Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 14:52:12 (12)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í gær náðist samkomulag þingflokksformanna um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Nái breytingarnar fram að ganga verður tryggt að allir þeir flokkar og stjórnmálasamtök sem nú eiga sæti á Alþingi fá aðild að forsætisnefnd þingsins. Þessu fögnum við þingkonur Kvennalistans að sjálfsögðu enda teljum við það fyrirkomulag eðlilegt. Því er þó ekki að leyna að við viljum sjá stjórn þingsins með þeim hætti að hún sé hafin yfir karp um meiri hluta og minni hluta. Hefði sú skoðun verið ríkjandi hjá núverandi ríkisstjórnarmeirihluta fyrir ári síðan hefði þingið eflaust siglt lygnari sjó sl. vetur enda kann það ekki góðri lukku að stýra að neyta ætíð aflsmunar.
    Forsætisnefndinni ber að standa vörð um sjálfstæði og virðingu Alþingis og hafa að leiðarljósi að það er Alþingi sem setur framkvæmdarvaldinu starfsramma en ekki öfugt. Löggjafarsamkundan er ekki og á ekki að vera þjónn ríkisstjórnarinnar. Því á stjórn þingsins að vera óháð því hverjir skipa meiri hluta hverju sinni.
    En, virðulegi forseti, í þeirri von að það frv. til laga, sem samkomulag hefur orðið um, verði til að bæta starfsanda þingsins stöndum við kvennalistakonur að þeim breytingum sem hér eru til umræðu og munum greiða þeim atkvæði okkar. Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, fyrir hönd míns þingflokks.