Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 14:57:30 (14)



     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hæstv. forseti hafði í sínu ávarpi til þingmanna uppi ýmis orð sem þingmenn allir geta tekið undir og mun nú reyna á efndirnar því að eitt af því sem kom fram þar var að mál skyldu afgreidd þegar þau hefðu fengið hæfilega umfjöllun. Ég hygg að það sé mjög skynsamlegt að standa þannig að verki og er eindreginn stuðningsmaður þess. Hins vegar hlýtur það að kalla á nokkra umræðu um þingsköpin að nú eru þau brotin upp og tekin fyrir á þann hátt að almenningur í landinu mun líta svo á að menn séu að sníða af þeim verstu annmarka sem á þeim eru.
    Ég get ekki stillt mig um að víkja þá að því atriði sem mér finnst mest afturför á Alþingi Íslendinga. Það er að hægt sé að halda uppi nefndarfundum án þess að meiri hluti nefndarmanna sé mættur til fundar. Þau ár sem ég hef setið á þingi hefur verið reynt að leggja mikið kapp á það að ná mönnum til nefndarfunda. Það var litið svo á að nefndirnar væru þær síur í þinginu sem ættu að tryggja það að mál færu ekki illa undirbúin í gegnum Alþingi Íslendinga.
    Nú þarf ekki lengur meiri hluta til þess að hægt sé að halda uppi fullu nefndarstarfi. Það er hægt að setja nefndarfund og hefjast handa að fullu. Mér er það óskiljanlegt hvernig menn geta litið svo á að nefndirnar séu þær síur sem þær þurfa að vera með þessum vinnubrögðum. Ég hygg að það sé ákaflega þarft verk fyrir forsætisnefndina að kynna sér það hvaða áhrif þetta hefur haft á mætingar til starfa í nefndunum. Ég verð að segja eins og er að þetta finnst mér vera aðalatriðið í því sem hefði þurft að endurskoða.
    Í 2. gr. er það ákvæði að ljúka skuli skýrslugerð innan 10 vikna og vissulega tek ég undir að það er jákvætt atriði að ráðherrar verði að ljúka slíkri skýrslugerð og leggja það á borð þingmanna. Hitt hlýtur að vera umhugsunarefni, af því að það þarf þó nokkurn hóp manna í þinginu til þess að hægt sé að biðja um skýrslu, að það sé skýlaust ákvæði að sú skýrsla komi til umræðu. Það er ekkert sem tryggir að skýrslan komi til umræðu. Ráðherra getur sem sagt lagt skýrsluna á borð þingmanna en komið sér svo undan því að hún sé rædd eins og reynsla var af á liðnum vetri ef hann taldi það ekki heppilegt að ræða umrædda skýrslu.
    Ég tel að það sem sett er hér upp síðar skipti kannski ekki öllu máli. Það mun reyna mjög á það hvort forseti er það stjórnsamur að eðlisfari að hann haldi mönnum við þau tímamörk sem hér eru sett. Ef niðurstaðan verður fyrst og fremst sú að þeir hógværari í þinginu fari eftir þessu en hinir vaði uppi er árangur enginn og forseta vissulega vandi á höndum í þessum efnum. Ég tel nefnilega nokkurs virði að þingsköpin séu á þann veg að þau verði ekki brotin.
    Mér skilst að sum mál séu þess eðlis að menn telji að þau eigi ekki að fara til nefndar. Það er umhugsunarefni því að um leið og menn telja sín verk svo fullkomin að þau þurfi ekki að fara til nefndar erum við að breyta Alþingi Íslendinga úr því að vera þing í það að vera fundur. Það er fróðlegt þrátt fyrir allt að bera þetta tvennt saman því að fundarsamþykktir eru misjafnar að gæðum þó að greindir menn sitji á fundunum eins og menn hafa löng kynni af. Ég tel þess vegna að það sé nokkur mælikvarði á það hvað hæstv. forseta er mikil alvara varðandi vönduð vinnubrögð hvernig staðið verður að framhaldi þessa máls.