Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:46:31 (8451)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er undir nokkuð óvenjulegum kringumstæðum sem hér á nú að ræða um þingfrestun. Þó að þetta sé síðasta mál á dagskrá þessa fundar, þá hefur það ekki enn verið upplýst af hálfu forseta hvort gengið verður til atkvæðagreiðslu um þau mál sem hér er lokið við að ræða. Það hefur heldur ekki verið upplýst enn hvað á að gera við þau mál sem ekki er komið samkomulag um og þau eru nokkur eins og menn sjá sem hlustuðu á þann ræðumann sem hér talaði á undan mér.
    Ég tel að það sé engan veginn tímabært að ljúka umræðu um þingfrestun nú. Forseti hefur að vísu upplýst að atkvæðagreiðslunni um tillöguna muni verða frestað en annað liggur í raun og veru ekki fyrir. Það er svolítið einkennilegt að standa hér og biðja um frestun á frestun á fundum Alþingis. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta að nú þegar verði látnar fara fram atkvæðagreiðslur um þau mál sem hér bíða og fundi síðan slitið og í millitíðinni ræðst við um það hvernig ljúka megi þessu þingi.