Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 14:06:23 (40)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þeir þrír ræðumenn, hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér hafa tínt til æðimörg rök og sagt ýmislegt af því sem þarf að segja í þessu máli þannig að að því leyti til get ég stytt ræðu mína nokkuð, en langar þó til að segja nokkur orð.
    Fyrst vil ég tala um stjórnarskrárþátt málsins. Þrátt fyrir að hér sé ákveðið að fram fari á morgun umræða um frv. til laga um breytingar á stjórnarskránni þá gaf hæstv. utanrrh. boltann upp í framsöguræðu sinni með þessu lagafrumvarpi.
    Ég tel að það þurfi djarfa menn til þess að fullyrða það opinberlega að EES-samningurinn samræmist íslensku stjórnarskránni. Þeir sem eru læsir á íslenskt mál geta orðið sér úti um sérprentun af stjórnarskránni og EES-samninginn og fylgigögn og borið þetta saman. Þá sjá allir sem sjá vilja að mörg ákvæði samningsins og fylgigagna hans eru ósamrýmanleg stjórnarskrárákvæðum. Og það gildir alveg einu þótt hæstv. utanrrh. hafi valið fjóra kunna lögfræðinga til að semja greinargerð um að samningurinn standist stjórnarskrána. Þeirra greinargerð minnir um margt á varnarræðu verjanda sakbornings. Þeir láta þess getið í niðurlagi greinargerðar sinnar að stjórnarskránni megi breyta eftir á. Það væru vond og forkastanleg vinnubrögð. Þjóðréttarsamningur sem ekki fellur að stjórnarskrá er ógildur að lögum og allt sem hefði verið gert á grundvelli samningsins væri ógilt ef Hæstiréttur felldi þann dóm að nokkrum árum liðnum að stjórnarskrá og samningur stönguðust á. Raunar er allur málatilbúnaður hæstv. utanrrh. varðandi stjórnarskrárþáttinn sérlega ámælisverður.
    Í fyrravetur lögðu þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkunum fram till. til þál. um að sett yrði á fót óháð lögfræðinganefnd til að kanna stjórnarskrárþáttinn. Í nefndina skyldi tilnefna fulltrúa: Dómarafélag Íslands tvo, lagadeild Háskólans tvo og Lögmannafélag Íslands tvo. Þetta þorði hæstv. utanrrh. ekki að fallast á. Og sýnir það svo ekki verður um villst að hann veit það sjálfur að hann er á þunnum ís. Hann greip til þess örþrifaráðs að velja sjálfur tilgreinda lögfræðinga, ágæta menn í sjálfu sér en alla tengda málatilbúnaðinum. Tveir þeirra höfðu meira að segja sjálfir unnið að samningagerðinni og voru þarna að meðhöndla barnið sitt. Annar þeirra var um tíma alþingismaður fyrir Sjálfstfl. Og þó ég leyfi mér ekki að draga í efa lögvísi hans þá veit ég af reynslunni, eins og reyndar sumir hér inni líka, að hann er nú ekki óskeikull. Til forustu í nefndinni valdi hæstv. utanrrh. kunnan sjálfstæðismann, hæstaréttardómara og mikinn Evrópusinna. Og loks valdi hæstv. utanrrh. einn ráðuneytisstarfsmann í þennan hóp.
    Þessir fjórmenningar utanrrh. leystu sitt verkefni, þó með fyrirvörum sem utanrrh., sem er mikill herforingi, hefur sjálfsagt ekki ætlast til. Hins vegar hefur hann áreiðanlega tekið gildar margar röksemdir þeirra, t.d. þá að stjórnarskrá Íslands tæki það hvergi fram að um væri að ræða alíslensk stjórnvöld sem skyldu fara með framkvæmdarvaldið á Íslandi, svo að einungis sé tíunduð ein röksemd úr málsvörninni fyrir því að samningurinn stæðist stjórnarskrárákvæði. Og þrátt fyrir það að fjórmenningar utanrrh. séu allir snjallir lögmenn, þá var ég aldrei í vafa um hver yrði niðurstaða þeirra og það sást nú bara strax á valinu. Auðvitað voru það fleiri en við hæstv. utanrrh. sem vissu fyrir fram að hvaða niðurstöðu þeir mundu komast. Mörgum dögum áður en þeir skiluðu málsvörninni sagði flokksþing Alþfl. frá því hver niðurstaðan yrði.
    Utanrmn. hefur kannað stjórnarskrárþætti þessa máls talsvert og kallað fyrir nefndina marga þá lögfræðinga sem lærðastir eru í þjóðarétti og líklegastir til að gefa marktæka umsögn. Dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur hefur unnið fyrir nefndina álitsgerð, og reyndar þó tvær. Þá hefur nefndinni

borist álitsgerð prófessorsins í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands og hann á raunar eftir að koma til fundar við nefndina. Niðurstaða flestallra þeirra manna sem nefndin hefur kvatt á sinn fund hefur verið sú að stjórnarskrá beri að breyta vilji menn fullgilda þennan samning. Þetta segja þeir án tillits til hvort þeir eru meðmæltir þessari samningagerð eða ekki. Greinargerðir þeirra dr. Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar prófessors ættu raunar að vera skyldulesning alþingismanna og svo vel vill til að þær eru prentaðar sem fylgiskjöl með frv. til stjórnlagabreytingar. Raunar er líka prentuð þar álitsgerð fjórmenninga utanrrh. vegna þess að þegar hún er lesin grannt, þá sést að hún er náttúrlega mjög sterk röksemd fyrir því að stjórnarskránni verði að breyta þó að niðurstaða þeirra í orði kveðnu sé önnur.
    Einn þeirra sem taldi að stjórnarskránni yrði að breyta fékk þá spurningu frá fulltrúa Alþfl. á fundi í utanrmn. hvort hann hefði komist að sömu niðurstöðu, þ.e. að stjórnarskránni yrði að breyta, hefði honum verið falið af ríkisstjórninni að sanna það að samningurinn stæðist stjórnarskrána. Ég held að engum utanríkismálanefndarmanni dyljist að rök þeirra gesta nefndarinnar sem telja að stjórnarskránni þurfi að breyta sé miklu sterkari og trúverðugri heldur en hinna enda þótt sumir utanríkismálamenn kjósi að setja kíkinn fyrir blinda augað og þykjast ekki taka eftir neinu af hagkvæmnisástæðum. Einn af þeim mönnum sem hlustað hefur með opnum huga á þau rök sem fram hafa verið færð í utanrmn. er hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann hefur ekki gengið að þessu verkefni með lokuð augu og menn sjá nú hvernig flokkur hans launaði honum það að vinna sitt verk samviskusamlega.
    Frú forseti. Mig langar að nefna nokkrar greinar stjórnarskrárinnar þingheimi til upprifjunar. Stjórnarskrá okkar stendur vörð um fullveldið og vilji menn skerða fullveldið að hluta til eða afsala því, þá þarf að breyta stjórnarskránni en 2. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.
    Þegar í þessari grein er samningurinn ekki samrýmanlegur í mörgum atriðum. Fyrst með löggjafarvaldið. Löggjafarvaldið er með þessari samningagerð skert og fært til annarra. Alþingi hefur að vísu að forminu til neitunarvald en því verður mjög torvelt að beita og óraunhæft að gera ráð fyrir því að því verði beitt. Með samningnum undirgöngumst við að breyta fjölmörgum gildandi íslenskum lögum. Ríkisstjórnin hefur boðað flutning breytinga á yfir 80 lögum sem afleiðingu af lögfestingu EES-samningsins. Þessar lagabreytingar gerir Alþingi áður en samningurinn öðlast gildi eða veit um þessar breytingar þannig að við vitum hvað við erum að gera og getum út af fyrir sig hætt við að lögfesta samninginn. Hitt er verra að eftir að samningurinn hefur verið lögtekinn, þá verðum við nauðugir viljugir að lögtaka ýmislegt sem Evrópubandalagið kann að ákveða. Við undirgöngumst sem sagt að lögtaka það sem við vitum ekkert hvað kann að verða. Við undirgöngumst að lögtaka reglur sem EB kann að setja í framtíðinni og þetta er út af fyrir sig alveg tvímælalaust skerðing á löggjafarvaldinu og samræmist ekki 2. gr. stjórnarskrárinnar, hvorki að efni né anda. Ég vil minna á 36. gr. stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.``
    Ég tel að með orðinu ,,frelsi`` sé þarna ekki einungis átt við það að ekki megi hneppa Alþingi í tukthús eða þröngva því með valdi. Orðið ,,frelsi`` hefur víðtækari merkingu. Það hlýtur einnig að merkja að Alþingi sé frjálst að ákvarðanatöku sinni. Eftir að hafa undirgengist að lögtaka bindandi reglur sem Evrópubandalagið kann að setja er ekki hægt að halda því fram að frelsi Alþingis sé óheft. Ég minni á 48. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
    ,,Alþingismenn eru einungis bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.``
    Ekki er það í samræmi við anda þessarar greinar að alþingismenn skuli eftir lögfestingu samningsins verða bundnir við reglur sem Evrópubandalagið kann að setja. Alþingi hefur iðulega verð gagnrýnt fyrir það að hneigjast til að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma. Eftir lögfestingu þessa samnings verður Alþingi ekki einungis afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn heldur verður Alþingi öðrum þræði afgreiðslustofnun fyrir Evrópubandalagið.
