Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:46:21 (8405)

     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir, samnefndarmaður minn úr landbn., hafði orð á því að ég hefði ekki talað skýrt í upphafi ræðu minnar um afgreiðslu málsins, ég hefði fagnað því að málið væri komið til umræðu hér í þinginu. Ég hélt nú reyndar að ég hefði sagt umræðu og afgreiðslu. ( Gripið fram í: Þú sagðir það.) Já, ég sagði það? ( Gripið fram í: Já.) Já. Þá eru tekin af öll tvímæli í þeim efnum.
    Ég sagði líka að ég ætti ekki neinn þinglegan rétt til þess að ráðstafa skoðunum annarra og ég get minnt á það hér öðru sinni að hv. þm. er einn af flm. þeirra tillagna sem hér eru til umræðu.
    Það væri satt að segja kaldhæðni örlaganna ef menn kæmu í veg fyrir að þetta mál hlyti afgreiðslu á þessu þingi. Ég minni rétt á það að það fór af stað umræða hér á dögunum þegar ekki var búið að breyta búvörulögunum á frjálsa tímabilinu frá 15. apríl til 1. maí. Menn áttuðu sig reyndar á því að þar var ekki um að kenna vondum landbúnaðarnefndarmönnum hvað þetta frv. kom seint til meðferðar á Alþingi, ekki fyrr en rétt fyrir páska þegar það hafði verið í umræðu hjá ríkisstjórninni frá því fyrir jól. Ef það skyldi virkilega vera ætlan manna að koma í veg fyrir að þetta mál verði lögfest núna og koma þá í veg fyrir um leið að þeir fríverslunarsamningar sem í gildi eru mundu að sjálfsögðu ekki taka gildi fyrr en lögum hefði verið breytt, ef það væri úr sömu átt komið að hindra framgang þessa máls núna og átelja að ekki var búið að breyta búvörulögunum þannig að frjálsi innflutningstíminn á blómum nýttist seinni partinn í aprílmánuði, þá væri það nú vissulega stórkostleg söguleg niðurstaða hér í þinghaldi. Og til viðbótar við það að auðvitað mundu þá búvörulögin gilda áfram eins og þau eru. Og ég segi bara: Ef ríkisstjórnin ætlar að koma í veg fyrir það að búvörulögunum verði breytt núna, hvers vegna á þá að fara að gera breytingar á þeim í haust? Af hverju mega þau þá bara ekki lifa áfram og hæstv. landbrh. hafa það forræði þessara mála sem þau veita og er ótvírætt? Það er auðvitað engin lifandi leið að skilja við þetta mál þannig að ekki verði gengið hér með eðlilegum hætti til afgreiðslu á því.
    Ég hef orðið þess nokkuð mikið var að það hefur verið skoðun manna að ég væri búinn að gera eitthvert samkomulag. Svo er ekki. Ég féllst á óskir forseta þingsins um að atkvæðagreiðslur færu fram áður en frv. um breytingar á búvörulögunum yrði tekið til meðferðar og ég hef ekki gert neitt annað samkomulag eins og ég reyndar hefur áður sagt, að ég á ekki rétt til þess að semja rétt af öðrum alþingismönnum til þess að styðja eða ljúka málaafgreiðslu hér á Alþingi. Þetta vil ég að sé alveg skýrt frá minni hálfu.