Framleiðsla og sala á búvörum

177. fundur
Sunnudaginn 09. maí 1993, kl. 00:22:09 (8503)


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka til máls í þessum umræðum en ég satt að segja er alveg undrandi á þessum svokallaða úrskurði forseta. Lítum á 62. gr. þingskapa. Þar stendur:
    ,,Heimilt er þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust, . . .  `` Í síðari málsgrein stendur:
    ,,Meðan á umræðum stendur má gera rökstudda tillögu um að taka skuli fyrir næsta mál á dagskránni . . .  `` Í 63. gr. stendur í 1. mgr.: ,,Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins.``
    Með öðrum orðum: Það er alveg skýrt í þingskapalögum að þau gera ráð fyrir því að Alþingi sjálft geti hvenær sem það vill og fram kemur tillaga um það ákveðið sína dagskrá þannig að það er augljóst mál, að hér er um valdníðslu að ræða, hæstv. forseti. Og ég harma það að hlutirnir skuli hafa þróast með þessum þætti þegar menn voru að reyna að ljúka þinginu við mjög erfiðar aðstæður, að menn skuli þá ekki láta sig hafa það að greiða atkvæði um þessa einföldu tillögu. Ég fullyrði það, hæstv. forseti, að þessi framkoma er fyrir neðan allar hellur og hún mun spilla samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu, ekki aðeins nú á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þessu þingi heldur einnig á næsta þingi, og ég skora á hæstv. forseta sem nú situr og mun leita endurkjörs í haust --- ég skora á hæstv. forseta að endurskoða afstöðu sína tafarlaust og láta ganga til atkvæða um hina skriflegu tillögu eða hina munnlegu tillögu hv. 4. þm. Norðurl. e.
    Geri forsetinn það ekki, þá er það eins og köld vatnsgusa framan í þingmenn stjórnarandstöðunnar og þingræðið sjálft og það á forseti Alþingis Íslendinga aldrei að gera.