Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 14:37:12 (10)

     Flm. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Á þskj. 18 liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Flutningsmenn eru auk mín Geir H. Haarde, Svavar Gestsson, Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir. Þetta frv. er flutt í samræmi við samkomulag sem tekist hefur á milli allra þingflokka um breytingar á þingsköpum Alþingis. Meginefni þess felst í breyttri skipan forsætisnefndar og nokkrum breytingum sem varða ræðutíma þingmanna og ráðherra.
    Samkvæmt frv. verður forsætisnefnd skipuð sjö þingmönnum, forseta og sex varaforsetum. Breytingin miðar að því að gera öllum þingflokkum kleift að fá aðild að forsætisnefnd en þó þannig að einnig sé höfð hliðsjón af þingstyrk flokkanna.
    Gerð er tillaga um að breyta nokkuð ræðutíma þingmanna. Ræðutími fyrirspyrjanda og ráðherra í fyrirspurnatímum er styttur þannig að þeir mega aðeins tala í tvær mínútur í síðara sinn í stað þriggja mínútna fyrir fyrirspyrjanda og fimm mínútna fyrir ráðherra eins og nú er.
    Ræðutíma við óundirbúnar fyrirspurnir er breytt þannig að fyrirspyrjandi og ráðherra mega tala þrisvar en aðeins tvær mínútur í fyrsta sinn og ekki lengur en eina mínútu í annað og þriðja sinn. Þetta leggjum við til í þeirri von að orðaskipti þingmanna og ráðherra verði líflegri og hnitmiðaðri og þetta nýmæli í þingsköpunum, sem óundirbúnu fyrirspurnirnar eru, njóti sín betur með þessum tímareglum. Ég hygg að þetta nýmæli hafi mælst mjög vel fyrir á síðasta þingi. Það er ekki gert ráð fyrir að aðrir þingmenn geti blandað sér í orðaskipti fyrirspyrjanda og ráðherra í óundirbúnu fyrirspurnunum eins og í hefðbundnum fyrirspurnatíma.
    Ræðutími málshefjanda og viðkomandi ráðherra í hinum styttri utandagskrárumræðum, hálftíma umræðunum, er lengdur úr þremur mínútum fyrir málshefjanda og tveimur mínútum fyrir ráðherra í fimm mínútur fyrir báða í fyrra sinn. Ræðutími þeirra í síðara sinn verður tvær mínútur eins og annarra þingmanna sem taka þátt í umræðunni. Þetta er gert vegna athugasemda sem fram hafa komið um að ræðutími málshefjanda og ráðherra sé of knappur í þessum umræðum.
    Þá verður ræðutími þingmanna til að gera athugasemdir um gæslu þingskapa og um atkvæðagreiðslu eða til að bera af sér sakir styttur úr fimm mínútum í þrjár.
    Í 2. gr. frv. er settur skilafrestur á þær skýrslur sem Alþingi hefur samþykkt að ráðherrar geri og er miðað við 10 vikur en engin tímamörk eru í núgildandi þingsköpum.
    Um þessar breytingar tókst, frú forseti, gott samkomulag. Frv. er flutt af fulltrúum allra þingflokka og eftir því sem ég veit best hefur það verið samþykkt í öllum þingflokkum. Það er ekki ástæða að mínu mati til að senda frv. til nefndar. Ég vil nota tækifærið til að þakka fulltrúum annarra þingflokka fyrir góðan vilja til að leysa þetta ágreiningsmál. Það eru veruleg ágreiningsmál fram undan til umfjöllunar á þinginu og ég tel heppilegt að þetta mál skuli hafa verið leyst friðsamlega.