Reynslusveitarfélög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:37:20 (8419)

     Frsm. félmn. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. á þskj. 1124 um till. til þál. um heimild til að hefja undirbúning að stofnun reynslusveitarfélaga. Nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið en með því er lagt til að Alþingi samþykki heimild til handa félagsmálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun allt að fimm reynslusveitarfélaga er starfi tímabundið á grundvelli hugmynda sem fram koma í skýrslu sveitarfélaganefndar. Nefndin fékk á fund sinn frá félagsmálaráðuneytinu Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra og Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálm Vilhjálmsson formann og Þórð Skúlason framkvæmdastjóra. Þá bárust henni umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Eyþingi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Sveitarfélaganefndin skipaði sérstaka nefnd til að fjalla um málefni grunnskóla og til að kanna hvernig hægt verði að flytja rekstur þeirra yfir til sveitarfélaga. Félagsmálanefnd telur rétt að fram komi að hún álítur að á grundvelli þeirrar meðferðar á málefnum grunnskóla verði þeir ekki á þessu stigi meðal tilraunaverkefna reynslusveitarfélaganna.``
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn í félmn.