    Frú forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um framkvæmdarvaldið. 13. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
    ,,Forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
    Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík.``
    14. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
    ,,Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.``
    Þessi ákvæði ber að skoða í samhengi við það sem segir um framkvæmdarvaldið í 2. gr. að forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fari með framkvæmdarvaldið.
    Í málsvörn fjórmenninga utanrrh. segir svo á bls. 16, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er talað um forseta lýðveldisins og önnur stjórnvöld samkvæmt öðrum landslögum. Ekki er tekið fram að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld og hugsanlegt er að alþjóðastofnanir séu stjórnvöld eftir 2. gr.``

    Þetta þykir mér ótrúleg röksemdafærsla hjá fjórmenningum utanrrh. og sýnir það í hve miklum vandræðum þeir hafa verið í málsvörninni að þeir skuli, löglærðir mennirnir, telja sig þurfa að grípa til svona röksemda. Enn fremur segja þeir á bls. 24:
    ,,Við teljum að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdaframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli.``
    Á þessa langsóttu röksemd fjórmenninganna er ekki heldur hægt að fallast. Hér er um verulegt valdaframsal að ræða og verður að telja það íþyngjandi í ríkum mæli.
    Ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta, til greinargerðar eins af okkar lærðustu þjóðréttarfræðingum, dr. Guðmundar Alfreðssonar, þá hina fyrri sem hann lagði fyrir utanrmn. Dr. Guðmundur segir svo:
    ,,Lítum fyrst á framkvæmdarvaldið. Samkvæmt EES-samningnum, greinum 108--110, sem eru nánar útfærðar í samningnum um eftirlitsstofnun og dómstóla EFTA, mun eftirlitsstofnunin fá víðtækt vald til að hafa eftirlit með framkvæmd samningsskuldbindinganna. Hið sama getur gilt um framkvæmdastjórn EB í þeim tilfellum þegar ákvarðanir falla undir hana samkvæmt ákvæðum samninganna. Eftirlitið með samkeppnisreglum kemur hér sérlega til skoðunar því það er skýrt tekið fram í 110. gr. EES-samningingsins að ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA verði aðfararhæfar gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum, þ.e. þær koma beint til fullnustu að landsrétti án þess að innlend stjórnvöld eða innlendir dómstólar hafi þar nokkuð um efnishliðina að segja. Eftirlitsstofnunin er sjálfstæð stofnun og eftirlitsmennirnir, þar með talinn íslenski eftirlitsmaðurinn, mega ekki taka við fyrirmælum frá ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Þarna er sem sagt um alþjóðlega framkvæmdarvaldsaðila að ræða sem getur tekið ákvarðanir sem mundu verða bindandi á Íslandi.
    Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að forseti og önnur stjórnvöld fari með framkvæmdarvaldið. Í 13. gr. segir að forseti láti ráðherra framkvæma þetta vald. Í 14. gr. segir enn fremur að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.`` Og dr. Guðmundur undirstrikar orðið öllum. ,,Það er enginn vafi á því að stjórnarskráin á hér við íslenska ráðherra og íslensk stjórnvöld. Það er engin undantekning gerð í þessum greinum um framsal á framkvæmdarvaldi út úr landinu og það hefur aldrei verið gert með þessum hætti þannig að engin eru fordæmin. Þetta kemur enn betur í ljós með tilliti til 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem það er útilokað að ráðherrar geti borið ábyrgð á stjórnarframkvæmdum og endanlegum ákvörðunum eftirlitsstofnunar EFTA þar sem hún heyrir alls ekki undir þá. Hér vaknar því greinilega spurning um stjórnarskrárbrot.``
    Frú forseti. Þetta var tilvitnun í álitsgerð dr. Guðmundar Alfreðssonar þjóðréttarfræðings.
    Mig langar enn fremur með leyfi forseta að vitna til álitsgerðar prófessorsins í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, dr. Björns Þ. Guðmundssonar, er lögð var fyrir utanrmn. Þar segir á bls. 11:
    ,,Lögfræðinganefnd utanrrh. kemst í grófum dráttum að þeirri niðurstöðu að um heimilt framsal framkvæmdarvalds sé að ræða vegna þess að reglurnar um vald stofnana séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdaframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli, enda varði það milliríkjaviðskipti. Einmitt vakna hér efasemdir mínar sem ég mun nú reyna að rökstyðja nánar``, segir Björn.
    Ég er búinn að víkja að því hver það sé sem standi að valdaframsalinu og held ég áfram að vitna til álitsgerðar prófessorsins og mun því næst fjalla um það hvað framselt er með EES-samningnum. Rétt er að geta þess strax að flest af því sem hér segir um framsal framkvæmdarvalds á einnig við um framsal dómsvalds svo sem raunar kemur fram í áliti fjórmenninganefndarinnar. Í því efni skipta hér meginmáli þær ákvarðanir hinna þjóðréttarlegu stofnana sem snúa beint að einstaklingum og lögaðilum hér á landi og eru bindandi fyrir þá að landslögum án þess að nokkrar íslenskar stofnanir komi þar nærri.
    Fyrst er rétt að geta þess að eftirlit með framkvæmd EES-samningsins er annars vegar í höndum framkvæmdastjórnar EB og dómstóla EB sem fara með eftirlitið í aðildarríkjum EB og hins vegar í höndum eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins sem fara með eftirlitið í EFTA-ríkjunum. Ég held mig einungis við valdssvið eftirlitsstofnunar EFTA. Hún hefur að mínu viti töluvert víðtækar heimildir til að taka ákvarðanir sem beinast gegn einstaklingum og lögaðilum hér á landi. M.a. hefur eftirlitsnefndin heimild til að ákvarða sektir og févíti sem verða beint aðfararhæfar hér á landi. Þessar ákvarðanir og raunar margar fleiri verða ekki bornar undir íslenska dómstóla heldur einungis undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar eða þá EB-dómstólinn ef um svokölluð blönduð samkeppnismál er að ræða. Þetta felur með öðrum orðum í sér að ákveðinn hluti íslensks refsivalds er framseldur til þjóðréttarlegra stofnana, þ.e. vald sem nú er í höndum þar til bærra innlendra stofnana, þar á meðal stjórnvalda. Verður að leggja áherslu á að hér er um sjálfa ákvörðunartökuna að ræða sem lýtur beint að einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi á bindandi hátt og þeir aðilar geta ekki borið lögmæti ákvarðana undir íslensk stjórnvöld eða dómstóla. Þetta er í mínum huga aðalatriðið. Þar við bætist að þessar ákvarðanir verða beint aðfararhæfar hér á landi gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.
    En hvað felst nánar í þessu? Víkjum fyrst að því hvernig slíkar ákvarðanir eru nú teknar hér á landi og höldum okkur einungis við fésektir sem eru ein tegund refsinga eins og áður segir.
    Samkvæmt íslenskum rétti er heimild til að ákvarða mönnum að greiða fésektir í höndum dómstóla fyrst og fremst en einnig stjórnvalda á vissum sviðum, t.d. sýslumanna og lögreglustjóra. Ef við höldum okkur við stjórnsýsluna, þá er þess fyrst að geta að stjórnsýsluhafar inna störf sín af höndum að viðlagðri ábyrgð. Til þess að mega hafa hana með höndum verða þeir að fullnægja margvíslegum skilyrðum,

t.d. um menntun. Ákvarðanataka þeirra er samkvæmt íslenskum lögum bundin af ýmsum form- og efnisreglum. Gerist stjórnsýsluhafarnir sekir um brot í þessum efnum getur það bæði varðað þá ábyrgð, svo og hið opinbera. Aðgerðir þeirra geta enn fremur leitt til þess að ákvarðanir þeirra verði metnar ógildar. Til þess að staðreyna það höfum við ýmis réttaröryggistæki sem eru fólgin í því sem ég nefni stjórnsýslueftirlit. Það skiptir mestu máli að telji maður rétt á sér brotinn í stjórnsýslunni getur hann borið fram kvörtun við umboðsmann Alþingis. Hann getur leitað til æðra stjórnvalds og síðast en ekki síst getur hann borið mál sitt undir dómstóla. Með EES-samningnum hefur íslenskur þegn afsalað sér þessu öllu til stofnana EFTA og EB. Þetta skiptir verulegu máli við mat á álitaefninu því að stjórnarskráin er ekki eingöngu til þess að kveða á um stjórnskipun okkar heldur og ekki síður til þess að vernda réttindi þegnanna. Það eru mikilvæg réttindi þegna í sérhverju þjóðfélagi að þeir geti borið mál sitt undir stofnanir í eigin landi sem byggja úrlausnir sínar fyrst og fremst á réttarheimildum sem taldar eru gilda í landinu og eru í samræmi við þær réttarhugmyndir sem þjóðin hefur um sjálfa sig.
