Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:27:08 (8441)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Geirs Haarde um samkomulag okkar um framhaldið á þingstörfunum vil ég að tvennt komi alveg skýrt fram. Í fyrsta lagi það að við ræddum aldrei sérstaklega um frestun á fundum Alþingis. Það var talað um að vinna eftir þeirri dagskrá sem fyrir lá með ákveðnum undantekningum og það mál var ekki sérstaklega rætt. Ég held að ef menn ætla að taka þá umræðu núna þá verði menn að gera sér grein fyrir því að þingmenn geti lent í þeirri aðstöðu að greiða atkvæði gegn frestuninni meðan þeir vita ekki hvernig málum lendir í kvöld, hvaða mál verða eftir og auk þess af mörgum öðrum ástæðum sem ég ætla ekki að telja upp.
    En svo er annað líka sem ég vil að komi fram, við ræddum sérstaklega um 19. og 20. málið og það var ekkert samkomulag um að þau kæmu ekki til umræðu. Það var alls ekki samkomulag um það. Það var ákveðin yfirlýsing sem var rædd á fundinum í sambandi við þau mál sem ég ætla ekki að ræða hér, en það var ekki samkomulag um að þau mál kæmu ekki til umræðu.