Afgreiðsla dagskrármála

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 23:07:56 (8485)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hafa mjög alvarlegir hlutir verið að gerast. Við þingmenn höfum ekki getað fengið um það vitneskju í allan dag hvaða mál eiga að koma til afgreiðslu og það gildir einu um hvort þar hafi verið um hv. stjórnarþingmenn að ræða eða aðra þingmenn. Í upphafi var byrjað á að afgreiða þáltill. um að fresta fundi og síðan var haldið áfram að afgreiða mál og það eru 33 mál á dagskránni. Hér var spurt um það hvaða mál ætti að taka og engin svör fengust við því. Þetta hlé sem við stjórnarandstöðuþingmenn báðum um áðan notuðum við til þess að ganga á fund hæstv. forseta. Hæstv. forseti gat ekki upplýst okkur um hvaða mál ætti að taka á dagskrá, hann þurfti að kalla til hæstv. forsrh. og hv. formenn stjórnarþingflokkanna og þá loksins komu svörin. Svörin komu frá hæstv. forsrh. Hann var sá eini sem gat gefið svörin. Þá kom í ljós, eins og hér hefur verið lesið, hvaða mál á að taka og nú veit hv. þm. Egill Jónsson að búvörusamningurinn verður ekki tekinn til afgreiðslu.

    Við þingmenn stjórnarandstöðunnar stöndum frammi fyrir því að við verðum að ganga til afgreiðslu mála þrátt fyrir að ekkert samkomulag sé haft við okkur um eitt eða neitt. Þetta er óásættanlegt. Og það er óásættanlegt að þurfa að ganga á fund hæstv. forsrh. til að vita hvað er á dagskrá þessa fundar. Ég held að það hljóti að vera mjög óvenjulegt.