    Víkjum þá að þriðja atriðinu sem athuga verður í sambandi við valdaframsal yfirleitt, þ.e. hverjum valdið er framselt. Hér er um að ræða stofnanir sem komið er á fót með þjóðréttarsamningi. Þeim er ætlað að vera æðstu eftirlitsaðilar, sem starfsemi sem lýtur alveg sjálfstæðum lögum og reglum (réttarkerfi) settum af þessum stofnunum og eru því í raun nýtt fyrirbrigði í sögunni. Grunnur þeirra laga og reglna sem byggist á réttarhefð sem er okkur að ýmsu leyti framandi. Þar við bætist að EES og EB einkennir miðstýring, þ.e. framkvæmdarvaldið ræður þar mestu. Reglurnar varðandi EES eru alveg nýjar og ekkert hefur reynt á þær enn þá. Við erum því að framselja hluta ríkisvalds okkar til þjóðréttarlegs aðila sem engin reynsla er fengin af hvernig starfar. Þetta leiðir til þess að við mat á því hvort ákvæði EES-samningsins brjóti í bága við stjórnarskrá okkar verður að gefa sér forsendur sem framtíðin kann að leiða í ljós að ekki eru réttar af því að engin reynsla er af þeim fengin.
    Frú forseti. Niðurstöður prófessors Björns eru þessar:
    ,,Lögfræðilegt mat í þessum efnum er erfiðara fyrir þá sök að um er að ræða lögfestingu þjóðréttarsamnings en ekki venjulegs lagatexta. Það leiðir af eðli máls að ákvæði þjóðréttarsamninga byggjast að lokum á flóknu samkomulagi um orðalag og merkingu. Afleiðing þess verður að textinn er oft svo loðinn að erfiðara er að gefa honum nákvæma lögfræðilega merkingu en þegar um venjulegan lagatexta er að ræða. Þess vegna gerir t.d. fjórmenninganefndin margháttaða fyrirvara af sinni hálfu þrátt fyrir þá lokaniðurstöðu, sem hún lætur frá sér fara.
    Ef litið er á stjórnarskrárviljann einan, þ.e. það sem vakti fyrir Íslendingum þegar þeir settu sér stjórnarskrá, þykir mér alveg ljóst að hann teldi valdaframsalið samkvæmt EES-samningnum óheimilt. Því til stuðnings nægir að nefna þær aðstæður sem Íslendingar bjuggu við þegar stjórnarskráin var sett. Það hefur varla hvarflað að nokkrum Íslendingi þá að við mundum framselja ríkisvald til erlendra aðila eða þjóðréttarlegra stofnana.
    Þjóðréttarlegar stofnanir, eins og hér um ræðir, eru ekki stjórnvöld í skilningi 2. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt gildandi stjórnskipunarrétti. Mat á EES-samningnum og ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um framkvæmdarvaldið verður því ekki á því byggt.
    Stjórnsýsluhafar í landinu vinna verk sitt að viðlagðri ábyrgð á ákveðnum sviðum sem þeir ber bæði réttur og skylda til að rækja og mega ekki fela það öðrum. Í ráðuneytum viðgengst þó svonefnt innra framsal, þ.e. ráðherra felur öðrum starfsmönnum í ráðuneytinu framkvæmd valds síns. Sú ákvarðanataka er hins vegar ætíð á ábyrgð viðkomandi ráðherra, rétt eins og hann hefði staðið sjálfur að verki. Framsal framkvæmdarvalds samkvæmt stjórnsýslurétti til utanaðkomandi aðila, þegar lögbær aðili er til í landinu á því sviði, er mjög sjaldgæft hér innan lands. Óþekkt er að slíkt framsal eigi sér stað til útlanda.
    Fjórmenninganefnd utanríkisráðherra telur að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar sé valdaframsal heimilt á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum. Kemst hún að þeirri niðurstöðu að í þessu tilviki sé þeim skilyrðum fullnægt. En hvar á að draga mörkin? Hvenær er svið ekki svo nægilega vel afmarkað eða ekki nógu takmarkað til þess að um óleyfilegt valdaframsal sé að ræða? Mat í þessu efni tel ég svo vandasamt og afdrifaríkt að varhugavert sé að láta hinn almenna löggjafa um það.
    Með EES-samningnum er íslenskt refsivald framselt að hluta. Slíkt vald er svo mikilsvert að óverjandi er að það verði fengið öðrum en dómstólum og stjórnvöldum þeim, sem getur nú í stjórnarskránni, nema þá að breyta henni.
    Með því framsali ríkisvalds, sem hér er til umræðu, er ekki einasta þjóðréttarlegum stofnunum falið bindandi ákvörðunarvald á tilteknum sviðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi, heldur afsala sömu aðilar sér þeirri réttarvernd sem þeir njóta samkvæmt íslenskum lögum og m.a. er fólgin í því að mega bera athafnir stjórnvalda undir umboðsmann Alþingis, undir æðra stjórnvald og að lokum dómstóla.
    Hér er um að ræða hluta ríkisvalds sem framselt er í hendur fyrirbrigðis sem er nýtt á alþjóðavettvangi og engin reynsla er fengin af. Stjórnskipun þess byggir á réttarhugmyndum og réttarhefðum sem eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim forsendum sem stjórnskipan okkar byggist á.
    Að lokum er rétt að ítreka það sem nú hefur verið sagt um framsal framkvæmdarvalds á í veigamiklum atriðum við um framsal dómsvalds samkvæmt EES-samningnum.``
    Frú forseti. Þetta var úr álitsgerð Björns Þ. Guðmundssonar prófessors.

    Frú forseti. Þá vil ég fara nokkrum orðum um dómsvaldsframsal EES-samningsins. Í 2. gr. stjórnarskrár segir: ,,Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Að vísu er ekki tekið fram að hér sé átt við alíslenska dómendur og hefur fjórmenningum utanríkisráðherrans láðst að tína til þá röksemd í málsvörninni. Ég gef mér samt sem áður að stjórnarskráin eigi við alíslenska dómendur og vona að ekki sé ágreiningur um það.
    59. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo: ,,Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.``
    Í 60. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.``
    Í 61. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.``
    E.t.v. er hvergi gengið lengra í samningnum gegn stjórnarskránni. Fjórmenningar utanríkisráðherrans leggja meira að segja ekki í að loka augunum fullkomlega fyrir því.
    Ég mun nú, frú forseti, vitna aftur til hinna skilmerkilegu álitsgerða sem liggja fyrir utanrmn., fyrst til álitsgerðar dr. Guðmundar Alfreðssonar, þjóðréttarfræðings:
    Snúum okkur nú að dómsvaldinu. Það er í rökréttu framhaldi af umfjöllun okkar um eftirlitsstofnun EFTA þar sem ákvörðun hennar má skjóta til EFTA-dómstólsins.
    Um EFTA-dómstólinn er ákvæði í greinum 108 og 110 EES-samningsins, svo og í samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Þar kemur skýrt fram, að dómsvald dómstólsins yrði mjög víðtækt um eftirlitið með framkvæmd EES-samningsins og það gæti á ýmsan hátt haft bæði bein og óbein áhrif að landsrétti, t.d. varðandi ríkisstyrki og opinber innkaup. Á sviði samkeppnisreglna eru dómarnir endanlegir, þeir eru aðfararhæfir að landsrétti og þá má ekki bera efnislega undir innlenda dómstóla.
    ,,EFTA-dómstóllinn er hugsaður sem sjálfstæð stofnun og íslenskur dómari, sem þar mundi sitja, yrði óháður íslenskri dómaskipan. Íslenskir aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, sem teldu sig hafa verið órétti beitta af eftirlitsstofnuninni, yrðu þá að sækja sín mál fyrir þessum yfirþjóðlega dómstól, sem mun væntanlega sitja í Genf, eða til Luxemborgar í þeim tilfellum, sem EB-dómstóllinn hefði dómssögu. Landinn gæti ekki leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum í málum, sem myndu falla undir þessa alþjóðlegu dómstóla.``
    Það er ólíklegt að 34. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA stangist á við stjórnarskrána þar sem forúrskurðir EFTA-dómstólsins yrðu í formi álitsgerðar en ekki bindandi dóms. Bókun 34 með EES-samningnum hlýtur hins vegar að valda verulegum vandkvæðum. Þar er heimilað einfaldlega að útgefinni tilkynningu EFTA-ríkis, að dómstólar í EFTA-ríkjunum láti EB-dómstólinn kveða upp forúrskurði með bindandi skýringum á EES-samningnum. Svona samningsákvæði eru greinilega ekki marktæk að óbreyttri stjórnarskrá.
    Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er sagt að dómendur fari með dómsvaldið.
    Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og hér undirstrikar dr. Guðmundur orðið ,,öllum``. Þetta mundu þeir ekki geta gert að því marki sem framkvæmdarvaldið hefur verið framselt til eftirlitsstofnunar EFTA og dómsvald til EFTA-dómstólsins. Það er enn og aftur enginn vafi á því að stjórnarskráin á hér við íslenska dómendur og íslenska dómstóla. Þetta er stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og 2. gr. um þrískiptingu innlends valds er í beinu framhaldi af 1. gr. um þingbundna stjórn.
    Til viðbótar má benda á 61. gr. um sjálfstæði dómara sem gerir greinilega ráð fyrir innlendri málsmeðferð. Stjórnarskráin geymir enga heimild til framsals á dómsvaldi út úr landinu, þ.e. til dómstóla, sem gætu kveðið upp bindandi dóma sem kæmu beint til fullnustu að landsrétti og verður að telja slíkt óheimilt að óbreyttri stjórnarskrá.
    Varðandi framkvæmdarvalds- og dómstólaþættina hefur verið bent á að það megi hugsanlega bera saman vald eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA við þær viðurkenningar á aðfararhæfi erlendra stjórnsýsluathafna og erlendra dóma sem við höfum gengist undir samkvæmt fáeinum alþjóðasamningum og þá aðallega Norðurlandasamningum. Nánari athugun leiðir þó í ljós að þarna er tvennt ólíkt á ferðinni. Útlendir dómstólar fá samkvæmt síðastnefnda samningnum aldrei dómssögu yfir íslenskum einstaklingum eða fyrirtækjum nema þeir hafi sjálfir með gerðum sínum komist undir vald erlendrar dómssögu. Á EES-svæðinu getur hins vegar EFTA-dómstóllinn fengið lögsögu án þess að hinir sömu aðilar hafi aðhafst nokkuð til að kalla hann yfir sig. Ég verð þess vegna að telja að þessi samanburður eigi ekki rétt á sér.
    Það er ekki heldur rétt að bera stofnanir á EES-svæðinu saman við núgildandi EFTA-samning eða Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg.
    Ólafur Jóhannesson skrifar í bók sinni, Stjórnskipun Íslands, að það sé meginregla íslensks réttar að þjóðréttarreglur teljist ekki til landslaga, það beri að túlka lög til samræmis við þjóðarétt eins og frekast er unnt, en þjóðaréttur víkur fyrir landsréttinum ef til áreksturs kemur. Við búum sem sagt við tvö réttarkerfi, landsrétt og þjóðarétt. Það er því sitt hvað þjóðréttarskuldbindingar og landslög. Ríkið getur orðið brotlegt að þjóðarétti gagnvart öðrum ríkjum, en slíkar skuldbindingar fá ekki gildi innan lands gagnvart þegnunum fyrr en um þær hefur verið fjallað af til þess bærum innlendum aðilum. Hæstiréttur hefur margsinnis staðfest þessa meginreglu. Þetta eru reglurnar sem gilda enn um samskipti okkar við EFTA og

Evrópuráðið.
    Nú er því haldið fram í framhaldi af dómi frá 1990 þar sem Hæstiréttur tók af skarið um aðskilnað framkvæmdar- og dómsvalds og vitnaði til Mannréttindasamnings Evrópuráðs að þessi meginregla hafi kannski breyst. Ég tel að svo sé ekki enda höfðu verið sett lög um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds áður en Hæstiréttur kvað upp dóm sinn og þessi lög eru nefnd meðal dómsforsendna.
    Ég hef fulla samúð með þeirri skoðun Ragnars Aðalsteinssonar í tímariti lögfræðinga, 1. hefti 40. árg. í júní 1990, að mannréttindasamningar skulu innleiðast í landslög og það er hægt að gera eins og málin standa í dag. En eins og málin standa í dag gera hvorki íslensk stjórnskipun né þjóðarétturinn greinarmun á mannréttindasamningum og öðrum milliríkjasamningum í þessu samhengi.
    Ég hallast frekar að niðurstöðu Jóns Steinars Gunnlaugssonar í tímariti lögfræðinga, 4. hefti 41. árg. í des. 1991, þess efnis að engin varanleg breyting hafi orðið á íslenskum rétti varðandi réttarheimildirnar í framhaldi af nefndum dómi Hæstaréttar. Jón Steinar tiltekur yngri dóm Hæstaréttar þar sem tekið er af skarið um þessa niðurstöðu. Það er einnig athyglisvert að enginn hefur stungið upp á því að dómar Mannréttindadómstólsins fengju sjálfkrafa gildi af landsrétti. Enn sem áður þurfa Alþingi og forseti eða þá Hæstiréttur að taka af skarið.
    Og þetta segir dr. Guðmundur Alfreðsson.
    Síðan vil ég, herra forseti, vitna til greinargerðar Björns Þ. Guðmundssonar, prófessors í stjórnsýslurétti.
    ,,Varðandi dómsvaldið sérstaklega verður því hér aðeins vikið að tveimur atriðum.
    Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt hjá fjórmenninganefndinni að túlka megi EES-samninginn þannig að dómar EB-dómstólsins séu einungis leiðbeinandi en ekki bindandi fyrir dómstóla og stjórnvöld hér á landi. Þrátt fyrir þá takmörkun sem gerð er í samningnum, þ.e. að dómarnir skipti máli og séu efnislega samhljóða, tel ég miklu líklegra að reynslan muni leiða í ljós að líta beri svo á að hér sé um bindandi fordæmi að ræða, enda segir skýrum stöfum að það beri að fara eftir þeim þegar svo stendur á sem í EES- og ESE-samningunum segir. Þessa skoðun byggi ég ekki síst á víðtækri túlkun EB-dómstólsins sjálfs á hlutverki sínu og valdsviði.
    Hitt atriðið sem ég vil vekja athygli á,`` segir Björn Þ. Guðmundsson prófessor, ,,varðar 60. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Um þetta segir fjórmenninganefndin einungis: ,,Þessi regla varðar valdskiptinguna milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins en ekki lögverkanir þjóðréttarsamninga. Ef það sem segir í 2. gr. stjórnarskrárinnar heimilar gerð þeirra samninga, sem hér er fjallað um, hefur ákvæði í 60. gr. ekki sjálfstæða þýðingu með þeim hætti, að það geti leitt til annarrar niðurstöðu.``
    Það er rétt, sem hér segir, að ákvæðið hefur ekki sjálfstæða þýðingu varðandi þá spurningu hvort nú megi lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá, en þar með er ekki öll sagan sögð. Það er að mínu viti villandi að segja einungis að 60. gr. varði valdskiptinguna milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins.
    Það sem ég nefni dómstólaeftirlit nær til þess aðhalds sem fólgið er í úrskurðarvaldi dómstóla annars vegar um stjórnskipulegt gildi laga og hins vegar um lögmæti stjórnsýslu. Þegar sagt er að dómstólar eigi úrskurðarvald um stjórnskipulegt gildi laga er átt við þá grundvallarreglu íslensks réttar að dómstólar skeri úr um það hvort lög séu í samræmi við stjórnarskrána og að ekki skuli farið eftir þeim lögum sem að efni til eru andstæð henni. Það er einnig meginregla í íslenskum rétti að dómstólar eigi úrlausn um allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda nema þær séu sérstaklega teknar undan dómsvaldi þeirra, annaðhvort samkvæmt settum lögum eða eðli máls, sbr. 2. gr. og 60. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessari meginreglu felst að dómstólar eiga úrskurðarvald um það hvort stjórnvöld hafi verið bær eða hæf til þess að taka ákvörðun og hvort þau hafi gætt réttra lagareglna við meðferð máls, hvort heldur um er að ræða ákvarðanir almenns eðlis, eins og t.d. setningu reglugerða, eða ákvarðanir í einstöku máli. Almennt er þó viðurkennt að framangreind meginregla um úrskurðarvald dómstóla geti sætt takmörkunum. Réttarþróunin hefur hins vegar verið sú að dómstólar telja sig bæra til þess að dæma um athafnir framkvæmdarvaldshafa í mjög ríkum mæli.
    Túlkun 60. gr. stjórnarskrárinnar er mikilsvert og vandasamt fræðilegt úrlausnarefni. Bæði ég og fjórmenninganefndin hafa komist að þeirri niðurstöðu að með EES-samningnum sé dómsvald framselt að hluta til dómstóla EFTA og EB. Þegar af þeirri ástæðu hefði verið nauðsynlegt að víkja nánar að inntaki 60. gr. stjórnarskrárinnar vegna hinna bindandi réttaráhrifa ákvarðana þessara dómstóla.
    Varðandi þessi síðastnefndu álitaefni ber að leggja áherslu á að rannsóknum mínum á þeim er hvergi nærri lokið fremur en á hugsanlegu framsali íslensks löggjafarvalds með lögfestingu EES-samningsins.``
    Heildarniðurstaða Björns prófessors er þessi:
    ,,Á grundvelli viðurkenndra lögskýringaraðferða stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar tel ég vafa leika á að framsal það á framkvæmdar- og dómsvaldi sem felst í EES-samningnum og hér um ræðir, standist gagnvart gildandi réttarreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þennan vafa tel ég svo mikinn að ekki megi taka áhættuna af því að lögfesta EES-samninginn að óbreyttri stjórnarskrá.
