Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 14:41:33 (11)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel mjög eðlilegt að gerð hafi verið tilraun til þess milli þingflokka að lagfæra þingsköp að því er varðar stjórn þingsins, forsætisnefnd þess. Ég fagnaði því þegar fram kom vilji til þess að taka á því máli. Mér finnst hins vegar að niðurstaðan sem hér er verið að kynna okkur sé alllangt frá því sem æskilegt væri sem uppskera af þessu starfi. Ég tel það í raun skyldu mín að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum, ekki ósvipað því og ég gerði í mínum þingflokki en skal þó ekki lengja hér mál umfram þarfir.
    Mér sýnist að sú tillaga sem hér er gerð, að fjölga í forsætisnefnd þingsins úr fimm í sjö, sé á vissan hátt að fara úr öskunni í eldinn í sambandi við yfirstjórn þingsins. Ég hef stutt það sjónarmið að allir þingflokkar ættu fulltrúa í forsætisnefnd og hef talið að það væri gilt og gott sjónarmið eins og skipan þingflokka er háttað á Alþingi og hefur verið alllengi, að menn geti búið við fimm manna forsætisnefnd þar sem hver þingflokkur hefði sinn fulltrúa. Ég tel það mjög miður að verið sé að hækka þessa tölu af ýmsum ástæðum. Ég tel að sú tillaga sem hér liggur fyrir um hlutfallskosningu í þessa nefnd með hliðstæðum hætti og gerist í þingnefndum sé á grundvallarmisskilningi byggð. Forsætisnefnd þingsins er ekki nefnd þar sem vegast á atkvæði, þar sem menn greiða atkvæði um mál og úrslit mála. Í forsætisnefnd þingsins, eins og þingsköpin voru útbúin, þau sem enn eru í gildi, er aðeins eitt atkvæði, þ.e. atkvæði aðalforseta þingsins sem sker úr ef ágreiningur er í nefndinni. Það er mjög eðlileg skipan mála. Verkefni aðalforseta þingsins hlýtur að vera það að laða saman sjónarmið, skapa samstöðu um mál og gera forsætisnefndina að raunverulegri stjórn þingsins sem hafi eitthvert vægi gagnvart þingflokkum og hefji sig með vissum hætti yfir karp og deilur milli þingflokka. Að líta svo til að sitjandi ríkisstjórn þurfi að hafa einhvern meiri hluta í forsætisnefnd er sjónarmið sem ég fæ ekki skilið og held að leysi ekki nokkurn vanda, hvað þá það markmið að gera fulltrúana í forsætisnefndinni samábyrga. Ég heyrði það frá einhverjum formanni þingflokkanna, ég held það hafi verið formaður þingflokks Alþfl. sem þau ummæli voru höfð eftir, að hér lægi fyrir tillaga sem lyti að því að nú væru menn samábyrgir í þessari nýju forsætisnefnd þingsins. Ef nokkuð er er verið að færa þetta sundur með því að setja hér inn kerfi með meiri hluta stjórnarfulltrúa í forsætisnefndinni og stjórnarandstöðuna í skýrum minni hluta tölulega séð, atriði sem skipta engu máli upp á afgreiðslu mála því forsetinn er sá sem hefur endanlegt vald í nefndinni.
    Ég tel að við endurskoðun þingskapa síðast, eins og hún endurspeglast í 9. og 10. gr. gildandi þingskapa, hefði verið vænlegra að setja málin upp með svolítið öðrum hætti, þ.e. að forsætisnefndin er stjórn þingsins, forsetinn er einn úr forsætisnefnd og það er jú formið, en hann er tekinn sér, hann er tekinn út úr. Ég tel að það beri að minnka bilið á milli forseta þingsins og varaforsetanna, reyna að koma með skýrari hætti inn ákvæði um að það beri að leita samstöðu í forsætisnefndinni og það sé í rauninni jafnara á með mönnum í þessari stjórn þingsins heldur en núverandi þingsköp mæla fyrir. En það er annar handleggur. Hér er verið að breyta í allt aðra átt. Ég hef áhyggjur af þessu vegna Alþingis og ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að segja það í örfáum orðum hvernig að þessum málum er staðið í nágrannalöndum okkar. Ég er ekki viss um það sé öllum þingmönnum ljóst.
