Framleiðsla og sala á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 18:52:24 (8406)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er margt að skýrast í þessu máli þó að mjög margt sé óljóst. Og þá vil ég nefna einn þátt hvað þetta snertir og það er það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan að það væri alveg ljóst að forræðið varðandi innflutningsmál landbúnaðar væri í höndum landbrh. Það er það samkvæmt búvörulögunum, gagnvart landbúnaðarvörum.
    Hins vegar, svo að við rifjum aðeins upp söguna og svo að ég ítreki það sem ég sagði hér áður, snýst þetta mál ekki eingöngu um samninginn um EES og það sem þar er rætt um og ég nefni það þá hér að í samningnum um EES og það sem er í kringum hann eru engar nýjar heimildir varðandi innflutning á vörum með kjötinnihaldi.
    Ég minni hins vegar á það að á árinu 1988 heimilaði þáv. viðskrh. og iðnrh. innflutning á unnum matvörum með, ef ég man rétt, allt að 20% kjötinnihaldi og gerði það í krafti þess að það væri um að ræða iðnaðarvöru með landbúnaðarhráefni en ekki búvöru. Þeir landbúnaðarráðherrar sem síðan hafa setið hafa látið þennan innflutning átölulausan þannig að ég vil endilega að hér fáist úr því skorið og þeir ráðherrar sem hér eru, hæstv. landbrh. og e.t.v. þá fyrrv. landbrh., upplýsi mig um það, hvar er þá forræðið varðandi þessar vörur? Ég tel afar mikilvægt að landbrh. hafi heimildirnar og umsjón með töku jöfnunargjalda á þessar vörur. En þau hafa ekki verið tekin fyrr en núna laust fyrir síðustu áramót.
    Þetta held ég að við verðum að hafa alveg ljóst varðandi framgang málsins og þetta er ein af stóru rökunum í mínum huga fyrir því að við förum nú í það að ganga frá lögum varðandi þetta samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu. Og ég fagna því að þeir fulltrúar í minni hluta í stjórnarandstöðunni í landbn., sem skrifuðu undir með fyrirvara og vildu sitja hjá, séu nú tilbúnir til þess að slást í hópinn með okkur framsóknarmönnunum sem stóðum við bakið á formanni nefndarinnar allan tímann. Það var aldrei efi í okkar huga að á þennan hátt yrði að ganga frá málunum. Og ég hlýt að fagna því sérstaklega að fulltrúar Kvennalistans og Alþb. hafa lýst því hér yfir að þeir muni styðja þetta framfaramál sem hér er verið að ræða nú.
    En ég kem hér fyrst og fremst upp til þess að spyrja hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hér sitja hvaða skilning þeir leggja í þann innflutning á iðnaðarvöru með landbúnaðarhráefni, kjöti, frá árinu 1988.