Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 15:10:42 (17)



     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég er samþykkur því markmiði, sem kemur fram í 1. gr. frv., að allir flokkar eigi aðild að forsætisnefnd Alþingis. Ég tel hins vegar að sú leið að fjölga í forsætisnefnd, sem hér hefur verið valin, sé ekki skynsamleg og þjóni ekki því markmiði að gera forsætisnefndina samhentari en áður var með fyrra fyrirkomulagi. Ég tel að því markmiði hefði mátt ná með því að stærstu flokkarnir fimm ættu aðild að forsætisnefnd eins og vitnað var til að væri í danska þinginu.
    Ég tel líka að það ætti að breyta 9. gr. þingskapa þannig að forsætisnefnd bæri ábyrgð á rekstri Alþingis en ekki forseti einn eins og geinin hefur verið skilin.
    Ég er að sjálfsögðu samþykkur því að vísa frv. til 2. umr. en mun sitja hjá við afgreiðslu síðar. Ég vil jafnframt árna nýkjörnum forseta heilla í starfi og þeim sem kjörnir verða í forsætisnefndina og vonast að sjálfsögðu til þess að þeim takist sem best að vinna úr því formi sem hér er verið að ákveða. Ég segi já.