Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa vakið athygli okkar á því sem gerst hefur í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna í dag og þessum sérkennilegu tillögum eða úthlutunarreglum sem þar hafa verið samþykktar samkvæmt þeim fréttum sem hingað berast. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að stjórn lánasjóðsins skuli taka það upp hjá sjálfri sér að gera þessa hluti og menn virðast vera svo gersamlega veruleikafirrtir sem standa að slíkum tillögum að maður hlýtur að spyrja: Hvar hafa þeir alið manninn? Þekkja þeir ekki þær tölur sem t.d. eru fyrir hendi núna um fækkun námsmanna milli ára? Hverjum hefur fækkað mest? Það er konum sem hefur fækkað mest í námi. Og af hverju? Það er m.a. einstæðum mæðrum sem hefur fækkað sem treysta sér ekki í nám eftir að úthlutunarreglum hefur þegar verið breytt einu sinni áður til hins verra fyrir námsmenn með börn. Það kom m.a. fram í svari frá hæstv. menntmrh. við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um lánasjóðinn fyrr í vetur að námsmönnum með börn á framfæri hefur fækkað hlutfallslega meira en einstaklingum, þannig að nú er verið að höggva aftur í sama knérunn. Þetta eru svo veruleikafirrtir menn að maður skilur ekki hvar þeir hafa alið manninn. Ég hélt að það væri nóg að gert. En ég vona sannarlega að ráðherra sé ekki sama marki brenndur og hann muni skoða þetta mál mjög gaumgæfilega og ekki gleypa þessar tillögur hráar eins og þær koma fyrir frá stjórninni.