Frestun á fundum Alþingis

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 21:45:22 (8470)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að játa það að röð mála kemur mér enn nokkuð á óvart, að nú skuli á þessum fundi eftir þau orðaskipti, sem fóru fram áðan um frestunartillöguna, þetta mál koma hér fyrst allra atkvæðagreiðslna og er greinilegt að hæstv. forseti gerir ekki mikið með óskir eða athugasemdir okkar hv. þm. sem hér töluðum margir áðan og óskuðum þá eftir frestun á umræðunni en hæstv. forseti svaraði því aðallega til að atkvæðagreiðslunni yrði þó frestað og hún færi fram síðar. (Gripið fram í.) Ég sé nú ekki, hæstv. forseti, að það hafi mikið breyst síðan við ræddum þetta mál fyrir kannski eins og 20 mínútum síðan. Ég hef ekki orðið var við að það hafi skýrst mikið um niðurstöður þinghaldsins né heldur að það liggi orðið ljóst fyrir nákvæmlega hver af þeim málum sem hér eru á dagskrá verði afgreidd eða þá hvernig. Þetta er allt saman heldur óvenjulegt, hæstv. forseti. Hér er verið að afgreiða endanlega til hæstv. forsrh. heimild til að rjúfa Alþingi þegar honum sýnist, á því augnabliki þegar honum sýnist frá og með því að atkvæði hafa verið greidd um þessa tillögu ef hún verður samþykkt. Með öðrum orðum, eftir það höfum við þingmenn ekki tök á því eða færi á því að beita neinum af þingræðislegum tækjum okkar til þess að hafa hér áhrif á gang mála varðandi þetta atriði, þar með talið að sjálfsögðu ekki að láta það ráða neinu um afstöðu okkar hvort til að mynda atkvæði ganga hér um mál eins og 16. dagskrármál þessa fundar, hið margfræga frv. um breytingu á búvörulögum í tengslum við innflutning á landbúnaðarvörum. Þetta er allt önnur röð mála, hæstv. forseti, en ég hefði talið eðlilega og í raun og veru má segja að þarna sé enn einn steinninn lagður í þá hleðslu að gera okkur stjórnarandstæðingum með öllu ókleift að mínu mati að samþykkja þessa þingfrestun eins og hana ber hér að. Og þá er auðvitað sama hvort átt er við ástand mála hér innan þingsins, allan svipinn á þinglokunum hvað afgreiðslu mála snertir, sem er auðvitað neðan við allar hellur svo að ekki sé nú minnst á ástandið úti í þjóðfélaginu.
    Er það virkilega svo, hæstv. forseti, að hér sé verið að undirbúa að koma í veg fyrir það að margyfirlýstur meiri hluti í 16. dagskrármálinu fái að koma í ljós og fái að ráða niðurstöðu mála hér á þessu þingi, það sem hv. 3. þm. Austurl. hefur kallað pólitíska valdbeitingu? Er það það sem er hér í undirbúningi? Svo sýnist vera. Það sé með þessari röð mála verið að hjálpa til við það af hálfu hæstv. forseta að ríkisstjórnin eða einhverjir einstakir ráðherrar ríkisstjórnar nái sínu fram. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, hæstv. forseti. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar hér og þar með talið forsetanum fyrir að standa svona að málum og segi nei.