Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:14:58 (47)



     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. sagði réttilega að ég hefði fallist á sameiginlegan dómstól í fyrri ríkisstjórn. Ég gat þess reyndar í minni ræðu að svo hefði verið því að ég taldi að þannig væri hagsmunum smáríkis betur borgið. En ég sagði einnig í minni ræðu að mér hefði orðið ljóst þegar ég fór að skoða stjórnarskrána nánar að það hefði ekki verið unnt nema breyta stjórnarskránni að veita þar heimild. Ég vil leyfa mér að fullyrða að ef þannig hefði verið haldið á málum, ef sú ríkisstjórn setið áfram, hefði stjórnarskránni verið breytt. Ég hefði a.m.k. beitt mér fyrir því og ég efa ekki að þeir aðrir flokkar sem tóku þátt í þeirri ríkisstjórn hefðu fallist á að gera nauðsynlega breytingu á stjórnarskránni. Þetta er vitanlega grundvallaratriði.
    Mér þótti í öðru lagi afar fróðlegt að heyra hv. þm. fullyrða að úrskurðir eftirlitsstofnunarinnar gætu aldrei orðið íþyngjandi, eða verulega íþyngjandi, hvernig það er nú orðað af lögfræðingunum fjórum, fyrir íslensk fyrirtæki. Nú er jafnvel ekki vitað hvernig hinn íslenski markaður verður flokkaður. Það er ekki vitað t.d. hvort litið verður á Ísland sem sérstakan markað. Hvernig í ósköpunum getur þá nokkur maður á þessari stundu fullyrt að ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar verði ekki íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki? Eða gæti það ekki orðið íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki að fá á sig sektir upp á einhverjar milljónir eða tugi milljóna? Ég held að þetta sé fullyrðing sem fær alls ekki staðist. Þarna er enn ein mikil óvissa í sambandi við þennan samning.