Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Um leið og ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni um þinglokin, þá ætla ég að leyfa mér að beina aðeins orðum mínum til forseta um ástandið í lánamálum námsmanna.
    Eins og menn muna varð hér mikil umræða fyrr í vetur þegar ráðist var að námsmönnum eins og gert var og þá lofaði hæstv. ráðherra hvað eftir annað að við eftirágreiðslur lána til námsmanna skyldi séð til þess að vextir og lántökugjöld yrðu greidd. Þetta hefur ekki verið gert. Hæstv. ráðherra ítrekaði þetta hvað eftir annað, en því miður hefur þetta ekki staðist. Það sem greitt er í vaxtabætur er langt undir því sem aðstandendur verða að borga vegna eftirágreiðslu lána.
Ég vona því að sannleikurinn verði gildari eftir þessa yfirlýsingu ráðherra varðandi það sem nú hefur gerst.     Hitt er auðvitað að verða alvörumál, hæstv. forseti, að þessi fulltrúi hins háa Alþingis í menntmrn. virðist ekki hafa hugmynd um hvað þar gerist yfirleitt. Menn jagast um það í dagblöðum hver hafi skrifað undir bréf eða hvort átti að skrifa undir bréf. Það kemur í ljós að hæstv. ráðherra hefur ekki hugmynd um hvað þeir eru að bauka í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Hæstv. forseti. Þessi þinglok eru satt að segja að verða fremur ömurleg. Héðan eigum við að fara í kvöld. Eftir stendur sviðin jörð, atvinnulíf landsmanna í rúst, sjávarútvegur, landbúnaður, atvinnumál landsmanna, hagur íslenskra námsmanna, ég veit ekki hvað ekki er hægt að telja upp. Ég harma þetta, hæstv. forseti. Við hv. þm. höfum setið hér síðan 17. ágúst á sl. ári og reynt að vinna vinnuna okkar en árangurinn er ekki beysnari en þetta.
    Ég vona, hæstv. forseti, að hæstv. menntmrh. hafi ekki sagt okkur ósatt öðru sinni og með tilliti til þess að nú er verið að reikna út lán og verið að senda námsmönnum lán þessa dagana, vorlánin, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er það alveg ljóst að þessi reglugerð verði ekki undirrituð? Ég spyr svo að það sé ekki þegar farið að setja þessar reglur inn í tölvur stofnunar lánasjóðsins og til þess að stúdentar viti við hverju þeir mega búast þegar vorlánin koma um miðjan mánuð.