    Hér lýkur tilvitnun í greinargerð Björns Þ. Guðmundssonar prófessors.

    Mig langar til að nefna atriði til viðbótar. Dómendur skulu skv. 61. gr. í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögum.
    Í 103. gr. EES-samnings segir svo: ,, . . .  skal ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda til bráðabirgða meðan stjórnskipulegum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt, . . . ``
    Sannarlega hafa íslenskir dómendur eftir lögfestingu EES-samnings í mörg horn að líta. Þeir verða ekki einungis að dæma eftir íslenskum lögum, heldur fá ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar gildi til bráðabirgða. Þá verða þeir að dæma í samræmi við dóma EB-dómstólsins sem ekki verða einu sinni aðgengilegir á íslensku máli. Þá er réttaröryggi Íslendinga skert og þeir eiga á hættu að verða dæmdir af erlendum mönnum fyrir athafnir hér á landi og eru dómar útlendinganna aðfararhæfir á Íslandi. Það er með engu móti hægt að fallast á að þetta samrýmist stjórnarskránni.
    Mig langar enn fremur til að nefna 69. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
    ,,Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þarf lagabót til.``
    Vel kann til þess að koma að framkvæmd EES-samningsins höggvi nærri þessari grein.
    67. gr. stjórnarskrárinnar kemur einnig til álita sem óbein afleiðing af þessari samningagerð. 67. gr. hljóðar svo:
    ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; Þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.``
    Eitt af frv. ríkisstjórnarinnar í kjölfar þessarar samningagerðar er þess efnis að þjóðnýta auðlindir í jörðu neðan 100 m, þar með talin jarðefni, málmar, olía, vatn og jarðhiti. Fram að þessu hefur jarðhiti og vatn tvímælalaust fylgt jarðareign, sbr. t.d. lög frá 1940 og vatnalögin frá 1923, svo og nokkra hæstaréttardóma, svo sem umdeildan Tunguhver á Svartsengi.
    Ekki er gert ráð fyrir því í frv. ríkisstjórnar að gjald komi fyrir, heldur er hér um hreina eignaupptöku að ræða. Rökin fyrir því að þetta sé nauðsynlegt eru þau að með þjóðnýtingu séu auðlindirnar fremur áfram í eigu Íslendinga en ef þær væru áfram í einkaeign eftir að aðrir íbúar EES-svæðisins fá heimild til þess að eignast hér lendur og auðlindir.
    Ég vísa til ótal yfirlýsinga utanríkisráðherra um þetta efni bæði innan þings og utan.
    Sennilega er óhjákvæmilegt að samþykkja frv. ef EES-samningurinn verður lögfestur. Það yrði þá fórnarkostnaður landeigenda, einstaklinga og sveitarfélaga og aðgangseyrir þeirra að Evrópsku efnahagssvæði. 67. gr. stjórnarskrár veitir þá ekki lengur vernd eignarréttarins eins og hún hefur gert.
    Ég minni á að undanfarna daga hefur bóndi uppi í Kjós verið að bora eftir heitu vatni. Hann er kominn 800 m ofan í jörðina og búinn að fá þar flóandi heitt vatn. Þennan rétt hefði hann ekki ef frv. hefði orðið að lögum.
    Herra forseti. Eins og ég hef að framan rakið er í mínum huga enginn efi á að stjórnarskrárbreytingar er þörf eigi EES-samningurinn að taka gildi og ég er ekki einn um þá skoðun. Eins og ég hef rakið hafa ýmsir af færustu lögfræðingum þjóðarinnar látið opinberlega svipaða skoðun í ljósi. Ég hef vitnað í alllöngu máli, sem ég taldi nauðsynlegt, til þjóðréttarfræðingsins dr. Guðmundar Alferðssonar og prófessorsins í stjórnsýslurétti, Björns Þ. Guðmundssonar. Ég nefni formann Lögmannafélags Íslands, Ragnar Aðalsteinsson, Eirík Tómasson, hæstaréttarlögmann og háskólakennara, og marga aðra.
    Norska stjórnarskráin er mjög lík þeirri íslensku og þar í landi er ekki ágreiningur um að í samningnum felist framsal á valdi. Þar verður því að reyna á sérnorskt stjórnarskrárákvæði um meðferð mála sem felur í sér framsal á valdi til alþjóðlegra stofnana. Í íslensku stjórnarskránni er ekki hiðstætt ákvæði. Hins vegar mælir 79. gr. stjórnarskrár okkar fyrir um stjórnarskrárbreytingar, samþykkt frv., kosningar og samþykkt á óbreyttu frv. á nýju þingi. Þá leið er óhjákvæmilegt að fara nú vilji menn virða stjórnarskrána og gera gildan þjóðréttarsamning.
    Þess bera að geta að við alþingismenn unnum drengskaparheit að því að halda stjórnarskrána þegar við tókum sæti á Alþingi. Fyrir þessu er mælt í 47. gr. stjórnarskrárinnar. Ég trúi því ekki að óreyndu að meiri hluti þingmanna vilji ekki virða drengskaparheit sitt og standa að stjórnarskrárbreytingu. Stjórnarandstaðan vonast eftir samkomulagi við stjórnarflokkana um að slík stjórnarskrárbreyting fari fram. Við höfum flutt frv. til stjórnlagabreytingar og það frv., ef að stjórnlögum verður, mun heimila framsal valds og gerð slíkra samninga sem hér er verið að gera. Hitt er þó mikilvægara að í framtíðinni yrði fenginn lögmætur farvegur fyrir lögfestingu samninga sem fela í sér framsal á valdi enda sé fyrir því aukinn meiri hluti á Alþingi. Það kæmi í veg fyrir að óprúttnir stjórnarherrar í framtíðinni freistuðust til stjórnarskrárbrota sem styddust við einfaldan þingmeirihluta.
    Ég trúi því ekki að óreyndu að stjórnarflokkarnir fallist ekki á þessi rök okkar en standi að þeirri stjórnarskrárbreytingu enda eiga þeir mest undir því að gera gildan samning þar sem þeir sem stjórnarflokkar bera höfuðábyrgð á málinu.
    Það sjónarmið hefur heyrst frá áköfustu fylgismönnum EES-samningsins að forseti geti með vísan til samþykkis einfalds meiri hluta Alþingis skrifað undir lög um EES-samning. Ég er ekki á sama máli. 2. gr. stjórnarskrár er svo fortakslaus að ekki kemur til greina að Alþingi geti samþykkt að hundsa hana og forseti lýðveldisins geti með 21. gr. skert ákvæði 2. gr. Þá er þess að geta að forseti lýðveldisins hefur skyldur skv. 10. gr. stjórnarskrár en hún hljóðar svo:
    ,,Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.``
    Núverandi forseti vann þetta drengskaparheit síðast 1. ágúst sl. Það er rétt að geta einnig 26. gr. stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo:
    ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``
    EES-málið er þannig í eðli sínu að sjálfsagt er að gefa þjóðinni tækifæri til að taka afstöðu til þess. Þetta er afdrifaríkasta ákvörðun sem tekin hefur verið frá stofnun lýðveldisins og stjórnarandstaðan hefur flutt tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Þjóðaratkvæðagreiðsla, sem bæri að með slíkum hætti, yrði að sjálfsögðu aðeins ráðgefandi og óháð nauðsynlegri stjórnarskrárbreytingu en mikilvæg leiðbeining fyrir Alþingi eigi að síður. Þá hefur stjórnarandstaðan einnig flutt frv. til breytingar á stjórnarskránni til að móta farveg, ef samþykkt yrði, fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur í framtíðinni.
    Í framsöguræðu sinni fyrir EES-frumvarpinu á fimmtudaginn var fjallaði hæstv. utanrrh. með dæmalausum hætti um hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann taldi efnislega --- hvar er hæstv. utanrrh.? Nú fer ég að sakna hans. Vill ekki herra forseti sjá til þess að hæstv. utanrrh. komi í salinn. (Gripið fram í.) Það verður að hafa það. Hann verður að láta það yfir sig ganga. ( Forseti: Forseti er að gera ráðstafanir til þess að utanrrh. komi í salinn.) Herra forseti. Ég veit að vísu að það er kominn mikill ferðahugur í hæstv. utanrrh. Hann ætlar til Spitzbergen en ég hélt að hann ætlaði ekki að fara fyrr en í fyrramálið og vona að hann sé ekki farinn þangað. --- Ég býð hæstv. utanrrh. velkominn í salinn. Í framsöguræðu sinni fyrir EES-frumvarpinu á fimmtudaginn var fjallaði hæstv. utanrrh. með dæmalausum hætti um hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslu. Efnislega taldi hann þjóðina of vitlausa til að unnt væri að bera þetta EES-mál undir hana. Og það sem meira var, hæstv. forsrh. tók í sama streng í sjónvarpsviðtali í gær. Hann beitti einnig gamalkunnum útúrsnúningum og aulafyndni eins og honum er tamt þegar hann hefur ekkert bitastætt til mála að leggja og engin rök fyrir afstöðu sinni. Þeim félögum er auðvitað nokkur vorkunn að vantreysta þjóðinni. Hún gerði þeim á grundvelli úrslita síðustu kosninga kleift að komast í valdastóla. Þeir blekktu að vísu þjóðina og sögðust ætla að gera annað en þeir gerðu að kosningum loknum. Þess vegna er það rangt hjá þeim að halda því fram að íslenska þjóðin sé eitthvert samsafn af aulum sem ekki geta tekið afstöðu til mála þrátt fyrir það að í síðustu kosningum hafi þjóðinni orðið á mikil og dýrkeypt mistök.
