Röð mála á dagskrá

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 22:03:53 (8478)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir skýringum á uppröðun mála á þessari dagskrá og/eða þá í hvaða röð hæstv. forseti virðist ætla að taka þau fyrir. Ég óska eftir þeim skýringum m.a. vegna þeirra orða, sem hæstv. forseti hafði á síðasta fundi. Ég gekk út frá því að hæstv. forseti hefði þar verið að fullvissa okkur þingmenn um að í upphafi þessa fundar yrðu atkvæðagreiðslur teknar um þau mál sem útrædd voru á fyrri fundi. En nú gerist það að dagskrá liggur fyrir okkur þannig, hæstv. forseti, að 7. málið er frestun á fundum Alþingis, atkvæðagreiðsla, en síðan koma þau mál önnur sem greiða á atkvæði um og eru útrædd á þessum fundi mikið aftar. Þetta er mjög sérkennileg uppröðun, hæstv. forseti, og enn frekar svo í ljósi orða hæstv. forseta hér áðan. Ég tel eðlilegt að næst verði tekið fyrir 14. mál á dagskrá og þau mál önnur sem útrædd eru en bíða atkvæðagreiðslu. Ég sé ekki að það sé eðlilegt að slíta atkvæðagreiðslur um þessi mál sundur sem voru útrædd á fyrri fundi. Það er alla vega mjög óvenjulega að verki staðið, svo ekki sé meira sagt. Ég minnist þess ekki að mál frá fyrri fundum sem umræðu er lokið um séu þá ekki tekin saman til atkvæðagreiðslu þegar á annað borð er farið í atkvæðagreiðslur. Og allt finnst mér þetta bera að sama brunni, að hér sé með mjög óvenjulegum hætti verið að hagræða málum þannig til að því megi afstýra að meiri hluti Alþingis, sem liggur fyrir og styður 16. dagskrármálið, fái að ná fram rétti sínum ( ÖS: Ekki Alþb.) og það er satt best að segja ekki mikill glæsibragur yfir því, hæstv. forseti, að fara þannig að málum og auðvitað með endemum ( ÖS: Alþb. styður það ekki.) hvernig snaran er þannig sett um háls þeirra hv. stjórrnarliða. (Gripið fram í.) Ef hv. formaður þingflokks Alþfl., sem greinilega og bersýnilega líður mjög illa í kvöld af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar, ( ÖS: Hann styður álitið en ekki Alþb.) vildi láta svo lítið að hlusta, þá mundi hann nú vitkast verulega. Þetta er þannig, hæstv. forseti, að það er eðlilegt að óskað sé skýringa á því með hve óvenjulegum hætti er staðið hér að verki. Og ég vil spyrja hæstv. forseta: Er ekki forseti tilbúinn til þess til samkomulags að taka nú fyrir þessi atkvæðagreiðslumál frá og með 14. dagskrármálinu og niður eftir dagskránni svo langt sem atkvæðagreiðslumál ná?