Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:45:06 (8404)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég tel að þetta hafi verið alveg skýrt svar. Hæstv. forsrh. staðfestir að forræði landbrn. í þessum málaflokki skuli haldast óbreytt. Ég vona að hann sé sammála þeirri túlkun minni að það þýði

að um það sé engin deila að landbrn. fari með allt forræði sem lýtur að innflutningi landbúnaðarvara í víðustu merkingu þess orðs. Þar með getur heldur ekki verið neinn ágreiningur um að afgreiða þetta frv. Þar með geta heldur ekki ráðherrar í ráðuneyti hæstv. forsrh. lagst gegn því. Með því væru þeir að leggjast gegn þeim skilningi sem hæstv. forsrh. hefur á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Það hlýtur að vera byggt á misskilningi, eins og einn hæstv. ráðherra leyfir sér stundum að orða það um skoðanir og meiningar annarra manna, ef ráðherrar í ráðuneyti Davíðs Oddssonar leggjast gegn því að forræði landbrn. sé undirstrikað og staðfest með skýrum hætti, eða skýrari en fyrir hefur verið í lögum, í ljósi yfirlýsingar hans hér áðan. Mér sýnist því allt bera að sama brunni, það sé um að gera að ljúka þessu verki með afgreiðslu þessa frv. og gera það að lögum, hæstv. forsrh., í hvelli.