Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:11:54 (8498)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Einhvers staðar stendur: Í upphafi var orðið og orðið kom frá guði. (Gripið fram í.) Eitthvað á þá leið. (Gripið fram í.) ( Landbrh.: Í upphafi var orðið og orðið var hjá þér . . .  ) Virðulegur forseti. ( Forseti: Má forseti benda á að hér er hv. 4. þm. Austurl. í ræðustóli og er að hefja mál sitt og forseti ætlast til þess að hv. þm. beri virðingu fyrir því þegar hv. þm. óska eftir að taka til máls og

þeim hefur verið gefið orðið. Biður nú forseti hv. þm. að hafa hljóð.) Virðulegur forseti. Þessu sem ég vitnaði til hefur verið snúið heldur betur við því nú hljóðar þetta eitthvað á þá leið: Í upphafi var orðið en orðið kom frá EB. Það er þessi nýi grundvöllur, Rómarsáttmálinn, það er hin nýja Biblía sem Alþingi starfar eftir. Það er ástæðan fyrir stöðu þess máls sem hér er rætt um. Það er ástæðan fyrir niðurlægingu hv. 3. þm. Austurl. Það er sá grunnur sem forsrh. og utanrrh. keyra hér áfram á. Það er sá grundvöllur sem meiri hluti alþingismanna hefur samþykkt. Á þessum nýja grundvelli er þetta mál flutt. Breytingar á búvörulögum átti að knýja fram með öðrum hætti en meiri hluti stendur hér til um á þinginu vegna þess samnings sem hér hefur verið knúinn fram. Það er þessi grunnur, það er þessi niðurlæging sem á eftir að koma fram á Alþingi Íslendinga, ekki bara nú, heldur oft í framtíðinni. Því miður, ef þessi nýja Biblía, þessi nýi réttur á að verða hinn ríkjandi réttur, þá hjálpar ekkert, engar fyrirbænir frá hv. 3. þm. Austurl. um að bráðum komi betri tíð. Það hjálpar ekki og það er satt að segja ömurlegt að horfa á þennan þingmann sem í dag hefur flutt hvatningarræður úr þessum ræðustól til þingsins um það að standa í ístaðinu í þessu máli, en kemur nú bljúgur og vísar fram á haustið því að þá komi betri tíð.
    Virðulegur forseti. Fyrir utan þá ömurlegu stöðu sem hér liggur fyrir frá þeim þingmönnum stjórnarliðsins, sem ætluðu að standa í ístaðinu en urðu að beygja sig fyrir þessum grunni sem ríkisstjórnin knýr hér fram, þá er það kannski bara sú niðurlæging sem forsetaembættið hefur fengið á þessum degi sem tekur því fram.