Evrópskt efnahagssvæði

7. fundur
Þriðjudaginn 25. ágúst 1992, kl. 16:50:48 (59)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli forsetadæmisins á því að vegna þeirra 10 þúsund blaðsíðna sem eru á borðum þingmanna sem og fjölmargra lagafrumvarpa sem flutt hafa verið og á að ræða hér á næstunni, þá gæti verið ástæða til þess að koma upp einhverri aðstöðu fyrir þingmenn sem eru að ræða málin til þess að hafa heimildir handbærar í ræðustól. Þetta mæli ég sérstaklega með tilliti til 2. umr. um málið.
    Ég mun, virðulegur forseti, fara yfir nokkur atriði sem snerta þetta geysilega viðamikla mál sem hér er til umræðu og leyfa mér að ræða um nokkra þætti þess en hitt er ljóst að það er mjög langt frá því að við getum farið yfir málið nema rétt stiklað á nokkrum þáttum sem ástæða væri til að fara yfir. Það er það víðfeðmt eins og fram hefur komið. Ég vil í upphafi míns máls vekja sérstaka athygli á því að sá samningur, sem hér er til umræðu, er samkvæmt orðanna hljóðan í honum sjálfum ígildi laga. Það er verið að lögfesta þennan samning og veita honum lagagildi með því frv. sem hér er til umræðu og í samningnum sjálfum, 119. gr. hans, er einmitt skýrt að því vikið að samningurinn eigi að hafa lagagildi sem og bókanir og allir viðaukar sem honum fylgja. Þetta verður ekki skilið með öðrum hætti en þeim að við séum að lögfesta þetta mál í heild sinni a.m.k. með þeim hætti að þegar til koma álitamál sem snerta þennan samning sem hugsanlega yrðu lögð fyrir dómstóla til þess að skera úr um ágreining þá er það dagljóst að allt efni samningsins hefur lagalega stöðu að því er samningsaðila snertir. í ljósi þess hljótum við að ræða þetta mál hér.
    Það er hins vegar ástæða til þess áður en farið er að víkja að einstökum atriðum málsins að skyggnast dálítið um garðann í hinum vestræna heimi sem við höfðum kallað svo og raunar ekki eingöngu þar heldur í heiminum öllum vegna þess að við erum með þessari tillögu, ef samþykkt væri, að festa okkur inn í alþjóðlegt samstarf með áður óþekktum hætti. Við værum að skipa okkur í eina af þremur meginviðskiptablokkum eða viðskiptabandalögum hinna iðnvæddu ríkja, í þessu tilviki Vestur-Evrópu. Hinar stóru heildirnar tvær eru Norður-Ameríka sem var að ganga frá sérstökum samningi sem stundum hefur verið kallaður fríverslunarsamningur, sem er tæpast réttnefni því að hann er miklu víðtækari en það, og skammstafaður NAFTA og síðan þriðja stórveldið í þessu samhengi sem er Japan. Fyrir utan þessar þrjár stóru heildir er síðan það sem stundum er kallað þriðji og fjórði heimurinn, þó að það séu ríki sem eru mjög misjafnlega á vegi stödd hvað snertir efnahagslegar aðstæður og þróun en hafa haldið saman á alþjóðavettvangi síðan 1971 þegar þau stofnuðu hóp hinna 77 ríkja sem nú skipa nær 130 ríki og fylkja liði á alþjóðavettvangi í mjög mörgum og veigamiklum málum, ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ráðstefnum sem haldnar eru á þeirra vegum. Og hvernig er nú ástandið, virðulegur forseti, í hinum iðnvædda hluta heimsins, þeim ríkjum sem við mesta velmegun búa, hvernig eru horfurnar hjá þeim annars vegar og hins vegar hjá hinum fátækari hluta?
    Það hefur heyrst í máli manna við þessa umræðu að áhyggjur eru miklar vegna þess mikla og ört vaxandi atvinnuleysis sem ríkir á Vesturlöndum, í Vestur-Evrópu og í Norður-Ameríku sérstaklega. Síðasti ræðumaður vék að þessu og lýsti áhyggjum sínum en var með væntingar um að sá samningur sem hér er ræddur verði til að ráða þar bót á og bægja atvinnuleysisvofunni frá okkur Íslendingum. Ég held að við þurfum að skoða nánar þessi mál og þetta samhengi.
    Það ríkir kreppa á Vesturlöndum í efnahagslífi, djúptækari kreppa en menn hafa séð um langt skeið. Hún er ekki sambærileg við aðstæður á fjórða áratugnum vegna þess hversu mjög margt hefur breyst í baklandinu, en ef við lítum á atvinnuleysið eitt saman, þá er það nú að verða meira en verið hefur um tíu ára skeið og Efnahags- og samvinnustofnunin, OECD, gerir ráð fyrir því að í löndum hennar nái atvinnuleysið á þessu ári, 1992, 30 millj. manna sem formlega eru skráðir atvinnulausir innan OECD-ríkjanna og vaxi þessi fjöldi um 5,5 millj. á þessu ári.
    Í Evrópubandalaginu eru horfurnar ekki bjartar að þessu leyti. Þar er atvinnuleysi að verða viðlíka og var fyrir svona tíu árum síðan. Það hafði farið svolítið minnkandi fram til 1989 eða svo en síðan hefur aftur sigið á ógæfuhlið í þessum efnum og gert er ráð fyrir af kontórum bandalagsins sjálfs sem fara yfir þessi mál að meðalatvinnuleysi í Evrópubandalagslöndunum tíu nemi 10% að meðaltali og verði þá komið upp undir 20% þar sem verst lætur. Þetta eru hinar efnahagslegu aðstæður að því er snertir atvinnuna í því bandalagi sem EFTA-ríkjunum er ætlað að tengjast með samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Á Norðurlöndunum hefur einnig hallað á ógæfuhliðina og það mjög ört, alveg sérstaklega í Finnlandi þar sem atvinnuleysi er nú um eða yfir 15%. Aðstæður Finna eru vissulega nokkuð aðrar og sérstæðar vegna samskipta og viðskipta þeirra við fyrrverandi Sovétríkin, markaðar sem nú hefur hrunið að verulegu leyti og er skýring á því hversu Finnland tekur sig mjög út úr að þessu leyti, en einnig í Svíþjóð og í Noregi er atvinnuleysið hraðfara vaxandi og komið upp í áður ómældar hæðir. Það sama er á döfinni hér þar sem atvinnuleysi er einnig ört vaxandi og menn eru að bera sig saman um það hvort reikna megi með því að það geti farið upp í allt að 6% eða eitthvað minna á komandi vetri eða næsta ári.
    Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að uppi er málflutningur sem ég tel vera á miklum misskilningi byggðan og í rauninni vera mjög einfeldnislegur ef menn eru að gera því skóna að þess megi vænta að efnahagslegar aðstæður á Íslandi fari batnandi á næstunni við það að gera þennan samning. Ég held að þessu sé öfugt farið og gæti flutt mörg rök fyrir því að ástæða sé til að ætla að þessu sé öfugt farið. Auðvitað kemur aðgerðarleysi núv. ríkisstjórnar í atvinnumálum inn í þá mynd sem blasir við okkur Íslendingum, sú furðulega stefna sem hér hefur ríkt í atvinnumálum þar sem stjórnvöld skipta sér í rauninni ekki af nokkrum hlut, telja það beinlínis ekki í sínum verkahring að stuðla að jákvæðari þróun í atvinnulífi nema liggja á bæn gagnvart erlendum auðfélögum eins og hæstv. iðnrh. hefur gert um árabil og biðja þau um að koma til að fjárfesta í álbræðslu. Allir vita hvernig það mál stendur og þarf ég ekki að vera með neitt svartsýnisraus sem ég hef stundum verið sakaður um í þessum efnum. ( Gripið fram í: Ekki eru það Evrópubúar . . . ) Þetta svartsýnisraus kemur nú úr herbúðum ráðherrans sjálfs, það kemur úr stjórnarherbúðum þar sem menn eru að vara við því, auðvitað með réttu, að mál sé komið til að hætta að mæna á þetta góss sem hæstv. iðnrh. hefur varið sínum kröftum sem eru talsverðir um fjögurra ára skeið til þess að draga hér að landi. Þetta hefur auðvitað haft veruleg áhrif á aðgerðir hérlendis á sviði atvinnumála og í efnahagsmálunum almennt til hins verra og það eru því miður ekki horfur á því að þarna sé nein breyting í vændum, ekki nokkur breyting. Þvert á móti á að treysta á lukku hins óhefta markaðar sem við erum að ganga inn í með því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, með því að lögbinda hið svokallaða fjórfrelsi hér á Íslandi sem er kjarninn í þessum samningi. Allt annað er aukaatriði í þessum samningi og það er fáheyrt, virðulegur forseti, að menn skuli koma hér og tala um að tollalækkanir á íslenskum sjávarafurðum séu sá mælikvarði sem menn eigi að leggja á þetta mál og það sé vegna þeirra eitthvað nálægt tveggja milljarða rúmt reiknað í tollahagsbótum sem menn eigi að skrifa upp á þennan samning. Og það er sérstaklega verið að ákalla fólk á landsbyggðinni til þess að gerast þátttakendur, til að hlaupa undir bagga og ýta á eftir þessu skipi til Evrópu.
