Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Mér hefur nú skilist af viðræðum við forseta að það geti varla orðið um að ræða utandagskrárumræðu nú með svo stuttum fyrirvara um þetta mál og vegna þess vildi ég segja þetta:
    Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna mun á fundi sínum í dag hafa samþykkt tillögu að nýjum úthlutunarreglum fyrir sjóðinn. Ég hef ekki þessar reglur undir höndum í endanlegri mynd en mér var kunnugt um flestar tillögurnar áður en þær voru teknar fyrir á stjórnarfundinum í dag. Mér er kunnugt að með þessum nýju reglum eru teknar inn ýmsar ívilnandi samþykktir frá því sem var á sl. ári. Það mun hins vegar vera rétt að frá láni einstæðs foreldris dregst samkvæmt tillögunum meðlag sem viðkomandi fær, en grunnframfærsla einstæðs foreldris hækkar um 40% fyrir hvert barn samkvæmt þessum nýju tillögum. Um þessa tillögu var mér ekki kunnugt áður.
    Fljótt á litið þykir mér tillagan ekki skynsamleg. Ég mun þess vegna kalla eftir skýringum frá stjórninni hvað hér liggur að baki og m.a. fá þá fram hvað þetta þýðir í fjármunum fyrir sjóðinn. Ég tek líka fram að úthlutunarreglur öðlast ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær og það mun ég ekki gera fyrr en ég hef fengið á þessari sérstöku tillögu skýringu og satt að segja þykir mér ekki líklegt að ég fái rökstuðning sem dugir mér til þess að staðfesta þetta.
    Ég vona að þessi orð mín nægi þannig að ekki þurfi að fara fram hér og nú frekari umræða vegna lánasjóðsins þegar við höfum svo nauman tíma sem og raun ber vitni.