Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:30:45 (8444)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta var nú ekki ýkja löng framsöguræða né ítarlega rökstudd og ég leyfi mér að halda því fram að það væri langskynsamlegast í ljósi aðstæðna að fresta í öllu falli þessari umræðu áður en henni lyki og láta málið bíða þannig þangað til á síðari fundum þannig að mönnum gæfist tóm til umræðu um þingfrestunina þegar sæmilega ljóst er orðið með hvaða hætti hún verður, hvort hún verður í kvöld, í nótt, á mánudaginn eða þriðjudaginn og hvaða afrek þingið hefur þá unnið þegar þar að kemur.
    Nú er það þannig að allur þingheimur og væntanlega þjóðin meira og minna hefur fylgst með því í dag og í gær að uppi er veruleg óvissa um afdrifarík mál sem tengjast þinghaldinu. Hér fór fram utandagskrárumræða um afkomu sjávarútvegsins og stöðu þeirrar undirstöðuatvinnugreinar þar sem hæstv. ríkisstjórn skilaði auðu og rúmlega það og fjölmörg stór álitamál og úrlausnarefni eru uppi í okkar þjóðfélagi sem gera það að verkum að það vakna spurningar um hvort tímabært sé eða eðlilegt að Alþingi ljúki nú störfum, einmitt nú þegar allt er í uppnámi með málefni sjávarútvegsins, þegar allt efnahags- og atvinnulíf landsmanna er meira og minna í molum, þegar engir kjarasamningar liggja fyrir og nánast allir kjarasamningar í landinu eru lausir, í uppsiglingu gætu verið átök á vinnumarkaði o.s.frv. ( VE: Eldgos.) Og þess vegna eldgos, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, og væri það nú eiginlega það minnsta og það sem þjóðin hefði síst ástæðu til að hafa áhyggjur af. Miklu verra öllum eldgosum er nú stjórnarfarið, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, og einhver smáspýja úr Heklu, eða Kröflu þess vegna, væri lítið mál borið saman við ríkisstjórnina.
    Nei, það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að það eru mjög óvenjulegar aðstæður uppi hér við lok þinghaldsins, mjög óvenjulegar af ýmsum ástæðum, bæði innan þingsins, eins og allir vita og þarf ekki að fara frekari orðum um, og utan. Og það er alveg ljóst að afstaða manna til þess hvort samþykkja eigi þessa tillögu nú, og þá hvenær sé eðlilegt að þingið fari heim, hún getur átt eftir að mótast í ljósi þess hvaða afgreiðslu mál fá hér á þinginu. Kynni það nú ekki að fara svo að hv. 3. þm. Austurl., eftir allar heitstrengingarnar í fjölmiðlum og öll sjónvarpsviðtölin og hafandi verið kosinn gott ef ekki maður vikunnar þá a.m.k. maður dagsins á Bylgjunni, vilji nú bíða með það að gera endanlega upp hug sinn til þess hvort hann styður þáltill. um frestun Alþingis og tjáir sig um það mál þangað til lyktir hafa til að mynda fengist varðandi afgreiðslu 504. máls þingsins, frv. til laga um breytingu á búvörulögum.
    Ég held, hæstv. forseti, að það eigi að vera ástæðulaust að rökstyðja þetta frekar. Það liggur í eðli málsins að það er ótímabært að taka hér til umfjöllunar till. til þál. um þingfrestun og það er meira en ótímabært að mínu mati ef það á að ljúka umræðu um hana. Það er óþinglegt vegna þess að með því er verið að taka málfrelsi af þingmönnum til þess að tjá sig í þessari einu umræðu sem um þingfrestunartillöguna er í ljósi þess hvernig aðstæður verða þegar að þinglausnunum kemur. Það er ekki eðlilegt að hæstv. forsrh. geti þá hvenær sem honum sýnist umræðulaust ákveðið að láta staðar numið og slíta þingstörfunum án þess að menn geti jafnvel svo mikið sem tjáð sig um það. Ég tel því að umræðan eigi a.m.k. að standa opin. Látum það gott heita úr því sem komið er að hæstv. forsrh. hefur mælt þetta þá líka skörulega fyrir tillögu í þremur setningum, það verður ekki aftur tekið, en að umræðunni verði a.m.k. frestað nú eða fljótlega þannig að mönnum gefist kostur á að tjá sig á nýjan leik undir lokin um það hverjar aðstæður verða við þinglausnirnar og hvaða afstöðu menn hafa þá til þess. Sjálfum þykir mér á margan hátt stefna til þess, ef svo heldur sem horfir og í ljósi þeirra aðstæðna ýmissa sem uppi eru innan þings og utan, að óhjákvæmilegt sé að leggjast gegn þingfrestun við þessar aðstæður nema þá a.m.k. hæstv. forsrh. sé fáanlegur til þess að gefa út einhverjar yfirlýsingar um að þingið verði þá kallað saman á nýjan leik til að fást við hin erfiðu vandamál sem uppi eru og hæstv. ríkisstjórn a.m.k. virðist ekki hafa ætlað sér að gera mikið í fyrr en þá í haust eins og fram kom hér í umræðum í gærkvöldi.
    Hæstv. forseti. Ég fer sem sagt formlega fram á það að umræðunni ljúki ekki. Henni verði frestað

og málið geymt þannig þangað til niðurstaða er í grófum dráttum fengin í það hvenær og með hvaða hætti þinglausnirnar verða.