    Það væri hægt að gefa málflutningi af þessu tagi ýmsar einkunnir. Satt að segja vil ég ekki vera að flytja þau orð úr þessum ræðustóli sem sæmdu þeim málflutningi sem hæstv. utanrrh. hafði uppi þegar hann mælti fyrir þessu máli. En það er önnur hlið á þessu máli sem hefur verið lítið rædd en ég vil koma að næst sem tengist einmitt þeirri kreppu sem nú ríkir á Vesturlöndum og fer dýpkandi. Það er spurningin um hvort menn eru í grundvallaratriðum þegar á heildina er litið á villigötum í sambandi við efnahagsstarfsemi og viðskiptahætti á Vesturlöndum.
    Hér til vinstri handar mér er framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands sem vermir bekki á þingi og hann lyftir brúnum og setur auðvitað upp spurningarmerki með mér um það vegna þess að í ljósi hinnar dýpkandi kreppu sem nú er í gangi hljóta menn að spyrja sig að því hvort það faðirvor sem hér er sungið um hinn óhefta markað, óskorað markaðsfrelsi á öllum sviðum án inngripa af opinberri hálfu og stýringar sé sá elexír sem sé líklegur til að gagna heimsbyggðinni, gagna fólkinu í löndunum. Ég veit ekki hvað framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands hefur farið náið yfir þau atriði sem snúa að umhverfismálum í heiminum í tengslum við efnahagsstarfsemi. Ég vænti þess vissulega að sá hv. þm. sem og aðrir þingmenn hafi gefið þessu gaum og ég veit um þingmenn sem vart hafa komist hjá því að leggja þar rækilega við hlustir á þessu ári, þ.e. þeir sem voru í ferð sem ég var þátttakandi í á sl. vori á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro sem haldin var í júnímánuði. Ég held hins vegar að það væri þörf á því að taka málefni þau sem þar voru rædd til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga og fá hið fyrsta frá hæstv. umhvrh. skýrslu um störf og umræður á þessari heimssamkomu sem ekki var nú minna virt en svo af þjóðarleiðtogum að þangað komu ekki færri en 118 fulltrúar sem var gefið það heiti og hleypt var að sporöskjulaga borði sem þeir settust að við lok ráðstefnunnar. Þar vantaði að vísu forsrh. Íslands í hópinn en forseti Íslands var þar mættur og það sæti vel skipað.
    Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því að sú gata sem verið er að vísa á er blindgata. Hún verður ekki gengin með þeim hætti sem lagt er upp með mikið lengur og það í raunverulegri merkingu þess orðs. Vegna þess að iðnaðarstarfsemin, iðnvæðingarbrautin, sóunarbrautin í sambandi við efnisleg gæði leiðir fyrr en varir, og það í tíma næstu kynslóðar eða þar næstu, í fullkomið óefni verði ekki horfið af þessari braut nú. Á umhverfisráðstefnu í Ríó töluðu menn um ekki mætti verða nein bið á, róttæk breyting yrði að nást fram fyrir aldamót, á næstu átta árum, ef von ætti að vera til þess að menn stýrðu fram hjá hengifluginu varðandi þær takmarkanir sem við blasa í umhverfislegu tilliti vegna efnahagslegra umsvifa eins og nú er að þeim staðið á Vesturlöndunum í hinu heiftarlega kapphlaupi viðskiptablokkanna þriggja sem ég nefndi í upphafi og sem verið er að leggja til að Ísland verði einn aðilinn að. Ég vænti þess að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins og fleiri, sem kunna að setja spurningarmerki eða hrista höfuðið eins og hann, eigi eftir að blanda sér í umræðuða til að greina frá sínum viðhorfum til þessara mála, gera grein fyrir því hvernig þeir sjá lausnir í þessum efnum, hver er þeirra vegvísir, örfá atriði til að undirstrika þetta því að það mætti lengja þennan lestur nokkuð mikið.
    Það er alveg ljóst að það er ekki vinnandi vegur, það er ekki kleift að ná upp lífskjörum í hinum svonefnda þriðja heimi, heiminum utan við blokkina stóru, eitthvað í líkingu við það sem er meðaltalið í Evrópu núna, þótt ekki sé farið upp í það sem best gerist, vegna þess að hinar umhverfislegu takmarkanir leyfa það ekki, gera það ekki kleift þótt beitt væri fullkomnustum tæknilegum búnaði og svokölluðum mengunarvörnum í þessu skyni.
    Þetta eru hin hörðu lögmál þess lokaða umhverfis sem við búum við í hnattrænum skilningi þessa máls. Þrátt fyrir geiminn erum við með lofthjúpinn afmarkaðan og takmarkaðan og hann tekur ekki við nema takmörkuðu magni af þeim efnum sem þar er verið að bæta við vegna iðnaðarstarfseminnar, vegna framleiðslustarfseminnar, víða um lönd. Hvað þá að auka við í þeim mæli sem yrði með réttmætri sókn þjóða þriðja heimsins, yfirgnæfandi meiri hluta mannkyns sem að hluta til lifir á hungurstigi og sveltur heilu hungri eins og menn þekkja úr fréttum.
    Ég held það væri ástæða til þess, virðulegi forseti, að ekki aðeins Alþingi heldur líka ríkisstjórn landsins settist á rökstóla vegna þessara þátta og spyrði sig þeirra spurninga: Eigum við Íslendingar að slást í þessa för? Eigum við að undirrita trúarjátningu hins óhefta markaðar og gerast þátttakendur í honum og binda okkur inn í hann í staðinn fyrir að halda svigrúmi til þess að móta sjálfstæða stefnu í þessum stóru málum og velja okkur samfylgd í þessum stóru málum?
    Einn þáttur þessa ófarnaðar sem við erum þátttakendur í og sem einkennir efnahagsstarfsemi Vesturlanda, að ekki sé talað um það sem við blasir eftir hrunið í Austur-Evrópu. En það eitt saman breytir ekki neinum megindráttum úr myndinni vegna þess að í aðalatriðum var þar fylgt sama framleiðslumunstri og fylgt er á Vesturlöndum.
    Ég held það væri ástæða til að setjast yfir þau efni. Ég vil t.d. leyfa mér að benda hv. þm. á rit, sérrit sem tímaritið Der Spiegel gaf út fyrr á þessu ári og fjallar um innri markaðinn í samhengi umhverfismálanna. Það er dálítill doðrantur. Þar er farið yfir málin og farið yfir sviðið og ég hvet sem flesta til að kynna sér efni þessa rits. Þar er yfirskriftin á þessari sérútgáfu Der Spiegel, Evrópa án landamæra, Alarm für die Umwelt á þýskunni, háski fyrir umhverfið.
    Kynnið ykkur efni þessa rits, það er ekki meðmæli, hvorki með innri markaði Evrópubandalagsins, sem er það sem um er fjallað fyrst og fremst en sem bætir enn í ef það á að tengja Norðurlöndin, Austurríki og Sviss við þessa viðskiptaheild.
    Það gegnir satt að segja furðu, virðulegur forseti, að þeir finnast sem eru að mæla með þessum samningi með sérstöku tilliti til umhverfismála og vísa á þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði sem alveg kjörna úrlausn í þeim efnum.
    Ég las í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum eitt slíkt innlegg. Ég hef að vísu ekki heyrt ræður um það á Alþingi nýlega en svo langt er seilst til lokunnar, svo mikil er villan í þessu máli --- og svo eru menn að vísa á ákvæði í þessum samningi, því vissulega er minnst á umhverfismál í þessum samningi en þau eru þar skörinni lægra en allt annað og ekkert bindandi í þeim efnum og alveg sérstaklega tekið fram í samningnum að þar sem ákvæði fjórfrelsisins og umhverfisins mætast eða rekast á, þá eru það vörurnar, verslunin, viðskiptin, fjármagnið, sem eiga að ráða ferðinni.
    Þetta getið þið lesið í 74. gr. samningsins þar sem um þetta er fjallað og sem notað var m.a. af einum aðalupphafsmanni fyrir þessari vegferð, Gro Harlem Brundtland, sem maður vildi gjarnan sjá í öðru samhengi en í EES-samhengi því hún hefur vissulega komið við sögu á alþjóðavísu í umhverfismálum. Hún var einmitt að vitna til þessarar greinar ásamt fleirum til huggunar löndum sínum og öðrum sem hafa áhyggjur af því hvað þessi samningur þýði í samhengi umhverfismálanna. En þar stendur: ,,Þær ráðstafanir sem um getur í 74. gr. eru því ekki til fyrirstöðu að einstakir samningsaðilar láti strangari verndarráðstafanir halda gildi sínu eða grípi til þeirra, enda samrýmist það samningi þessum.``
    Þær viðræður sem nú standa yfir á vegum GATT, almenna samkomulagsins um viðskipti og tolla, tengjast þessu máli einnig án þess að ég ætli að fara langt út í þá sálma. Þar er í rauninni verið að reyna að lögbinda eða festa í sessi á vegum GATT í hinum svonefndu Úrúgvæ-viðræðum þetta opna kerfi, þessi lögmál sem Vesturlönd hafa verið að reyna að móta fyrir sig og fjölþjóðafyrirtækin á Vesturlöndum hafa verið potturinn og pannan á bak við. Að reyna að festa þau í sessi og gera þau að heimslögmáli í sambandi við viðskipti. Það heyrast rök í þá áttina að þetta eigi að vera sérstök blessun fyrir þriðja heiminn.
