Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:10:46 (44)


     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykv. að það er brýnt að fá það upplýst hvernig að þessu máli var staðið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ég setti einmitt fram sérstaka ósk í ræðu minni um það að núv. ríkisstjórn upplýsti okkur um það, ef þess væri nokkur kostur, hvernig að þessari skýrslugerð var staðið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og þeim niðurstöðum sem þar er að finna, hvort það er eins og hv. þm. vill vera láta og hefur viljað vera láta í blaðagreinum m.a. að hann hafi ekkert vitað um þetta, hér sé skjal sem hann hafi aldrei komið neitt nálægt og aldrei séð, eða hvort hægt er að staðfesta það með öðrum hætti að ríkisstjórnin hafi um þetta fjallað. Ég tel að það sé ákaflega brýnt og beini því til hæstv. forsrh. að sé þess nokkur kostur að fá þetta upplýst, m.a. í tilefni af ræðu hv. 9. þm. Reykv. sem sat í síðustu ríkisstjórn, þá verði það gert. Hitt er alrangt að ætla að túlka orð mín þannig að ég hafi verið að segja það að utanrrh. hefði í þessari skýrslu talið að það þyrfti að breyta stjórnarskránni vegna EES. Þvert á móti segir í skýrslunni að þess þurfi ekki, en vegna frekara alþjóðasamstarfs þurfi hugsanlega að velta því fyrir sér.