    Lítum fyrst til Danmerkur, sem við höfum litið til í sambandi við stjórnskipun okkar að mörgu leyti og okkar stjórnarskrá er vaxin að nokkru leyti upp úr dönsku stjórnarskránni og dönsku stjórnkerfi. Þar er einn forseti og fjórir varaforsetar sem mynda forsætisnefnd þingsins. Nú sem stendur, eða líklega frá 1990, vill svo til að forseti þingsins er hægri maður, H.P. Clausen, og varaforsetarnir úr öðrum þingflokkum. Það hefur síður en svo verið regla í danska þinginu að forsetar þingsins fylgdu ríkjandi stjórn. Þvert á móti hafa þar áður en H.P. Clausen tók við forsetastarfi setið sósíaldemókratar á forsetastóli nánast svo lengi sem elstu menn muna og lengst af þeim K.B. Andersen. Ætli við ættum ekki að hugleiða það hvernig nágrannalönd okkar búa við slíkt kerfi.
    Í Noregi er þetta nokkuð flóknara. Þar eru menn með það kerfi sem við yfirgáfum, með tveimur deildum og sameinuðu þingi. Þar er eins konar sex manna forsætisnefnd, þ.e. aðalforseti þingsins og varaforseti Stórþingsins og síðan forseti og varaforseti úr deildum, óðalsþingi og lögþingi. Þessir þrisvar sinnum tveir, sex manns, mynda þar forsætisnefnd og síðan eru varamenn þeirra ef allt er talið sex talsins sem geta komið inn í þetta kerfi hjá Norðmönnum. Og hver skyldi vera forseti norska þingsins? Hann heitir Jo Benkow og er hægri maður og búinn að vera lengi og gegna starfi sínu með sóma og góðu samkomulagi í andstöðu við hvað snertir flokkspólitískan lit við sitjandi ríkisstjórn. Varaforseti er þessa stundina Kristi Kolle Grøndahl í Stórþinginu frá sósíaldemókrötum.
    Í Svíþjóð er forseti og þrír varaforsetar. Nú er forsetinn í Ríkisdeginum sænska úr hægri flokki eða

Moderatarne, Ingegerd Troedsson, sem kom þar inn sem forseti í aðdraganda stjórnarmyndunar ríkisstjórnar Carls Bildts sem nú situr. Áður var þar forseti Thage Peterson, sósíaldemókrati eins og forverar hans margir, ég má segja í ríkisstjórnum bæði borgaraflokka og sósíaldemókrata. Og vel að merkja: í Svíþjóð er forsetadæmið hafið yfir flokkadrætti með vissum hætti eins og það er í Noregi og Danmörku. Þetta hefur lukkast.
    Ég held að menn þurfi að leggjast undir feld ef þeir ætla að ná einhverjum vitlegum og viðunandi tökum á stjórn Alþingis í framtíðinni og búa til eitthvað annað en þá tillögu sem liggur fyrir. Við gátum, ef pólitískur vilji var fyrir hendi til þess að nota gildandi þingsköp og hleypa að fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, leyst þennan hnút með skaplegum hætti. Ég tel í rauninni, virðulegur forseti, að það hefði þurft að taka á mörgum fleiri málum sem einmitt lúta að því að gera stjórn og stjórnarandstöðu dálítið samábyrga um stjórn þingsins í reynd með því m.a. að deila formennsku í nefndum þingsins og það sé ekki meginregla að þar þurfi að sitja stjórnarliðar. Á þann hátt reyndu menn að ná saman um lögin, þ.e. um formið, til þess að friðurinn geti verið skaplegur og menn geti náð að leysa þau verkefni sem á Alþingi eru lögð.
    Ég vildi, virðulegur forseti, gera grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum, ekki vegna þess að ég geri mér neina von um að þau verði til þess að breyta því sem hér er gerð tillaga um og skiptir ekki máli hvort ég læt það afskiptalaust við atkvæðagreiðslu eða lýsi andstöðu minni við það. Ég vildi skýra mitt mál að þessu leyti og ég vil hvetja þingið til að líta á þessi mál, ekki til að setjast á rökstóla á þessu þingi um það heldur til að hugsa málið. Auðvitað verðum við að vona að við komumst bærilega af með þá skipan sem hér er verið að leggja til, jafnóskynsamleg og hún er. Ég óska þeim sem í það verkefni ganga allra heilla og nýkjörnum forseta velfarnaðar í starfi.