    Ég held að menn þurfi að skoða þessi mál ögn betur áður en þeir taka undir staðhæfingar af þeim toga. Það verður auðvitað ekki undið ofan af þessum þáttum í neinum skjótum svifum, það er ekki þess vegna sem ég er að nefna það hér að menn geti vænst þess að ná endurskoðun á þessari vegferð með einhverjum skjótum sviptingum. En upphafið er þó að gera sér vandann ljósan. Einn þátturinn í Úrúgvæ-viðræðunum og þeim drögum sem þar liggja fyrir að samkomulagi er að setja á laggirnar stjórn yfir GATT sem kölluð er ,,Multilateral Trade Organization`` eða MTO og það er sérstakur viðauki í GATT-samningunum sem fyrir liggja sem eru starfsreglurnar fyrir þessa stjórn. Og ég held að menn, sem mestar vonir binda við þetta samkomulag, ættu að kynna sér þær.

    Það er t.d. athyglisvert varðandi þetta MTO, þessa yfirstjórn GATT sem á að fara að setja upp, að þar er gert ráð fyrir, samkvæmt ákvæðum í þessu uppkasti að reglum, að þar verði meirihlutaákvarðanir teknar. Og hvað skyldi nú vera mikið fjallað um umhverfismálin í því samhengi? Þau eru nefnd í eitt einasta skipti í almennum inngangskafla. Það eru áhyggjurnar sem menn hafa á þessum vettvangi sem skiptir þó sköpum um það hvernig umhverfismál munu þróast í heiminum. Það eru áhyggjurnar sem menn hafa af því og tengingin á milli ákallsins frá umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó annars vegar og þeirrar samkomu sem rekin er undir Úrúgvæ-merkinu á vegum GATT.
    Heldur einhver að menn fóti sig með vinnubrögðum á alþjóðavísu af þessum toga? Hér er alvara á ferðum, alvara fyrir okkur. Að vísu munum við hjara af án þess að fá bakslaginn mikla frá móður náttúru sem kemur innan skamms ef ekki tekst að beygja af en það verða þá í síðasta lagi börnin eða barnabörnin okkar sem súpa seyðið að því að ekki sé horft lengra fram í tímann í þessum efnum.
    Ég veit það að þeir munu vafalaust finnast sem telja að það mál sem hér er flutt sé eins konar svartagallsraus, sem eigi lítið erindi inn í umræðu um þetta mál. En ég óttast ekki dóma af þeim toga og ég mæli þetta í fyllstu alvöru og með hvatningu til Alþingis að taka einnig þetta sjónarhorn með þegar verið er að fjalla um þennan samning vegna þess að það á þar heima, alveg skilyrðislaust, og ætti í rauninni að vera einn undirstöðuþátturinn í sambandi við athugun þessa máls.
    Við erum komin í 1. umr. um lagafrv. sem er afraksturinn af ferð sem var fitjað upp á á árinu 1988 og formlega gengið frá í marsmánuði 1989. Ég tek eftir því að mönnum er gjarnt að byrja á því að rifja upp í þessu samhengi ræðu sem Delors nokkur, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, flutti 17. janúar 1989 og markaði upphaf þessa máls. Svona rétt eins og þetta hafi vaxið út úr höfðinu á forseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. Málið er nú ekki þannig, en það hefur í rauninni allt of lítið komið fram um það og verið um það fjallað hvernig þetta varð til. Hvernig varð þessi skapnaður til eða vísir að þessum skapnaði sem leitt hefur til þeirrar umræðu sem hér fer fram?
    Ég hef stundum nefnt þetta á fundum með utanrrh., svona rétt til þess að halda honum við efnið og söguna. Ég ætla að gera það hér í örstuttu máli. Þrýstingurinn á inngöngu í Evrópubandalagið hefur verið vakandi á Norðurlöndum um áratugaskeið. Það var reynt að ýta Norðmönnum inn í Evrópubandalagið 1970--1971. Það var raunar gerð atrenna hér á Íslandi upp úr 1960 í þessa átt og ég bið menn að hafa það í huga þegar þeir dæma afstöðu manna á sínum tíma til EFTA. Hana ber að sjálfsögðu að skoða í ljósi þess að þeir sem andæfðu gegn EFTA skynjuðu það svo að það væri fyrsta ákvarðandi skrefið til inngöngu í Evrópubandalagið rekið áfram af viðreisnarstjórninni sem hér var við völd í nærri tólf ár. Það var auðvitað veigamikill þáttur í rökum manna sem vöruðu við inngöngu í EFTA á sínum tíma. En þeir sem hafa verið að sækja þetta mál um langt skeið, fyrst og fremst hagsmuni stórfyrirtækja, alveg sérstaklega innan fjölþjóðafyrirtækjanna hinna sænsku, sem eru auðhringir á heimsmælikvarða sumir hverjir með útibú og tengsl í 100 löndum og jafnvel meira, og stórfyrirtækja í Noregi. Þessi þrýstingur hefur verið vakandi og hann hefur fengið hljómgrunn öðru hvoru, fyrst og fremst pólitískan hljómgrunn hjá sósíaldemókrötum fyrir utan hægri flokkana suma hverja. Og það sem gerðist á árinu 1988 var að skandinavísku kratarnir og þeir sunnar í Evrópu báru sig saman á fundum, ég vil ekki segja leynifundum, en það fór ekkert hátt um þessa fundi, að nú þyrfti að ráða ráðum og taka eitthvað til bragðs því nú yrði þessi innganga í Evrópubandalagið að fara að gerast. Þeir bundust samtökum um það --- í þeim hópi er nefndur Delors, því hann er krati, sósíaldemókrat og hefur held ég verið lengst af, í náinni samvinnu við Gro Harlem Brundtland því hún réði fyrir EFTA í hálft ár 1988 --- að nú skyldi lagt til atlögu. Og íslensku kratarnir, þar á meðal hæstv. utanrrh. var tekinn auðvitað með inn í þetta dæmi og skrifaði upp á þessa vegferð. Það var ekki búið að athuga málið mjög náið, það var bara ákveðið af íslenska Alþfl. eins og sósíaldemókrötunum á Norðurlöndum og sunnar í Evrópu að demba sér til sunds. Binda fyrir bæði augu hvað snerti afleiðingar, taka kúrsinn og demba sér til sunds helst inn í Evrópubandalagið en sennilega yrði að fara þarna milliskref, búa til þetta sem við ræðum hér, þennan skapnað --- hið Evrópska efnahagssvæði.
    Það voru alveg sérstaklega þær pólitísku hindranir sem menn sáu á vegi í Noregi og í Svíþjóð, m.a. í Noregi af fyrri reynslu, að það væri ekki svo auðhlaupið að ná því milliliðalaust að koma þessum löndum beint inn í Evrópubandalagið. Það hefur hins vegar komið í ljós síðan þessum ráðum var ráðið að það hefur verið hert á ferðinni og við höfum orðið vör við hvernig aðstæður eru nú í hinum EFTA-ríkjunum þar sem búið er að leggja inn umsóknir þar sem formaður norska krataflokksins, Gro Harlem Brundtland, stendur nú frammi fyrir því að reyna að knýja sinn flokk að meiri hluta til fylgis við að leggja inn umsókn um inngöngu í Evrópubandalagið. Sú hin sama og átti hvað mestan þátt í að ríða netin í sambandi við EES. Auðvitað hefur þetta komið síðan aftur og aftur, ekki bara frá viljugum sjálfstæðismönnum, sem lengi er búið að dreyma um að geta tengst Evrópubandalaginu sem nánast og það eru vissulega þeir sem núna fara með völdin í Sjálfstfl. sem eru á þeim báti, heldur af hálfu Alþfl. Og ég vil aðeins nefna það að svo snemma sem 16. mars lesum við það í flokksblaði utanrrh. eftir fundahöld í Kaupmannahöfn að það sé hans mat að ef Noregur og Svíþjóð fari inn í Evrópubandalagið þá hljóti Íslendingar að fylgja á eftir. Reyndar ber þessi grein í flokksblaðinu, Alþýðublaðinu frá 16. mars 1990, þá skemmtilegu yfirskrift: Við Íslendingar erum flóttamenn frá Evrópu.
    Síðan hefur það verið rifjað upp í þessari umræðu og ég þarf ekki að bæta um betur enda er um nóg annað að tala að fara hér yfir ræðu utanrrh. við umræðuna í mars 1992. En ég hvet menn eindregið

til þess að gera það og lesa alveg sérstaklega bls. 12 og svona aftur að bls. 19. Ekki þarf að fara yfir meira til að sjá hvert ferðinni er raunverulega heitið. Og þeir, sem láta sér detta í hug, eins og heyrist á manni og manni, að það verði eitthvað staldrað við í þessu Evrópska efnahagssvæði eða það sé hugmyndin að gera það, skulu bara kynna sér verk Jóns Hannibalssonar, hæstv. utanrrh. og Davíðs Oddssonar, formanns aldamótanefndar Sjálfstfl. Halda menn að þeir hlaupi frá þessum hugmyndum og við eigum að taka þá trúanlega hér á Alþingi þegar þeir eru að reyna að sverja slíkt af sér, jafnvel núna nokkrum mánuðum eftir að þeir hafa flutt allt, allt annan boðskap í rituðu máli og alvarlegri skýrslu til Alþingis Íslendinga?
