Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:08:57 (8497)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er nú gömul en ekki ný saga að stjórnarandstaða notar síðustu stundir Alþingis til þess að fá sér nokkra fótfestu við málaafgreiðslu. Það hefur Sjálfstfl. gert þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu og reyndar aðrir flokkar með sama hætti. Mér finnst hins vegar, og mig langar að koma þeirri skoðun minni á framfæri, að við ættum að láta þetta mál í friði, ekki síst vegna þess hvernig Alþingi hefur gengið fram í því að skapa góðan grundvöll fyrir traustri löggjöf að því er varðar málefni bændastéttarinnar. Eftir því hefur verið tekið og til þess verður vitnað þannig að ég vil eindregið mælast til þess að menn fyndu sér annað mál, ekki síst vegna þess að það hafa svo margir mætir alþingismenn úr öllum flokkum unnið að framgangi þessa máls og lagt góðan grundvöll og traustan til sameiginlegra starfa til þess að gera enn betur þegar við mætumst hér að nýju. Það er fjarri því að ég sé að biðjast sérstaklega undan því eða að það sé verið að hlífa mér eitthvað í sambandi við þessa málaafgreiðslu. Það er fjarri því. En ég minni hins vegar á hvaða samstaða hefur myndast hér og hvað við eigum auðvelt með þegar við mætumst á ný að leggja góðan grundvöll eða enn betri að breytingu á búvörulögunum.