Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr.

1. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 13:33:00 (5)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka það traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig forseta Alþingis nú í þriðja sinn. Ég þakka aldursforseta hlý orð og árnaðaróskir í minn garð.

    Sem fyrr lít ég á mig sem forseta alls þingsins. Í því felst að ég vil sjá til þess að sérhver þingmaður fái að njóta réttar síns í þessum sal. Réttur þingmanna samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum er mikill en honum fylgir líka sú ábyrgð að sýna sanngirni og tillitssemi og á það að sjálfsögðu jafnt við um stjórnarþingmenn sem stjórnarandstöðuþingmenn.
    Skyldur forseta felast m.a. í því að gæta þess að þingsköp séu haldin og að starf Alþingis fari þannig fram að sómi sé að. Það liggur í eðli þessarar stofnunar að hún er í senn helsti pólitíski vettvangur landsmanna en um leið þarf hún að vera þess megnug að komast að niðurstöðu máls og afgreiða þau að lokinni nauðsynlegri umfjöllun og athugun.
    Síðan hin mikla og róttæka breyting varð á skipulagi Alþingis á sl. ári hafa orðið töluverðar umræður um þingstörfin. Ég hygg að það sé mat flestra þingmanna að vel hafi tekist til með þá breytingu þótt ýmislegt megi enn færa til betri vegar, bæði í hinum skráðu og óskráðu leikreglum hér.
    Okkur þingmönnum er vissulega hollt að hlusta eftir þeirri umræðu sem fram fer í þjóðfélaginu um störf Alþingis, ekki síst þar sem sú mynd sem birtist þjóðinni er ekki alltaf sú sem við mundum kjósa.
    Skömmu eftir að þingstörfum lauk sl. vor sendi ég formönnum þingflokka nokkrar ábendingar og hugmyndir um breytingar á þingsköpum sem ég taldi að til greina kæmu með hliðsjón af starfi þingsins sl. vetur. Nú liggur fyrir að samkomulag hefur tekist um nokkur atriði sem hiklaust má telja til bóta. Sérstaklega vil ég lýsa ánægju minni með þá sátt sem orðið hefur um skipan forsætisnefndar þingsins og trúi að eigi eftir að hafa farsæl áhrif á störf okkar á þessu þingi.
    Alþingi hefur breyst mjög mikið á undanförnum tveimur þremur áratugum. Skipulag þingsins hefur tekið miklum breytingum, starfsaðstaða alþingismanna hefur batnað og nefndir þingsins starfa nú allt árið. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var en í fullu samræmi við þá þróun sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar á sama tíma. Þessi þróun miðar að því að efla enn frekar starfsemi Alþingis sem helsta vettvangs stjórnmálaumræðu í landinu. Ég er sannfærð um að þessi þróun muni halda áfram, staða Alþingis styrkjast enn frekar og áhrif löggjafans aukast.
    Það þing sem nú er að hefjast er óvenjulegt að því leyti að það hefst nokkru fyrr en venja er til og fyrirsjáanlegt er að verkefni þess nú á fyrstu mánuðum verða óvenjuviðamikil. Ég á þar við umfjöllun og afgreiðslu samninga um Evrópskt efnahagssvæði. Ég tel að afgreiðsla þessa umfangsmikla máls verði að sumu leyti prófsteinn á Alþingi og starfshætti þess. Það er einlæg von mín að vel takist til svo að Alþingi verði sómi að.
    Um leið og ég endurtek þakkir mínar til alþingismanna fyrir það traust sem mér er sýnt með því að trúa mér fyrir þessu embætti er það einlæg ósk mín að með okkur haldist gott og farsælt samstarf.