    Nú er þess vissulega að gæta að svo getur auðvitað farið að hraðferðin inn í Evrópubandalagið gangi ekki upp með þeim hætti sem forustumenn í EFTA-ríkjunum eru að gera sér vonir um. Eitt það athyglisverðasta, þegar þessi mál eru skoðuð, eru auðvitað þau miklu veðrabrigði sem hafa orðið í öllum EFTA-ríkjunum að heita má, misjafnlega skörp veðraskil, á viðhorfum almennings til þessa samruna sem hér er verið að boða sem sérstakt fagnaðarerindi. Ég hugsa að það hefðu þótt tíðindi fyrir ári síðan eða rösklega það ef menn hefðu spáð því að brátt yrði meiri hluti almennings í Svíþjóð á móti því að ganga inn í Evrópubandalagið. Meiri hluti í Noregi hefur nú haldist um allnokkurt skeið, nokkuð traustur meiri hluti gegn hugmyndinni um að ganga í Evrópubandalagið og allir vita hvernig fór í Danmörku þó að þar hafi menn verið að greiða atkvæði um lokaáfangann eða ákveðið skref að lokaáfanganum að því stórríki Evrópu sem er fyrir stafni samkvæmt hugmyndum þeirra sem ráða ferðinni.
    Já, fagnaðarerindið, hinn óhefti markaðsbúskapur, og ég segi óhefti vegna þess að það er það sem er um að ræða, að taka allar lokur úr og láta fjármagnið óheft ráða ferðinni. Það þýðir í raun að afhenda völdin og baráttuna um völdin stórfyrirtækjunum, auðfélögunum, nokkur hundruð auðfélögum sem eru að reyra sitt net æ fastar, auðvitað með ólíka hagsmuni en eru í rauninni þau sem í vaxandi mæli hafa undirtökin í iðnríkjunum og móta stefnuna. Það er svo sem ósköp skiljanlegt þegar við horfum á þá mynd eins og hún liggur fyrir að það sé ekki mjög mikið fjallað um umhverfismál og áhyggjur af þeim þáttum í sambandi við efnahagsstefnuna í sambandi við þessi mál.
    Aðeins meira varðandi umhverfismálin í tengslum við þennan samning. Ég vil nefna það vegna þess sem hér er oft sagt og hefur verið sagt í sambandi við þetta mál nánast frá byrjun. Það voru hugmyndir um að við þyrftum fyrirvara varðandi orkumálin. En síðan var fljótlega staðhæft að það væri engin ástæða til þess vegna þess að samningurinn fjallaði ekkert um orkumál og þau yrðu ekki hluti af þessum samningi. Ég vil biðja menn að athuga sinn gang aðeins betur áður en þeir taka það fyrir gott og gilt.
    Evrópubandalagið er einmitt þessa mánuðina að fjalla mjög mikið um orkumál og gera orkumálin og orkuframleiðslu og aðgang að orkulindum að hluta af innri markaðnum. Þetta er kallað á þeirra máli ,,deregulering`` orkumarkaðarins, brjóta upp það sem kallað er einokunarfyrirtæki í sambandi við orkuframleiðslu, gera tenginetið að sameiginlegum farvegi sem selt sé inn á og þar sem menn geti keppt um viðskiptin. Og í undirbúningi eru ,,direktív``, sem svo eru kölluð á máli EB, samþykktir og tilskipanir varðandi þessa þætti. Ætli það sé nú alveg víst að þessar tilskipanir eigi ekki eftir að koma inn á borð okkar Íslendinga, inn á Alþingi? Ef svo er litið á að þetta sé hluti af hinu frjálsa flæði þá kæmi ekkert á óvart að inn á borð EES-nefndar, ef hún einhvern tíma verður til, sameiginlegu nefndarinnar, komi slíkar tilskipanir með ósk um það að EFTA-ríkin skrifi upp á þær og gerist þátttakendur einnig að þessu leyti. Samningurinn sem ræddur var nokkuð hér á þingi í fyrra um Orkusáttmála Evrópu var vísir að þessu og það á meira eftir að fylgja.
    Eitt vil ég nefna hér, ekki síst af því að á meðal okkar á þingi er fólk sem hefur afskipti af málefnum Landsvirkjunar, eins og raunar Alþingi allt sem kýs stjórn fyrirtækisins, þá er það auðvitað sérstakt umhugsunarefni sem þarna er á ferðinni í Brussel í sambandi við tilskipanir varðandi orkumálin. Og ég held satt að segja að þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að fara að flytja út orku frá Íslandi með sæstreng, að þar geti orðið á brattann að sækja ef sú skipan mála verður sem þarna er verið að draga á teikniborðinu, draga útlínurnar að, í sambandi við orkumarkaðinn. Ég á eftir að sjá þá aðila sem ábyrgjast slíka fjárfestingu og tryggja þau viðskipti sem til þyrftu að koma og til kaupa á orkunni frá íslenskum stórvirkjunum sem menn hafa verið að gæla við að ætti að framleiða til flutnings um þennan sæstreng. Ég mun hreyfa þessu máli í öðru samhengi innan tíðar en nefni þetta vegna þess að auðvitað er orkuþátturinn, kannski ekki sérstaklega í íslensku samhengi en í heildarsamhengi umhverfismálanna og efnahagsstarfseminnar, undirstöðuþáttur fyrir alla starfsemi og undirstöðuuppspretta þeirrar mengunar sem ég hef gert að umtalsefni sem fylgifisk iðnvæðingarinnar og þeirrar sóunarstarfsemi sem einkennir efnahagsstarfsemi Vesturlanda.
    Þá vil ég, virðulegur forseti, víkja svolítið að þeirri staðhæfingu, sem m.a. mátti heyra hjá hæstv. utanrrh., að við Íslendingar værum að fá happdrættisvinning í sambandi við þennan samning og við mættum alls ekki missa af honum vegna þess að þá væri ekki bjart fram undan. Þá fengjum við í rauninni ekkert í staðinn. Þá væri voðinn vís. Þessu er bætt við um leið og menn vísa á horfurnar í íslensku efnahagslífi, vaxandi atvinnuleysi o.s.frv. Og ég held að það sé nauðsynlegt og ég man ekki betur en það kæmi áskorun frá hæstv. utanrrh. einmitt um það að menn fjölluðu um þennan þátt máls, hvað ef þessum samningi er vísað frá? Ég held að menn þurfi einmitt að skoða þá stöðu opnum augum og átta sig á því að það er mjög langt frá því að það sé einhver voði á ferðum fyrir atvinnulíf og efnahagslíf á Íslandi út af fyrir sig vegna þess að við vísuðum þessum kaleik frá okkur. Sú er alls ekki raunin og sá áróður sem uppi

er hafður í því sambandi eru falsrök, það eru blekkingar framreiddar til þess að hræða menn til fylgis við þennan samning. Við skulum líta ögn á þessa stöðu.
    Ef þessi samningur nær ekki fram að ganga á Alþingi eða annars staðar þar sem um hann er fjallað og þar sem hann þarf að fá stuðning þá stendur þar eftir að því er Ísland varðar að við höfum í fullu gildi fríverslunarsamninginn milli Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 sem tók gildi 1976 að loknu þorskastríði. Um það er ekki deilt. Sá samningur mun halda gildi sínu og að sjálfsögðu verður það opið fyrir okkur Íslendinga að sækja á um breytingar á þeim samningi okkur til hagsbóta og það hljótum við að gera. Sá samningur hefur verið metinn alla tíð síðan hann var gerður sem einn besti samningur sem Ísland hefur gert viðskiptalega séð og í rauninni tekur fram öðrum samningum sem önnur EFTA-ríki gerðu um svipað leyti við Evrópubandalagið. En hvað er það í þessum samningi sem kallar svo á skjótar úrbætur? Vissulega bókun 6 og tollarnir á sjávarafurðum. Við getum öll verið sammála um að við þurfum að knýja þar á um breytingar. Það eru okkar hagsmunir. En þeir hagsmunir eru ekki það stórir að þeir skipti í rauninni nokkru teljandi máli þegar verið er að líta á þetta svið í heild sinni og allt það sem verið er að keyra okkur inn í í sambandi við fjórfrelsið. Eða heyra menn hvaða tölur eru þar nefndar? Þær tölur ber að sjálfsögðu að taka með fyrirvara í sambandi við hagræði vegna tolla. Það er talað um hámark 2 milljarða. Allir eru sammála um að ekki er hægt að reikna slíkt einhliða sem óhagræði útflytjenda, í þessu tilviki Íslands með sjávarafurðir, þannig að mikið er hægt að draga frá. En auðvitað eru ákveðnir þættir inni í þessu máli sem varða þróun á afurðum og slíku sem við lokum ekki augunum fyrir. Aðrir þættir, sem snúa að þessum EES-samningi í samanburði við þann fríverslunarsamning sem við höfum í höndunum, eru ekki mjög veigamiklir að því er snertir vörusviðið sérstaklega. Ég ætla aðeins að líta á nokkur atriði sem því tengjast. Ef yfir það er litið og á einstaka þætti þá er alveg ljóst að þar eru ákvæði sem eru bæði plús megin og mínus megin að því er snertir þær breytingar sem um er að ræða.