    Framsöguræða hæstv. utanrrh. fyrir þessu máli væri efni í langa gagnrýni en ég ætla nú að geyma mér hana að mestu til síðari tíma en aðeins bera til baka örfáar af missögnum hæstv. ráðherra. Einn fyrirvarinn sem þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson setti fyrir hönd Íslands í Ósló vorið 1989 var svohljóðandi:
    ,,Við getum aldrei gefið okkur á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við getum aldrei afsalað okkur fullveldinu eða rétti til þess að taka eigin nauðsynlegar ákvarðanir til að tryggja afkomu okkar og sjálfstæði.``
    Hæstv. utanrrh. leyfði sér í ræðu sinni að telja að þessi fyrirvari hefði verið uppfylltur. Þetta tel ég mikla kokhreysti hjá honum og því fari fjarri að þessi fyrirvari sé uppfylltur. Hæstv. utanrrh. vitnaði til þess í ræðu sinni að í skýrslu sinni til Alþingis í mars 1991 hafi hann talið, eins og hann sagði, að hugmyndir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.
    Hæstv. utanrrh. telur sem sagt að vegna þess að samráðherrar hans gerðu ekki athugasemdir væru þeir samþykkir þessu. Þetta gæti nú verið misskilningur. Skýrsla utanrrh. er skýrsla hans en ekki skýrsla ríkisstjórnarinnar, ekki skýrsla ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Þótt enginn hafi mótmælt gerir það ekki niðurstöður ráðherrans réttari. Ósannindi verða ekki sannleikur þó að enginn beri þau til baka.
    Hæstv. utanrrh., og það þótti mér skemmtilegt hjá honum, vitnaði til skrumauglýsingar sem hann hafði sjálfur keypt auglýsingastofuna Athygli til að sjóða saman upp úr ræðum sínum. Þar taldi hann sig aldeilis hafa sannleiksvitnið í þeim starfsmanni auglýsingastofunnar sem textann sauð á aðgengilegt alþýðumál. Utanrrh. hefði alveg eins getað vitnað í sjálfan sig í þessu tilfelli. Þetta leiðir hins vegar hugann að því hvernig málflutningur utanrrn. í þessu máli hefur verið. Auglýsingastofur eru keyptar til að setja saman skrumauglýsingar og skrumbæklinga og þetta er kallað kynning á EES-málinu. Ég mun spyrja að því síðar hver kostnaður hafi hlotist af þessari kynningarstarfsemi en sjálfsagt á eftir að bætast við svo það er ekki tímabært að gera það strax.
    Herra forseti. Ég hef rætt í nokkuð löngu máli um stjórnarskrárþátt málsins og ræðu hæstv. utanrrh., framsögu fyrir frv. Mig langar til að fara örfáum orðum um þennan samning efnislega. Utanrmn. hefur á þessu ári og þó sérstaklega í sumar lagt mikla vinnu í að kanna efni EES-samningsins og þó mikil vinna sé eftir í utanrmn. áður en málið er fullkannað eru margir þættir þess orðnir sæmilega ljósir. Ég hef, herra forseti, reynt að nálgast þetta mál með opnum huga sem trúnaðarmaður flokks míns. Ég vil varast óraunhæfa bjartsýni en jafnframt varast alla fordóma. Ég vil lýsa þeim hagsbótum sem á grundvelli þessa samnings er raunhæft að vænta en jafnframt gera mér grein fyrir þeim göllum sem á samningnum eru og öfugt við talsmenn ríkisstjórnarinnar mun ég ekki þegja yfir göllunum og tíunda bara kostina. Ég

mun tíunda hvort tveggja.
    Það sem hér fer á eftir er frásögn af því, á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafa komið í utanrmn., hvernig ég tel að þjóðfélag okkar breytist ef við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég byrja á sjávarútveginum.
    Kynning af hendi ríkisstjórnarinnar á þessu máli öllu er mjög ámælisverð, eins og ég hef áður sagt, og hæstv. utanrrh. hefur verið látinn göslast áfram með málið. Hann hefur talað um kosti þessa samnings fögrum orðum og yfirdrifið í mörgum tilfellum stórlega þær hagsbætur sem í samningnum felast en hann hefur þagað vandlega yfir annmörkum samningsins og a.m.k. í einu tilfelli beinlínis sagt rangt frá. Þar á ég við langhalamálið í tvíhliða veiðisamningi um gagnkvæmar veiðiheimildir. Utanrrh. talaði um langhala löngu eftir að ljóst var að Evrópubandalagið sætti sig ekki við neitt nema karfa. Þeir voru ekki til viðtals um langhala en samt hélt hæstv. utanrrh. áfram að láta sem svo að langhali væri inni í þessu dæmi.
    Langhalamálið varð til þess að samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi dró til baka stuðningsyfirlýsingu sína með samninginn. Það voru augljós sárindi hæstv. ráðherra í ræðu sinni í gær eftir þá rassskellingu. Hann er því ekki gróinn. Þessi fiskveiðisamningur hefur ekki enn þá verið gerður og þó er hann eitt af grundvallaratriðum sem verða að liggja fyrir áður en frv. kemur til atkvæða.
    Varðandi þennan fiskveiðisamning sérstaklega, þá er það mikið vafaatriði hvort rétt sé að hverfa frá þeirri grundvallarstefnu, sem Íslendingar hafa haft til margra ára í samskiptum við Evrópubandalagið, að láta ekki veiðiheimildir í staðinn fyrir tollaívilnanir. Það er ómótmælanlega gert með þessum tvíhliða samningi. Margupplýst er að fiskveiðisamningurinn er gerður að kröfu EB og var algert skilyrði fyrir myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Þrjú þúsund tonn af karfa, sem Evrópubandalaginu er ætluð í fyrstu lotu, væri búsílag fyrir okkur Íslendinga í þeim þrenginum sem skapast vegna skerðingar á heimilaðri veiði á Íslandsmiðum. Andvirði 3.000 tonna karfaafla verður líka að reikna með mínus-megin þegar hagsmunir sjávarútvegsins af samningnum eru reiknaðir til fjár. Loðnuafla þann sem menn hafa verið að tala um mundum við Íslendingar í flestum tilfellum geta fengið án nokkurs leyfis frá EB. Og ef menn á annað borð vilja hleypa veiðiflota Evrópubandalagsins inn á Íslandsmið, sem ég tel í sjálfu sér mjög varhugavert, jafnvel þótt nokkrar tollaívilnanir komi á móti, þá tel ég afstöðu hæstv. sjútvrh. vera hyggilega að halda til streitu að fyrst veiði Íslendingar loðnuna áður en EB-flotanum er sleppt lausum í karfann.
    Það hefur raunar legið fyrir alla tíð síðan 1972 að við gætum fengið felldan niður tollinn á saltfisknum ef við hleyptum flota EB inn í landhelgina. Við erum svo sem ekki búnir að bíta úr nálinni með fiskveiðiflota Evrópubandalagsins á Íslandsmiðum. Endurskoðunarákvæði fiskveiðisamningsins bjóða upp á síauknar kröfur frá Evrópubandalaginu um veiðiheimildir. Fiskimenn Evrópubandalagsins hafa þar að auki getið sér afleitt orð hvar sem þeir hafa farið, hvort sem það er við Nýfundnaland eða annars staðar. Þeir eru kunnir að svindli og rányrkju.
    Varðandi þær tollaívilnanir, sem í samningnum felast, þá eru þær líka sýnd veiði en ekki gefin. Við ráðum ekki fiskverði á meginlandinu. Hér er ekki um að ræða fríverslun með fisk eins og við vildum upphaflega fá. EB-ríkin geta stórspillt samkeppnisstöðu okkar með styrkjum til eigin útgerða eða niðurgreiðslum og þess vegna er það fjarstæða að vera að reikna saman hve mikið tollaívilnanirnar mundu gefa okkur og leggja til grundvallar fortíðina og búast við að tollalækkunin skili sér öll í hækkuðu fiskverði. Það er þar að auki langsennilegast að útflutningur á óunnum fiski eða lítt unnum vaxi með auknu frjálsræði innan Evrópsks efnahagssvæðis. Það eru algerlega óraunhæfir draumórar að störfum í fiskiðnaði hér fjölgi og afkoma fiskibæjanna batni í kjölfar EES-samnings. Störfum hér fækkar vafalítið í fiskiðnaði og þá er sennilegt að okkur haldist ekki uppi sú útflutningsstýring sem við höfum ástundað undanfarið því að hún raskar auðvitað samkeppnisstöðu og frelsi á markaðnum.
