Lögheimili

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:23:31 (8416)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu var sent út til umsagnar til fjögurra aðila, Félags eldri borgara í Reykjavík, Landssambands aldraðra, Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umsagnir bárust frá þremur aðilum á þeim tíma sem gert var ráð fyrir en einn aðilinn, Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði ekki inn umsögn. Hygg ég að það hafi stafað af því að þeir hafi ekki talið málið stórt.
    Þetta frv. fjallar um það að þeir sem búa á dvalarheimili fyrir aldraða eða í öðru húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður. Við athugun á frv. fannst mönnum að það væri rétt að skilgreina betur hvað hér væri átt við og af þeirri ástæðu er farið í að flytja brtt. en áður vil ég leyfa mér að lesa hér nál. frá meiri hluta allshn. sem er mjög stutt.
    Nefndin hefur fjallað um málið umsagnir bárust frá þremur aðilum, annars vegar Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssambandi aldraðra, þar sem lýst var eindregnum stuðningi við frumvarpið, og hins vegar frá Hagstofu Íslands þar sem lagst var gegn því að frumvarpið næði fram að ganga.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að manni, sem býr á stofnun fyrir aldraða, sé heimilt að eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem hann hafði fasta búsetu áður. Lagt er til að greininni verði breytt þannig að skilgreint verði hvað átt sé við með stofnun aldraðra og til þess verði notuð skilgreining sem er í 18. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 82/1989.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að um réttlætismál sé að ræða og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndri breytingartillögu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.
    Undir þetta nál. skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason og Kristinn H. Gunnarsson.
    Jón Helgason skrifaði undir með fyrirvara og ætlaði að árétta þann skilning sinn, ef ég skildi hann rétt, að hann vildi að þar væri um fast heimili að ræða á þeim stað þar sem viðkomandi hefði áður búið en ekki það að lögheimilið yrði eftir ef það heimili væri á brautu.
    Kjarni málsins er ákaflega einfaldur. Við höfum mjög lengi bannað öldruðum alfarið að eiga lögheimili á stofnunum aldraðra. Það olli vissu óhagræði að hafa þetta bann. Svo gerist það að við snúum blaðinu allt í einu alveg við og segjum: Þið megið ekki eiga lögheimili neins staðar annars staðar en á þessum stofnunum, ef þið eruð þar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mörgum þó nokkur raun að sætta sig við það að eldast og vafalaust þurfum við jafnt sem aðrir sem hér erum að glíma við það þegar árin færast yfir okkur ef við verðum þá ekki horfin á braut áður. Og ég flokka það undir einföldustu mannréttindi að maður hafi heimild til, ef hann óskar þess, að mega áfram halda sínu lögheimili þó hann þurfi að flytja inn á stofnun fyrir aldraða. Það er nú svo að oft er það ekki rúmt húsnæði sem þar er um að ræða og viðkomandi aðili getur tekið með sér mjög lítið af þeim eigum sem hann hefur haft í búslóð sinni. Það stendur á ágætum stað í Biblíunni: ,,Þar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.`` Bæði minningar manna og eigur manna gera það að verkum að mynda e.t.v. tilfinningasamband við ákveðna staði sem gera það jafnframt að verkum að þeir vilja fá að halda sínu lögheimili þar. Í sumum tilfellum er þetta spurning um viss réttindi. Það getur einnig átt sér stað. Þar eru kannski ein af þeim réttindum, þ.e. heimildin til að

mega kjósa í því byggðalagi þar sem þeir þekkja eitthvað til málefna en ekki að þeir um sjötugt eða áttrætt eigi á nýjan leik að fara að gera sér skoðanir á mönnum og málefnum.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur því lagt til svohljóðandi brtt., hann leggur til að greinin orðist svo:
    ,,Á eftir 3. mgr. 4. gr. laganna kemur ný svohljóðandi mgr.: Manni sem býr á stofnun samkvæmt skilgreiningu 18. gr. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989 skal heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður.``
    Nú er það svo að megnið af þeim lögum sem tekin eru til afgreiðslu á Alþingi eru að grunni til frv. sem unnin eru utan Alþingis. Stundum gerist það að afgreiðsla er mjög hröð og menn fylgjast ekki með öllum þeim málum sem fyrir þingið fara. Ég játa að á sínum tíma þegar þessi lögheimilislög fóru í gegn þá hélt ég að varla gæti verið að á ferðinni væri svo stórt mál að það þyrfti sérstakrar athugunar við. En þessi stjórnsemi sem okkur Íslendingum er svo eiginleg, að vilja stjórna, getur stundum gengið út í öfgar. Aldrað fólk þarf undir mörgum kringumstæðum að sætta sig við stjórnsemi hinna yngri og það getur stundum verið erfitt miðað við þá tíð er það sjálft gat stjórnað og fékk að ráða sínum málum. Ég hef því verið skammaður nægilega mikið fyrir að þetta hefur orðið að lögum til þess að ég ákvað að flytja þessa tillögu í trausti þess að hún sé það einföld að ekki ætti að vefjast fyrir þingheimi að taka afstöðu til hennar.