    Varðandi útflutning og innflutning á iðnaðarvörum þá eru þær tollfrjálsar samkvæmt fríverslunarsamningnum sem við búum við og spurningin um upprunareglur, sem hefur verið borin fram sem hagræði fyrir okkur að fá breytingar á, er ekki það veigamikil að það skipti neinum sköpum fyrir utan að það ætti að vera auðvelt að fá viðurkenningu og samkomulag um að beita upprunareglum sem þarna er um að ræða, milli Íslands og Evrópubandalagsins, byggja þær samningslega inn í okkar samskipti þannig að við getum notið þess hagræðis og báðir aðilar að verulegu leyti sem þar er um að ræða.
    Í þessu samhengi er oft vísað á tæknilegar viðskiptahindranir í sambandi við viðskipti með iðnvarning, með annað en sjávarafurðir, að það sé verið að afnema tæknilegar viðskiptahindranir á milli landa. Það mál er ekki flóknara en svo að við Íslendingar höfum verið fullir þátttakendur í starfi sem lýtur að því að afnema tæknilegar viðskiptahindranir nú um árabil og verðum þátttakendur í því hvað líður þessum samningi. Við erum aðilar að Evrópusamstarfi í sambandi við staðla og slík málefni og munum njóta og erum að uppskera þá kosti sem menn telja vera að því að samræma að þessu leyti. Þetta atriði skiptir þannig í rauninni engu teljandi máli í samhengi þessa samnings.
    Eitt af því sem snertir þáttinn varðandi vörur og viðskipti er einkaleyfi ríkisfyrirtækja sem á að leggja niður samkvæmt 16. gr. samningsins, sem er í samræmi við 37. gr. Rómarsáttmálans sem hér er verið að innleiða. Þetta kallar á breytingar hjá okkur en erum við viss um að það séu breytingar til bóta að leggja af fyrirtæki eins og t.d. Lyfjaverslun ríkisins og Áfengisverslun ríkisins sem að líkindum og ég segi að líkindum mun fylgja með þó að um það sé ágreiningur milli aðila og fullyrt af þeim sem mæla fyrir þessum samningi að Áfengisverslunin komi ekki inn í þetta samhengi? Ég bið þá sem segja já eins og framkvæmdastjóri Verslunarráðsins sem hlýðir hér á mál mitt að áður en menn segja óhikað já við því t.d. að það sé til bóta að slá af Lyfjaverslun ríkisins og þá starfsemi sem hún hefur staðið fyrir að fara yfir svar heilbrrh. sem reitt var fram af tilefni fyrirspurnar sem ég bar fram á þinginu í vor. Og ég bið menn einnig að fara yfir umræður vegna fyrirspurnar að því er snertir Áfengisverslun ríkisins sem einnig var rædd sem og spurninguna um það hvaða áhrif þessi samningur hefur á aðstöðu yfirvalda, tollyfirvalda og annarra í sambandi við ávana- og fíkniefni, mál sem við erum minnt allóþyrmilega á nær dag hvern sem mikinn og vaxandi vanda í okkar þjóðfélagi.
    Að því er snertir t.d. lyfjaþáttinn, þá er það alveg ljóst að menn eru að bjóða heim stórauknum innflutningi á lyfjum, stórauknum erfiðleikum að meta lyf og fylgjast með þeim. Ef litið er til reynslu nágrannaþjóða eins og Dana og Breta, sem eru aðilar að Evrópubandalaginu og hafa haft þetta kerfi hjá sér, þá búa þeir við hæsta lyfjaverð sem um getur í Vestur-Evrópu þannig að líkurnar á því að þessi svokallaða aukna samkeppni sem þarna eigi að fylgja í kjölfarið varðandi lyf og innflutning lyfja sé sýnd veiði en ekki gefin. Ég hef ekki skoðað málið í samhengi þeirra breytinga sem hæstv. heilbrrh. er að berjast fyrir með ærnu erfiði og sveita í sambandi við lyfjamálefni og tilkostnað en mér er til efs að sú breyting, sem hér er í uppsiglingu með því að leggja af Lyfjaverslun ríkisins og innleiða í rauninni gerbreytt kerfi í sambandi við lyfjadreifingu í landinu sérstaklega, muni auðvelda baráttu hans að þessu leyti.
    Einn er sá þáttur sem snýr að þessu sviði sem ég vil líka gera að umtalsefni og það eru opinber innkaup. Það hefur lengi verið þyrnir í augum hins óhefta markaðsbúskapar að ekki skuli vera full opnun í sambandi við viðskipti opinberra aðila og það skuli ekki vera tryggð útboð í hólf og gólf sem víðast en það er hluti af þeirri blessun sem á að innleiða með þessum samningi um EES, innan ákveðinna takmarkana þó að því er snertir upphæðir. Og þau liggja nálægt 15 millj. króna fyrirmælin sem varða opið

útboð, að því er snertir innkaup og nálægt 400 millj. kr. að því er varðar verklegar framkvæmdir. Ég mæli þetta eftir minni. Ég held að það sé nærri lagi að viðskipti sem eru undir þessum mörkum þurfa ekki að fara í heildarútboð innan alls svæðisins vel að merkja en allt sem liggur yfir verða menn skuldbundnir til að setja í allsherjarútboð og þýða á öll tungumál Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta verður svolítið tafsamt gæti ég trúað og gæti orðið angurefni fyrir ýmsa fyrir utan það að hér er auðvitað verið að koma í veg fyrir að menn geti með nokkrum hætti beitt innlendum markaði til hagsbóta fyrir framleiðslustarfsemi í landinu. Þar erum við komin inn í það samhengi sem er náttúrlega ástæða til að líta á varðandi þennan samning. --- Hvar er nú hv. varaformaður utanrmn.? Ég ætlaði að beina því til hennar af því að hún ræddi sérstaklega um atvinnuleysið sem hún hélt að við værum að ráða bót á með þessum samningi.
    Ég held að það sem hér er á ferðinni að því er snertir þátttöku Íslands í þessu galopna efnahagskerfi, þessum innri markaði, feli ekki í sér miklar líkur á að það verði til að efla íslenskan þjóðarbúskap eða möguleika okkar til að styrkja okkar heimamarkað og þann iðnað sem hér hefur verið þrátt fyrir afskiptaleysi og fáskipti stjórnvalda, verið að berjast um til þess að halda lífi. Og þrátt fyrir allt hefur honum tekist það því menn hafa lagt mjög hart að sér. En margt hefur hins vegar fallið fyrir samkeppninni í þessum efnum. Ég er ekki að segja að við eigum að hafna samkeppni eða markaðsbúskap sem slíkum. Það er ekki mitt mál. Ég er að vekja athygli á þeim breytingum sem verið er að innleiða með þessum reglum og alveg sérstaklega að því er varðar opinber innkaup. Ég held t.d. að sú stefna sé góð sem stjórn Landsvirkjunar hefur lofsamlega reynt að ástunda á undanförnum árum, á meðan hún hafði nokkur umsvif, það hefur dregið úr þeim nú í seinni tíð, að horfa til með innlendum aðilum. Stjórn Landsvirkjunar leyfði sér það í sambandi við viðskipti, um uppbyggingu virkjana, línulagnir og fleira. Nú eru menn fljótir að reka sig upp í þakið, 400 millj. eða svo í þeim stóru tölum sem snerta þau viðskipti. Ég er hræddur um að það verði þrengra fyrir, t.d. hjá fyrirtæki eins og Landsvirkjun og öðrum sem fyrir stórframkvæmdum standa, að horfa til með innlendum fyrirtækjum og leyfa þeim að njóta frekar hagsbóta af viðskiptum en erlendum aðilum samkvæmt galopnu útboði sem hér er kveðið á um og er ótvírætt og verður að sjálfsögðu fylgt eftir alveg yfir í dómstóla ef fyrirtækin sem þarna eiga í samkeppni telja hag sínum borgið með því.
    Eitt er það sem hæstv. utanrrh. nefndi og ég vil út af fyrir sig taka undir að getur talist til hagsbóta almennt séð varðandi þær reglur sem hér er reynt að innleiða og sem þeir menn færa sér til tekna sem bera fram þennan samning. Það eru undirboð. Evrópubandalagið skuldbindur sig til að falla frá ,,anti-dumping``-aðgerðum, undirboðsrefsingum vegna svokallaðra undirboða. Við skulum minnast þess um leið og við lítum á þann þátt málsins að það hafa verið sárafá tilvik þar sem á þetta hefur reynt, nánast ekki hér á Íslandi nema ef menn vilja rekja viðskipti Íslenska járnblendifélagsins með einhverjum þætti, vegna tengsla við Elkem, til mótaðgerða Evrópubandalagsins. EB hefur hótað refsiaðgerðum gagnvart Norðmönnum. Hversu oft? Jú, sjö sinnum, síðan 1970 hafa þeir beitt sínum reglum um aðgerðir gegn undirboðum og aðeins í fjórum tilvikum hefur það leitt til þess að það hefur verið samið um lágmarksverð og sæst á það en aldrei verið beitt refsitollum. Þau eru nú ekki mörg tilvikin sem blasa við í sambandi við þetta. Á móti kemur síðan að menn hafa skrifað upp á samkeppnisreglur Evrópubandalagsins í heild sinni og reglurnar varðandi ríkisstuðning, að falla frá ríkisstuðningi í sambandi við stuðning við fyrirtæki sem er njörvað inn í þennan samning. Það ber að leggja af ríkisstuðning í sambandi við rekstur fyrirtækja. Allt sem snýr að rekstri fyrirtækja verður með öllu óheimilt að veita fé í af opinberri hálfu, bæði ríkis og sveitarfélaga, en með ákveðnum reglum eru heimildir til þátttöku í fjárfestingum í vissum mæli. Þetta eru atriði sem varða fríverslunarsamninginn sem við höfum í hendi annars vegar og hins vegar EES-samninginn, sérstaklega að því er varðar vörusviðið og það sem tengist því.