    Það er mjög mikilvægt að í samningnum er viðurkennt að við megum halda áfram gildandi lögum um eignarhald Íslendinga á útgerð og frumfiskvinnslu. Það eru hins vegar slæm tíðindi þegar nú upp á síðkastið hafa heyrst raddir um að við ættum að slaka á þessum íslensku lögum. Þetta er meira að segja komið inn í ríkisstjórnina. Fjármálaráðherra er farinn að láta þá skoðun í ljósi. Hvað varðar fullvinnslu afla hér á landi, þá lendir hann að einhverju leyti í höndum útlendinga innan skamms ef við getum sætt okkur við að skaffa ódýrara vinnuafl en fæst á meginlandinu og betri starfsskilyrði fyrir fyrirtæki þeirra. Ég læt máli mínu um sjávarútveg lokið í bili.
    Hvað landbúnaðinn varðar þá tel ég að þar hafi tekist mjög slysalega til því að með þessari samningsgerð er opnað fyrir talsverðan innflutning búvara hingað til lands sem fram að þessu hafa verið framleiddar hér.
    Undantekningarákvæðið við bókun 3, 5. gr. er mér þyrnir í augum sérstaklega. Þar er kveðið á um að jöfnunargjöld við innflutningi til landsins skuli aldrei vera hærri en þau voru 1991 en þá voru þau hverfandi lítil. Ísland er sem sagt galopið fyrir innflutningi mjólkurvara sem gæti numið 15--20% af neyslu landsmanna. Utanrrn. hefur vissulega gagnstæðan skilning á þessu ákvæði. En það er líka gagnstæður skilningur við a.m.k. sum Evrópubandalagsríkin. Ég vil vitna til umræðna á Alþingi 16. maí sl. Þar upplýsti hæstv. iðnrh. að þetta mál yrði útkljáð á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar. Bændur mega bíða í óvissu þangað til.
    Það var upplýst, og það finnst mér meginatriðið, að umrætt ákvæði var sett inn í samninginn eða bókunina að kröfu Evrópubandalagsins 4. des. sl. Úr því að ákvæðið var sett inn að kröfu Evrópubandalagsins þá verður að álíta að Evrópubandalagið hyggist notfæra sér það. Það á samkvæmt 19. gr. EES-samningsins að standa í samningaþófi um landbúnaðarþáttinn á tveggja ára fresti og eins og þar segir: ,,Samningsaðilar skuldbinda sig . . .  til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum við landbúnaðarafurðir.``
    Þá er þess að geta að 5. gr. í bókun 3 er rangt þýdd á íslensku í þeim textum sem við höfum verið að vinna með. Enski textinn á þessari grein er miklu óþægilegri og vonandi gildir ekki það sama um aðra hluta íslensku þýðingarinnar á samningnum. Að vísu fann dr. Guðmundur Alfreðsson því miður ranga þýðingu annars staðar í samningnum eins og hann getur um í greinargerð sinni til utanrmn.
    Varðandi þennan landbúnaðarþátt verður einnig að geta vandaðrar álitsgerðar sem unnin var að tilhlutan dóms- og kirkjumrh. og landbrh. um EES-samninginn og fasteignir á Íslandi. Þar segir að löggjöf okkar verði að vera með þeim hætti að veita útlendingum beinan og jafnan rétt á við landsmenn til að eiga fasteignir hér, þar með taldar jarðir, laxveiðiár, hlunnindi, auðlindir o.s.frv. Sumir hafa trúað því að unnt sé að setja upp girðingar sem hald er í. En það virðist ekki vera skoðun þessara álitsgefenda, því miður. Þeir benda þó á að hugsanlega megi binda eignarrétt við búsetu og nýtingu enda gangi þá það sama yfir Íslendinga og útlendinga. Þá telja þeir að fjárfestingarlögunum verði að breyta vegna EES og afnema takmörkun sem nú er í gildi á rétti útlendinga til að eignast virkjunarrétt vatnsfalla og jarðhita hér á landi.
    Ég tel að hér sé um mjög mikinn galla á samningnum að ræða. Þetta er ekki sambærilegt við eignarhaldið í útgerð og frumfiskvinnslu vegna þess að í samningnum er sérstaklega tekið fram að núverandi lög, þegar sett lög Íslendinga, um það efni megi standa áfram. Þetta er því ekki sambærilegt við þann forgang sem við Íslendingar höfum samningsbundinn og bókfestan um eignarhald á útgerð og frumfiskvinnslu.
    Ég trúi því ekki að ekki hefði verið hægt að halda betur á hagsmunum Íslendinga ef vilji hefði verið fyrir hendi. Það hefur raunar verið sinnt smærra viðviki og ómerkilegra en þessu. Það var sett inn undantekningarákvæði til þess að vernda einokun Húsatrygginga Reykjavíkur í tryggingafrelsinu. En því miður, héðan af verður ekki stafkrók breytt í þessum samningi og það er ekki sýnilegur vilji hjá ríkisstjórninni til að vernda forgang Íslendinga að eigin landi. Einu sinni æddi hæstv. utanrrh. um landið, fór á hundrað fundi og spurði: Hverjir eiga Ísland? Hið rétta svar þá var náttúrlega Íslendingar. En það verður ekki fullgilt í framtíðinni ef EES-samningurinn öðlast gildi hér.
    Herra forseti. Ég ætla að láta tali mínu um landbúnaðarþáttinn lokið í bili og víkja að iðnaðinum.
    Þeir talsmenn iðnaðarins sem komið hafa til fundar við utanrmn. hafa yfirleitt verið hlynntir stofnun Evrópsks efnahagssvæðis. Þeir telja sig sjá möguleika opnast í kjölfar þess. Hins vegar er rétt að hafa það í huga að iðnaðurinn hefur í tvo áratugi búið við tollfrelsi svo þessi samningur breytir út af fyrir sig litlu að því leyti. Það er rétt að geta þess að talsmenn iðnaðarins hafa þó þann fyrirvara á stuðningnum að ríkisvaldið verði að létta af sköttum og bæta starfsskilyrði iðnaðarins. Ég tel að væntingar þeirra séu ekki raunhæfar og á ekki von á því að ríkisvaldið treysti sér til að fullnægja öllum kröfum þeirra. Það er rétt að hafa í huga, eins og komið hefur fram hér í umræðunum, reynsluna af EFTA. Við inngöngu okkar í EFTA var hér talsvert blómlegur iðnaður, t.d. fata- og húsgagnaiðnaður. Þá voru talsmenn iðnaðarins mjög bjartsýnir á að aukið frelsi mundi efla íslenskan iðnað. Það þekkja allir þá raunasögu. Helstu iðngreinar hafa ekki staðist samkeppni frelsisins og eru nú rústir einar.
    Á hinn bóginn fær íslenskur iðnaður sennilega í einhverjum mæli ódýrt erlent vinnuafl sem kann að verða honum til hagsbóta en jafnframt missa Íslendingar auðvitað störf í iðnaði. Það má búast við að iðnaðarmenn flytjist hingað í einhverjum mæli og hefji hér starfsemi. Það kann að koma neytendum vel, ef þeir verða ekki dýrseldir, en ekki þeim sem missa störfin til þeirra.
    Hvað verslunina varðar þá eru líkur á að við myndun Evrópsks efnahagssvæðis komi útlendingar til með að yfirtaka einhvern hluta verslunar hér. Þess er skemmst að minnast þegar Hagkaup yfirtók Bónus á dögunum. Þá skýrði Jóhannes, forstjóri Bónus, frá því að sér hefði borist tilboð í fyrirtæki sitt frá verslunarkeðjum í Danmörku og Þýskalandi. Hann vildi heldur láta Hagkaup yfirtaka fyrirtæki sitt, væntanlega af þjóðhollustu. Vafalaust mundi þátttaka útlendrar verslunarkeðju lækka hér vöruverð í bili og það væri neytendum til tímabundinna hagsbóta. Á hitt ber að líta að við höfum slæma reynslu af því er útlendingar önnuðust verslun hér og það er ekki víst að hinir lágu prísar héldust.
    Talsmenn flutningastarfsemi virðast ekki óttast aukna samkeppni og það væri betur að þeir hefðu rétt fyrir sér. Bankastarfsemi hér breytist vafalítið við myndun Evrópsks efnahagssvæðis og sennilega munu erlendar bankastofnanir hefja hér einhverja starfsemi. Það gæti út af fyrir sig leitt til lækkunar vaxta og það væri af hinu góða. Vinnuveitendur fagna margir hverjir aðild að Evrópsku efnahagssvæði og vænta sér þá væntanlega ódýrara vinnuafls að utan.
