Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:40:07 (8447)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er mjög óvenjulega að verki staðið frá því sem verið hefur og við þekkjum sem höfum verið hérna einhvern tíma. Ég hygg að venjan hafi verið sú að menn hafi samið um það í grófum dráttum hvenær þessi tillaga kæmi fyrir og síðan hvenær hún yrði afgreidd.
    Það eru ekki mörg dæmi um það alla vega ef nokkur á mínum þingtíma að menn hafi afgreitt þingfrestun í mjög miklum ágreiningi. Ég sé ekki betur en að ef svo fer fram sem horfir og stjórnarliðið kýs að fara þá leið sem hér er verið að leggja upp með, þá geti þingmenn a.m.k. stjórnarandstöðunnar ekki unað þingfrestun með þessum hætti og hljóti þess vegna að grípa til þess óvenjulega bragðs að velta því fyrir sér að greiða atkvæði á móti þingfrestunartillögunni Út af fyrir sig hafa þeir allan rétt til þess. Út af fyrir sig má líka segja að það sé að því leytinu til rökrétt að ríkisstjórnin kýs að bera ein ábyrgð á þingfrestuninni við þær aðstæður sem nú eru uppi.
    Í öðru lagi er þetta mál mjög sérkennilegt vegna þess að hér hefur verið talsvert uppnám núna undanfarna daga, í stjórnarliðinu aðallega. Það stafar af því að í því liði hafa verið deilur um svokölluð búvörulög sem komu hér til 2. umr. í dag. Og frá því hefur verið greint í fjölmiðlum að hæstv. utanrrh. telji að landbn. sé misskilningur. ( Gripið fram í: Nefndin öll?) Já, frá upphafi til enda. ( Gripið fram í: Hvers lags vandamál er þetta?) Og hún sé alveg sérstakt vandamál eins og mér er lagt í munn. Og bersýnilega standa stjórnarliðar frammi fyrir því að menn koma þessu máli ekki almennilega frá sér, þeir vita eiginlega ekki hvað þeir eiga af sér að gera í þessari stöðu. Og þá er greinilega gripið til þess eða hugmyndin virðist vera sú að afgreiða þingfrestunina með þeim hætti sem hér er um að ræða þannig að þingfrestunarákvörðunin er einhliða og eingöngu á hendi forsrh. ef tillaga af þessu tagi verður samþykkt við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hér er bersýnilega verið að segja í sundur friðinn um þingfrestunina og það má kannski segja að það sé í málefnalega rökréttu framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram síðustu daga, m.a. um málefni sjávarútvegsins sem bersýnilega þarf á stórfelldum aðgerðum að halda á næstu vikum og mánuðum og í framhaldi af umræðum sem hér hafa átt sér stað á síðustu dögum um greiðsluörðugleika fjölskyldnanna sem auðvitað hefði þurft að taka á. Auðvitað hefði þingið ekki átt að fara heim án þess að taka á þessum málum. En hitt er alveg ljóst að verði þetta samþykkt, þó með mótatkvæðum stjórnarandstöðunnar verði, þá er ábyrgðin öll á þinglokunum eins og þau leggja sig og þinghléinu líka í valdi ríkisstjórnarinnar einnar. Um það hefur ekkert samkomulag verið gert.