    Nú hefði ég gjarnan, virðulegur forseti, viljað hafa hæstv. ráðherra í salnum. Ég hef ekki gert athugasemdir þó að hann hafi vikið sér aðeins frá en ég vil snúa máli mínu til hans og óska eftir að hann verði viðstaddur.
    Virðulegur forseti. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. utanrrh. verði í salnum.) Ég þakka og vona að úr rætist fljótlega. Á meðan við hinkrum við eftir hæstv. ráðherra vil ég lesa hér lauslega þýdda tilvitnun sem hljóðar þannig:
    ,,Ég hef samúð með þeim sem vilja minnka frekar en auka efnahagsleg tengsl milli þjóða. Hugmyndir, þekking, vísindi, gestrisni og ferðalög, þetta eru hlutir sem í eðli sínu ættu að vera alþjóðlegir. En ætíð þegar það er skynsamlegt og framkvæmanlegt skulu framleiðsluvörur vera unnar í heimalandinu og umfram allt ættu efnahagsmál að vera fyrst og fremst mál hverrar þjóðar.``
    Ég veit ekki hvort ég á að endurtaka þetta, hvort menn hafa náð þessu. Ég vil síður lesa þetta á ensku. Þetta er að vísu lausleg þýðing. Ég get gert það svo öllu sé til skila haldið:
    ,,I sympathize with those who would minimize rather than those who would maximize economic entanglements among nations. Ideas, knowledge, science, hospitality, travel, these are things which should of their nature be international. But let goods be homespun whenever it is reasonable and conveniently possible and above all let finance be primarily national.``
    ( Gripið fram í: Þetta er atómljóð.) Nei, þetta er ekki atómljóð. En ég greip þessa tilvitnun með mér hér og finnst við hæfi að reiða hana hér fram á meðan við hinkrum eftir ráðherra. Ég vil gjarnan fá

getgátur um það úr þingsal hver muni vera höfundurinn að þessu. (Gripið fram í.) Það er ekki á vörum manna hér. Hann heitir John Maynard Keynes. Það er kannski framkvæmdastjóra Verslunarráðsins til umhugsunar að rýna í þann mæta mann, Keynes, sem hefur ekki verið talinn af verri endanum í hagfræðingaliði Vesturlanda á síðari tímum.
    Hæstv. ráðherra. Ég fór hér yfir nokkur atriði og saknaði þess að þú skyldir ekki vera viðstaddur ( Utanrrh.: Ég hlustaði.) þar sem ég var að bera saman aðstöðu okkar annars vegar með fríverslunarsamninginn í hendi og EES-samninginn að því er varðar vörusviðið og það sem því tengist. Niðurstaða mín er sú, hvað snertir þennan þátt málsins, að þá sé mjög langt frá því að við séum á flæðiskeri stödd og ástæða sé til þess að gera sérstaklega mikið úr erfiðleikum okkar Íslendinga við að byggja áframhaldandi sókn á því sem við höfum í hendi að þessu leyti. Við þetta vil ég bæta þeim samningum sem við höfum gert við Evrópubandalagið upp á síðkastið sem varða hin svokölluðu jaðarmálefni. Það var einmitt að þeim vikið í ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann tíundaði þá sem eitt af ávinningum þessa samnings, þá þætti sem varða menntamál og menningarmál, rannsóknir og þróun. Mér finnst það með því grófara sem fram er reitt af hálfu þeirra sem mæla með þessum samningi að taka þessa þætti með þegar þeir gylla málið. Sannleikurinn er sá og liggur auðvitað fyrir að við höfum verið þátttakendur í markvissri vinnu nú um margra ára skeið á grundvelli svokallaðrar Lúxemborgaryfirlýsingar frá 1984 um að bæta samskipti okkar og tryggja hagsmuni okkar að því er varðar Evrópubandalagið og samskiptin við það og auðvitað gagnkvæm samskipti með tvíhliða samningum. Hæstv. utanrrh. svaraði hér góðfúslega spurningu minni um það hvaða samningar eru frágengnir sem tvíhliða samningar Íslands og Evrópubandalagsins að þessu leyti. Það var við fyrirspurn sl. vor og það svar er að finna á þskj. 961 frá síðasta þingi. Ég vil aðeins leyfa mér að hlaupa yfir fyrirsagnirnar á þessum samningum sem þegar liggja fyrir og margir hafa verið í undirbúningi. Það eru samningar um einföldun formsatriða í vöruviðskiptum, frágengið, samningur um sameiginlegar innflutningsreglur, sem svo eru kallaðar, samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu til að koma á samstarfi á sviði starfsjálfunar í tengslum við framkvæmd á COMETT 2, samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um tölvugagnaviðskiptakerfi fyrir viðskipti, rammasamningur um samvinnu á sviði vísinda og tækni milli Íslands og Evrópubandalaganna, samningur milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Efnahagsbandalags Evrópu hins vegar um upplýsingaskipti vegna tæknilegra reglugerða, samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu til að koma á samstarfi á sviði menntunar og þjálfunar innan ramma ERASMUS-áætlunarinnar, samstarfssamningur milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands um starfsáætlun til að örva alþjóðasamstarf og nauðsynleg samskipti evrópskra vísindamanna í rannsóknum, samstarfssamningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um rannsóknir og þróun á sviði umhverfismála, vísindi og tækni til verndar umhverfinu, svokallað STEP, og evrópsk áætlun um veðurfarsfræði og náttúruvá eða EPOCH en sá samningur hafði ekki verið birtur þegar þetta svar var fram reitt. Hér er sem sagt um að ræða fjölmarga frágengna tvíhliða samninga við Evrópubandalagið á sviðum sem kölluð eru jaðarmálefni í samhengi EES-samningsins. Margir fleiri samningar eru í undirbúningi og enginn ástæða til þess að ætla annað en hægt sé að vinna af fullum krafti að gerð þeirra í góðri samvinnu við Evrópubandalagið þó að þessi EES-samningur falli fyrir borð. Ég er að nefna þetta hér vegna þess hversu óréttmætt og fráleitt það er að skreyta sig með jaðarsviði í sambandi við þennan EES-samning þó að það sé auðvitað jafnsjálfsagt ef menn gera þennan samning að fella þau samskipti að mörgu leyti undir hann. Ég tel að það sé ekki óskynsamlega ráðið og geti verið til bóta þó ég hafi ekki farið sérstaklega ofan í það út frá stjórnarformi þess.
    Ég hef með þessum hætti vakið athygli á stöðunni að því er varðar vörusvið. Ég vil bæta því við að í Noregi, þar sem þessi mál eru til umræðu, ekki ósvipað og á Alþingi Íslendinga, Stórþingið hefur hafið umræðu um þessi efni, vísa andstæðingar þessa samnings á þann samning sem Norðmenn gerðu 1972 sem fótfestu og undirstöðu sem menn standa á eftir að hafa vísað frá EES-samningi. Það liggur einnig fyrir að að 11 þjóðhagfræðingar í Noregi af 15 sem eru í prófessorsstöðum við norska háskóla gáfu frá sér yfirlýsingu í fyrra þar sem þeir lýsa yfir, lauslega þýtt: ,,Það eru engar knýjandi efnahagslegar ástæður til fyrir því að Noregur þurfi að ganga inn í EES eða gera EES-samning. Þvert á móti getur norskt efnahagslíf staðið betur með endursamningi á grundvelli fríverslunarsamningsins.``
    Þetta er álit rösklega tveggja þriðju hluta prófessora í hagfræði við norska háskóla. Þetta álit var gefið út í fyrra og er nokkru lengra. Menn geta fengið aðgang að því. Ég er ekki að reiða það hér fram vegna þess að ég telji að menn þurfi alltaf að hafa rétt fyrir sér í slíku en það er upplýsandi að heyra þetta hljóð frá vísum mönnum sem fjalla um efnahagsmál í næsta grannríki og sem eru að fást við sama samning og hér er til umræðu.
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að víkja að þeim þáttum þessa samnings að því er snertir aðra þætti fjórfrelsisins, eins og fjármagnshreyfingar sem eru teknar sem einn af fjórum þáttum þessa máls. Ég vil segja um þann þátt málsins að auðvitað er engin ástæða fyrir okkur Íslendinga að gera samning um að innleiða hér frjálsar fjármagnshreyfingar og útiloka þar með að við getum beitt þeim tækjum í okkar efnahagsstarfsemi sem við höfum þurft að beita oft og mörgum sinnum á liðinni tíð og getum þurft að beita vegna aðstæðna í íslensku efnahagslífi en erum að kasta fyrir róða með því að skrifa upp á óheftar fjármagnshreyfingar í samhengi þessa samnings. Við erum með því að skuldbinda okkur til að grípa ekki til gagnráðstafana þó að illa horfi í íslensku efnahagslífi og freistandi væri að geta beitt aðferðum eins og vöxtum, breytingum á vöxtum eða breytingum á gengi. Slíku erum við að vísa frá með þessum samningi og það er ekki lítil breyting á möguleikum til stjórnunar í íslensku efnahagslífi, burt séð frá því hvernig menn líta á fjármagnshreyfingar einar út af fyrir sig. Það er mikill munur á því hvort menn opna fyrir þær í einhverjum mæli tímabundið eða hvort menn njörva þær niður og afvopna sig með þeim hætti sem hér er verið að gera að því er snertir þennan þátt.
