkurflugvelli? Þarf ekki að halda utan um hvert atvinnutækifæri í landinu? Það er mikill misskilningur ef menn sjá ekki að það er verið að breyta landbúnaðarstefnu á Íslandi með inngöngu í EES. Það er öllum sjáanlegt.
    En stóra málið úr því sem komið er: Hvernig er hægt að tryggja að landbúnaður á Íslandi lifi þrátt fyrir EES og Jón Baldvin?