    Mér er ráðgáta hvernig forusta margra verkalýðssamtaka hefur tekið á þessu máli. Margir forustumenn stéttarfélaga eru nefnilega ótrúlega jákvæðir þó að það eigi ekki við um þá alla. Sumir þeirra loka augunum fyrir því að við erum að gerast aðilar að efnahagssvæði þar sem atvinnuleysi er fast í kringum 10%. Með svipuðu lögmáli, eins og vatnið rennur undan brekkunni, hlýtur atvinnuleysi hér að aukast til stórra muna og innstreymi erlends vinnuafls hlýtur að taka atvinnu frá Íslendingum og atvinnuleysisstig hér að verða svipað og annars staðar á svæðinu.
    Það er rétt að minna á að þeir sem koma til landsins koma til með að vinna á strípuðum töxtum. Það verður að borga þeim taxtana en atvinnurekendur geta komist hjá því að greiða þeim alls konar

duldar greiðslur og fríðindi sem Íslendingar njóta. Þess má geta að útlendingarnir þurfa félagslega þjónustu til jafns við Íslendinga og það kostar okkur auðvitað einhverja fjármuni.
    Myndun Evrópsks efnahagssvæðis kemur til með að hafa veruleg áhrif á stærri sveitarfélög og ríkisstofnanir. Skylt verður að efna til útboða á svæðinu í meiri háttar vörukaup og stærri verksamninga. Þá getur íhaldið í Reykjavík t.d. ekki gaukað hagstæðum verkefnum eða gróðavænlegum viðskiptum að gæðingum sínum lengur. Það mun hljótast verulegur kostnaður af því að bjóða út á svona stórum markaði og kostnaður eykst við gerð útboðsgagna. Það þarf að koma á fót opinberri stofnun sem annast samskipti hvað varðar upplýsingar og opinber útboð á Evrópumarkaði á kostnað sveitarfélaganna, a.m.k. að hluta til.
    Þá er svigrúm sveitarfélaga til örvunar eða björgunaraðgerða í atvinnulífi þrengt. Eftir myndun EES-svæðis getur sveitarfélag ekki ívilnað fyrirtæki í sveitarfélaginu án þess að taka áhættu af því að vera sakað um að raska eðlilegri samkeppnisstöðu og hér er ég að tala um stærri fyrirtæki.
    Hver áhrif verða á ríkisfjármálin er erfitt að sjá fyrir. Það er rétt að geta þess að hér er skattheimta lægri en annars staðar á EES-svæðinu að Portúgal frátöldu. Það er líklegt að hún leiti jafnvægis við önnur EES-ríki. Þá þyngist bein skattheimta á almenning. Hins vegar er virðisaukaskattur hér hærri og líklegt að hann lækki en beinir skattar hækki.
    Kaupmáttur launa hér er með því hæsta sem þekkist á EES-svæðinu. Það kynni að breytast og kaupmáttur kynni að verða svipaður og annars staðar.
    Síðan umræður um EES hófust hefur mikið vatn til sjávar runnið. Þá var talað um tveggja stoða lausn þar sem önnur stoðin væri EFTA og hin Evrópubandalagið. Útkoman hefur orðið önnur. Hér er ekki um samstarf tveggja rétthárra aðila að ræða. Evrópubandalagið er allsráðandi og EFTA er engin stoð, einungis hækja, eins og það var orðað hér í gær, eða hjáleiga frá Evrópubandalaginu. E.t.v. sést þetta hvergi betur en ef við athugum feril dómstólaþáttarins. Evrópubandalagið heimtaði meiri hluta dómaranna. Það dugði ekki að mati Evrópudómstólsins og samningnum var breytt og fundin lausn þar sem Evrópubandalagið ræður raunverulega öllu.
    Það er líka fróðlegt að kynna sér viðhorf Evrópubandalagsins til þessarar samningagerðar. Nokkrir hv. þm. hafa haft tækifæri til þess, m.a. í gegnum þingmannanefnd EFTA, að hitta að máli þingmenn úr Evrópubandalagslöndum og ræða þessi mál við þá. Það er sannarlega ekki í öllum tilfellum mjög uppörvandi. Það væri fróðlegt fyrir alþingismenn að kynna sér yfirlýsingu Van der Pas, sem er embættismaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, um þennan samning sem hann flutti á fundi viðskiptanefndar Evrópubandalagsins 30. okt. 1991 í Brussel.
    Þessi háttsetti embættismaður lýsti samningnum og það verður að líta á það sem túlkun Evrópubandalagsins. Þar birtist aldeilis grímulaust viðhorf herraþjóðarinnar sem lýsti réttleysi hjálendunnar. EFTA-ríkin eiga ekki von á góðu ef andi Van der Pas kemur til með að ríkja í framtíðarsamskiptum eins og því miður verður að gera ráð fyrir.
    Framtíð þessa samnings er óviss. Önnur EFTA-ríki en Ísland hafa ýmist sótt um innlimun í hið þýsk-evrópska stórríki eða ætla að gera það fljótlega og jafnvel hér á landi eru hæstv. ráðherrar og þeirra handlangarar farnir að tala opinskátt um möguleika á aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Þetta sýnir okkur að með Evrópsku efnahagssvæði er ekki verið að tjalda nema til einnar nætur. Jafnvel þótt önnur EFTA-ríki ætli inn í Evrópubandalagið þá leggja þau mikla áherslu á fullgildingu EES-samningsins. Þetta gera þau vegna þess að þau líta á samninginn sem stórt skref inn í Evrópubandalagið. Það skyldi þó aldrei vera viðhorf ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar líka? Ég bið menn að athuga að innan Sjálfstfl. hafa nú tekið öll völd Evrópusinnarnir, Evrópubandalagssinnarnir. Ég nefni dæmið af því hvernig hv. þm. formanni utanrmn., Eyjólfi Konráði, var bolað úr formennskunni til að skapa þar svigrúm fyrir hv. þm. Björn Bjarnason sem hefur óþreytandi skrifað dálk eftir dálk um kosti þess fyrir Íslendinga að fylgjast vel með og vera ekki seinir á sér í samskiptum við Evrópubandalagið. Þeir sem eru á hraðferðinni til Brussel eru búnir að ná töglum og högldum í Sjálfstfl. Það skiptir líka máli við mat á þessu máli öllu. Ef hér væri um að ræða varanlegt form á samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins þá væri vel. En ef hér er aðeins um að ræða áfangastað inn í Evrópubandalagið þá er illa því ég held það væri fátt sem við Íslendingar gætum gert óskynsamlegra en að ganga þar inn.
    Ein fáránlegasta röksemd talsmanna þessa samnings er að með honum komum við til með að hafa áhrif á gang mála í Evrópu. Ég hef ekki trú á því. Þetta er bara rugl.
    Önnur langsótt röksemd er þegar menn sem alla tíð hafa, eins og hæstv. utanrrh., gefið skít í norrænt samstarf fara allt í einu að tala um hættuna af því að einangrast frá öðrum Norðurlandaþjóðum. Mér er e.t.v. ljósara en flestum þingmönnum öðrum gildi norrænnar samvinnu og sá ávinningur sem við höfum á undanförnum áratugum haft af henni. En það breytir því ekki að við megum ekki kaupa norræna samvinnu eða félagsskap annarra Norðurlanda með því að elta þau inn í Evrópubandalagið.
    Það er líka rétt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir að með samningi þessum skerðast möguleikar okkar til samskipta og samninga við ríki utan EES og það nægir að benda á 120. og 121. gr. EES-samningsins.
    Dettur nokkrum manni í hug, hefði Ísland verið aðili að EES-samningi 1971, að við hefðum getað fært efnahagslögsögu okkar út í 200 mílur? Mér finnst það ósennilegt.
    Framsfl. studdi upphaflega hugmyndina um myndun Evrópsks efnahagssvæðis enda væri fullnægt

ákvæðum um stranga fyrirvara sem þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson setti fram fyrir Íslands hönd þegar EFTA gekk til þessara viðræðna eins og margrakið hefur verið hér í þessum umræðum.
    Samningur sá sem hér liggur fyrir er allt annar en sá sem við vonuðumst eftir að gerður yrði. Fyrirvarar okkar eru ýmist orðnir útvatnaðir eða þá horfnir með öllu. Núverandi ríkisstjórn hefur haldið klaufalega á þessu máli og hafi hún skömm fyrir það.
    Við heildarmat á þessum samningi tel ég að hafa beri í huga að sá ávinningur sem hæstv. utanrrh. telur vera af samningnum er mjög ýktur. Einhver ávinningur kann að verða fyrir sumar greinar sjávarútvegs en það kann að vera dýru verði keypt annars staðar í þjóðfélaginu.
    Með samningi þessum opnast tvímælalaust tækifæri og bætt aðstaða fyrir þá sem ætla að flytja til meginlandsins en tvímælalaust er hann til óheilla fyrir marga þá sem eftir sitja og ætla að halda áfram að vera Íslendingar.