    Þá er það atriði sem snýr að fjárfestingum. Ég skal ekki dvelja lengi við þann þátt fjórfrelsisins, svo mikil ástæða sem þó væri til að gera hann hér að umtalsefni. Það eitt liggur fyrir sem undanþága sem gengið var frá í þessum samningi og við skulum vona að standi í sambandi við fjárfestingar að við getum með löggjöf sett hömlur á fjárfestingar í fiskveiðum og í frumvinnslu sjávarafurða. Þetta er vissulega gott svo langt sem það nær. Hitt liggur líka fyrir, og menn heyra raunar nú þegar, að farið er að kalla á það úr vissum áttum að einnig þarna eigum við að fella girðingarnar, einnig þarna eigum við að opna fyrir fjárfestingar erlendra aðila. Svo eru aðrir, t.d. framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, sem hafa haldið því fram að það sé í raun ómögulegt, ekki framkvæmanlegt að viðhalda þessum hindrunum í sambandi við fjárfestingar í sjávarútvegi. Það er vissulega ástæða til að taka undir þau varnaðarorð þótt þau séu kannski ekki mælt vegna þess að viðkomandi hafi áhuga á því að viðhalda slíkum girðingum, eins og þetta er stundum kallað. Ég held að sá vinningur sem sumir óska að ná í í sambandi við fjárfestingar erlendis frá í íslensku atvinnulífi geti látið bíða eftir sér. Þar geta menn reitt fram jákvæða þætti og neikvæða almennt séð. Ég held að menn geti þurft að bíða nokkuð lengi eftir því að fá eitthvert verulegt fjármagn erlendis frá inn í íslenskt atvinnulíf, a.m.k. eigi það ekki að vera stór þáttur til þess að hvetja menn til að skrifa upp á þennan samning, fyrir utan það að vissulega geta menn hagað siglingu í þeim efnum eftir íslenskri löggjöf og eftir eigin mati. Þeir þurfa ekki að gera þennan samning til að opna á þessu sviði ef það er af meiri hluta manna metið nauðsynlegt eða æskilegt. Þetta var varðandi fjárfestingarþáttinn.
    Þá aðeins varðandi fólksflutningana sem er fjórði þáttur fjórfrelsisins svonefnda sem hér er verið að skrifa upp á. Það er atriði sem hefur fengið að mínu mati allt of litla umræðu til þessa. Ég held að þar séu menn á verulegri hættuslóð að því er snertir ákvæði þessa samnings og alveg sérstaklega í ljósi þeirrar þróunar sem er í nágrannalöndunum og er í Vestur-Evrópu almennt um atvinnuleysi. Ég held að menn eigi að fara varlega í að draga samasemmerki milli reynslunnar af ákvæðum norræna samningsins varðandi frjálsræði fólks til atvinnu innan Norðurlanda og hins vegar í samhengi EES-samnings. Þar fyrir utan er sú einhliða yfirlýsing, sem liggur fyrir af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, gagnslítil svo ekki sé sagt gagnslaus. Ég held að það verði afar lítið hald í því máli gagnvart EES þó að sú ósk eða sú yfirlýsing og viðhorf liggi fyrir af Íslands hálfu og við megum vænta, eins og menn vita, gagnaðgerða varðandi hvaðeina sem við mundum hafna eða standa einhliða að. Samningurinn gerir ráð fyrir gagnaðgerðum að þessu leyti. Ég held að það sé ekki nein jákvæð uppspretta þarna á ferðinni fyrir íslenskt launafólk í sambandi við fólksflutningana heldur sé þarna mjög margt að varast. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna í stuttu máli í erindi sem framkvæmdastjóri BHMR, Birgir Björn Sigurjónsson, flutti um þessi efni á landsfundi Samstöðu um óháð Ísland, ég held að það hafi verið 12. maí sl., þar sem vikið var að stöðu Íslands í EES-viðræðunum varðandi þennan þátt sérstaklega:
    ,,Staða Íslands í þessum viðræðum hlýtur hins vegar að mótast af þeirri staðreynd að Íslendingar ráða yfir dýrmætum fiskimiðum og möguleikum til hagkvæmrar orkuframleiðslu. Íslendingar búa þannig yfir afurðum sem EB-ríkin vantar, helst sem hreint hráefni eða sem hálfunnar afurðir fyrir iðnaðinn. Auk þess hefur Ísland hingað til reynst drjúgur markaður fyrir iðnvarning EB-landanna. Ísland ætti því að vera fýsilegur samstarfsaðili fyrir EB-ríkin gagnstætt öðrum EFTA-ríkjum. Ef Íslendingar ganga inn í áform um evrópskan efnahagssamruna eða gerast aðildarríki EB, mundi Ísland fá hlutverk hráefnasalans og það mundi leiða til vaxandi einhæfni atvinnulífs. Ísland yrði jaðarsvæði í enn ríkari mæli en nú er. Hagkvæmni og hagfræðilega skynsamleg verkaskipting innan Evrópsks efnahagssvæðis kann að mæla með slíkri sérhæfingu og opinn fjármagnsmarkaður mundi færa fiskveiðiréttindin og fiskveiðarnar í tímans rás til þess horfs sem ríkti þegar erlend stórútgerðarfyrirtæki sópuðu miðin en Íslendingar veiddu á handfæri við fjöruborðið. Þessi þróun gæti raunar átt sér stað án þátttöku í samruna Evrópu ef íslensk yfirráð eru ekki tryggð yfir náttúruauðlindunum. Þátttaka Íslands í áformum um samruna Evrópu mundi leiða til stórminnkandi atvinnu í landinu, eins og spáð er almennt um EB og einkum jaðarsvæði þess. En hlutverk landsins sem hráefnaframleiðanda mundi auka sveiflubundna mannaflaþörf.
    Aðild íslendinga að sameiginlegum evrópskum vinnumarkaði mundi annars vegar opna erlendu láglaunafólki leið úr tugmilljónaatvinnuleysi á meginlandinu í íslenska jaðarbyggð þar sem oft myndast tímabundin þörf fyrir mikinn fjölda ófaglærðs fólks. En í EB-ríkjum er einnig viss skortur á sérhæfðu vinnuafli. Einn sameiginlegur vinnumarkaður gæti greitt götu margra sérmenntaðra Íslendinga úr íslensku atvinnuleysi á vit vellaunaðra starfa í EB þar sem sérhæfni þeirra nyti sín. Heildaráhrifin á íslenskum vinnumarkaði yrðu þau að inn í landið flyttist á þennan hátt evrópskt atvinnuleysi og launamisrétti af áður óþekktri stærðargráðu.``
    Þetta voru orð framkvæmdastjóra BHMR varðandi EES, einkum að því er snertir fólksflutningana. Ég vildi nefna þessi varnaðarorð í þessari umræðu án þess að fjalla ítarlega um þetta efni. Það væri þó þörf fyrir sérstaka umræðu um málið og hlýtur það að koma til frekari skoðunar í sambandi við lagabreytingar og aðra meðferð málsins.

    Ég mun þá, virðulegur forseti, víkja að þeim þætti sem mörgum hefur orðið tíðrætt um, þ.e. að stjórnarskrárþætti málsins þó að það mál verði sérstaklega til umræðu í sambandi við fram komin frumvörp til breytinga á íslensku stjórnarskránni. Ég hlýt að nefna það í þessu sambandi að það er langt síðan ég hafði áhyggjur af íslensku stjórnarskránni í sambandi við þennan samning. Ég held raunar að það sé ástæða til af þessu tilefni að minna á bókun sem ég lagði fram í utanrmn. 13. mars 1989 vegna fundar forsrh. EFTA-ríkjanna sem þá stóð fyrir dyrum. Það varðar málið almennt og ég held að það sé á réttum stað að rifja það upp hér að hluta til. Ég vitnaði þar til ákveðinna atriða í þessari yfirlýsingu sem Evrópustefnunefnd var kynnt og dagsett var 7. mars 1989 og varð tilefni sérstakra utandagskrárumræðna á Alþingi að mig minnir 9. mars. Eftir að hafa vitnað í einstök efnisatriði segir í þessari bókun:
    ,,Eins og ofangreind atriði í þessari stefnuyfirlýsingu bera með sér er hér verið að undirbúa samþættingu EFTA og Evrópubandalagsins að því er varðar þau meginatriði sem tengjast innri markaði EB. Hugtakið Evrópskt efnahagssvæði, sem fyrst kom fram í Lúxemborgaryfirlýsingu forsætisráðherra EFTA- og EB-ríkja 1984, er hér notað sem merkimiði fyrir þessi áform. Rætt er um að þróa sameiginlega ákvarðanatöku og byggja upp stofnanalega farvegi milli EFTA og EB til að ná þessum markmiðum, stilla saman löggjöf o.s.frv. Hér er lítt dulbúið verið að hvetja til þess að breyta EFTA í grundvallaratriðum úr fríverslunarsamtökum sjálfstæðra þjóðríkja í yfirþjóðlegan vettvang.``
    Síðan segir: ,,Drögin að stefnuyfirlýsingu Óslóarfundarins eiga sér enga stoð í samþykktum eða ályktunum Alþingis Íslendinga. Á þeim vettvangi eru samskiptamál EFTA og Evrópubandalagsins að heita má órædd ef frá er talin umræða utan dagskrár 9. mars sl. Íslenskir ráðherrar hafa því engan stuðning af samþykktum frá Alþingi til yfirlýsinga af því tagi sem hér liggja fyrir í drögum. Það er því í góðu samræmi við það sem að ofan greinir,`` stendur þarna, ,,að Steingrímur Hermannsson forsrh. lýsti því yfir í umræðunni í sameinuðu þingi 9. mars sl. að Íslendingar muni ekki, og það er orðrétt, ,,ekki fallast á neinar yfirþjóðlegar stofnanir eða neitt slíkt.`` Við sama tækifæri sagði forsrh. einnig á Alþingi orðrétt: ,,Við höfum alltaf haft fyrirvara í sambandi við frjálsa flutninga fjármagns, alltaf fyrirvara í sambandi við frelsi í þjónustu og við höfum alltaf haft fyrirvara um frjálsa flutninga vinnuafls. Á þessu hefur ekki orðið nokkur minnsta breyting.````
    Síðan segir: ,,Forsrh. kynnti drögin að yfirlýsingu leiðtogafundar EFTA á fundi með Evrópustefnunefnd Alþingis 10. mars sl. og utanrrh. sat einnig þann fund. Þar greindi forsrh. frá því að hann mundi í ræðu á fundinum í Ósló leggja fram bókun eða jafngildi bókunar fyrir Íslands hönd. Í henni yrði gerður skýr fyrirvari af Íslands hálfu varðandi yfirlýsingu fundarins og hann mundi í því sambandi vísa til sérstöðu Íslands.
