Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 15:02:57 (15)


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram af minni hálfu og míns þingflokks að við erum eftir atvikum ánægð með það samkomulag sem náðst hefur í þessu efni. Það er alveg ástæðulaust að rekja aðdraganda þeirra breytinga sem nú er gerð tillaga um. Sú saga er flestum hér í salnum áreiðanlega í fersku minni. Það sem skiptir máli á þessari stundu er að samkomulag hefur náðst þar sem komið er til móts við þau meginsjónarmið sem uppi hafa verið í þessum efnum að því er varðar forsætisnefndina. Það er tryggt með þessum breytingum að allir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi fái aðild að forsætisnefnd þingsins. Það er jafnframt tryggt að þingflokkar njóti hlutfallslegs þingstyrks síns.
    Síðan eru í frv. aðrar breytingar sem menn urðu sammála um að gera, einkum að því er varðar ræðutíma, og ég tel að þær skipti allar nokkru máli þótt hver um sig sé e.t.v. lítilvæg.
    Ég vil gjarnan segja það í framhaldi af þeim umræðum sem þegar hafa orðið um þetta mál að eflaust má margt að gildandi þingsköpum finna. Það varð hins vegar ekki samkomulag um aðrar breytingar en þær sem hér eru enda var ekki um að ræða neina heildarendurskoðun á þingsköpunum að þessu sinni. Ég tel hins vegar ekki að þetta sé í síðasta sinn sem lögum um þingsköp verður breytt og ég tel að menn hljóti að hafa það jafnan til athugunar hvort skynsamlegt geti verið síðar meir að breyta öðrum atriðum í þessum lögum eftir því sem samkomulag kann að nást um og eftir því sem reynslan sker úr um. Það hefur hins vegar ekkert samkomulag verið gert eða ákvörðun tekin um neina slíka vinnu í framhaldinu. Ég

tel hyggilegast að láta það ráðast hvað menn gera varðandi frekari endurskoðun þingskapa. Ég vænti þess að þau mál verði til umfjöllunar á vettvangi þingflokksformanna eftir því sem efni og aðstæður gefa ástæðu til.
    Ég vil að lokum taka undir með 1. flm., hv. þm. Páli Péturssyni, og þakka meðnefndarmönnum mínum í þeirri nefnd sem undirbjó frv. og flytur það. Ég tel að þeir hafi allir lagst á eitt um að reyna að ná samkomulagi í deilumáli sem vissulega var erfitt viðureignar og ég tel að eftir atvikum megi allir bærilega við una.