    Ég tel þá fyrirvara`` --- og það er sá sem hér talar --- ,,sem forsrh. hefur lýst af sinni hálfu varðandi þetta mál vera réttmæta og nauðsynlega. Á fundi hans með Evrópustefnunefnd`` --- ég bið menn að taka eftir því, það er fundur sem haldinn var 10. mars 1989 --- ,,lýsti ég þeirri skoðun minni að ég teldi að forsh. ætti ekki að ljá nafn sitt við þau drög að yfirlýsingu Óslóarfundarins sem þar voru kynnt. Ég er enn sömu skoðunar og tel raunar að þeir fyrirvarar sem forsrh. hefur kynnt á Alþingi og í Evrópustefnunefnd jafngildi því að Ísland sé ekki aðili að yfirlýsingu fundarins verði hún í meginatriðum svipuð og í drögunum sem dagsett eru 7. mars 1989.``
    Ég læt nægja þessa tilvitnun og bókun sem er nokkru lengri sem ég lagði fram í utanrmn. tveimur dögum áður en gengið var frá yfirlýsingunni í Ósló í mars 1989. Ég lét þessari bókun þá fylgja sérstaka tillögu í utanrmn. um víðtæka athugun á viðskiptalegum hagsmunum Íslands. Sú tillaga lá í nefndinni og liggur fyrir í gögnum utanrmn. um það hvernig ég taldi að ætti að taka á okkar viðskiptalegu hagsmunum í stað þessa uppleggs, þeirrar ferðar sem þarna var verið að leggja út í.
    Þetta skýrir kannski þá afstöðu sem ég hafði til þessa máls alla tíð sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var að störfum. Á því varð ekki breyting. Ég lagði mig hins vegar fram um það í tíð þeirrar ríkisstjórnar að fylgjast sem nánast með málinu, framvindu þess og hafði óvenjugóða aðstöðu til þess sem fulltrúi Alþb. bæði í Evrópustefnunefnd á þessum tíma sem og í utanrmn. þingsins. Ég kom á framfæri við þingflokk minn í rituðu mál og munnlega fjölmörgum atriðum um þróun málsins eins og það blasti við mér eftir að hafa kynnt mér málin á vettvangi þessara nefnda. Inn í það samhengi kom stjórnarskrármálið og áhyggjur vegna þess. Ég nefni hér aðeins sem dæmi úr þeirri umræðu að ég kom á framfæri við þingflokk minn í febrúar 1990 áhyggjum varðandi stjórnarskrána íslensku í sambandi við þær stofnanir sem hugmyndir voru um að byggja upp í kringum Evrópskt efnahagssvæði. Þar segir á minnisblaði:
    ,,Rómarsáttmálinn er lög í öllum EB-ríkjum og auk þess afleidd löggjöf af honum, svonefndar reglugerðir og tilskipanir. Er það allt æðra löggjöf þjóðþinga landanna og bindandi fyrir aðildarríkin, einnig niðurstöður og úrskurðir EB-dómstólsins. Þessi staða m.a. gerir erfitt fyrir með tilliti til stjórnarskrár Íslands svo og væntanlegur EES-dómstóll. Hlutur þjóðþinga EFTA-landanna mundi skerðast stórlega við slíka samningsgerð þar eð þau afsöluðu sér lögsögu í reynd á því sviði sem reglur innri markaðarins ná til.``
    Þann 3. septebmer 1990 minni ég enn á þetta mál á minnisblaði til þingflokksins þar sem segir: ,,Stofnanaþáttur vegna EES-svæðis liggur mjög óskýrt fyrir og engar greinargerðir komið fram síðasta hálfa árið þar að lútandi. Þó er ljóst að gert er áfram ráð fyrir sérstöku pólitísku EES-ráði, eftirlitsstofnun og sérstökum EES-dómstól sem mér virðist stangast á við gildandi íslensk stjórnarskrárákvæði.``
    Síðan gerðist það raunar áður en þessi síðasta tilvitnun var fest á blað að Evrópustefnunefnd skilaði sérstakri áfangaskýrslu til Alþingis sem er sjöunda rit í ritröð Evrópustefnunefndar. Þar fjallaði ég sérstaklega um skerðingu stjórnarfarslegs sjálfstæðis í tengslum við hugmyndir um þennan samning og ég vil leyfa mér að vitna hér til þess álits í sambandi við þá umræðu sem fer hér fram en þar segir, með leyfi forseta. Ég tek fram að þessi áfangaskýrsla er gefin út í maí 1990. Ég hygg að ég hafi fest þetta á blað í aprílmánuði, sennilega fyrri hluta aprílmánaðar, vegna þess að nokkur aðdragandi var að útgáfu ritsins.
    ,,Í könnunar- og undirbúningsviðræðum EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði hefur verið reynt að móta sameiginlegar tillögur um stofnanir, eftirlit og úrskurðaraðila, dómstóla á EES-svæðinu. Í marslok 1990 var staðan samt sú að mati beggja að verulega bæri enn á milli og að þessi mál verði ekki útkljáð fyrr en í samningaviðræðum. Af þeim mörgu hugmyndum sem settar hafa verið á blað um þessi atriði er þó ljóst að báðir aðilar eru komnir langt inn á svið yfirþjóðlegra stofnana og ræða fullum fetum um skerðingu á löggjafar- og dómsvaldi viðkomandi þjóðríkja, bæði að formi og enn frekar að innihaldi. Ágreiningurinn milli viðræðuaðila EFTA og EB snýst um það hversu langt eigi að ganga í valdaafsali til sameiginlegra stofnana og um kröfu EFTA-ríkjanna um að fá áhrif á stefnumótun innan EB. Einstök EFTA-ríki, þar á meðal Ísland, sjá fram á að þessar hugmyndir brjóti í bága við hugmyndir stjórnarskráa ríkjanna. Komi til myndunar Evrópsk efnahagssvæðis, EES, er talið óhjákvæmilegt að lögfesta viðkomandi ákvæði, sem eru afar mikil að vöxtum, til að þau öðlist réttaráhrif fyrir einstaklinga, lögpersónur og stjórnvöld á svæðinu öllu. Er þá gert ráð fyrir að EES-lög hafi forgang framar landslögum og EES-réttur muni þar með ryðja landslögum úr vegi, hliðstætt því sem gilt hefur innan EB. Fyrirhugað er að koma á sameiginlegri stofnun til ákvarðanatöku, svonefndu EES-ráði, þar sem sæti eiga ráðherrar eða embættismenn í umboði þeirra. Ráð þetta mundi starfa á grundvelli EES-samningsins sem hefði lagagildi og eitt af verkefnum ráðsins væri að þróa þann samning með því að setja afleiddar reglur sem einnig hefðu lagagildi. Þannig fengi ráðið í heild löggjafarvald.
    Rætt hefur verið um mikið púsluspil til að stilla saman sjónarmið EB og EFTA í þessu ráði áður en hvor aðili taki nokkra endanlega ákvörðun um mál er varða EES. Gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin tali að öðru jöfnu einum rómi í ráðinu. Þá er óleyst vandamál á hvaða stigi þjóðþing kæmi inn í þetta ákvarðanaferli til að EES-ákvarðanir fái formlegt lagagildi og hafi bein réttaráhrif.
    Enn skýrar er talað um EES-úrskurðaraðila, þ.e. dómstól sem einn hefði víðtækt umboð til þess að tryggja það að EES-reglur verði virtar. Gert er ráð fyrir að hann starfi í nánum tengslum við EB-dómstólinn og yrði skipaður dómurum frá honum og frá ríkjum EFTA. Sem kunnugt er skýrir EB-dómstóllinn lög og túlkar þau, svo og rétt Evrópubandalagsins og eru dómstólar einstakra ríkja bundnir af niðurstöðu hans. Dómstóllinn tryggir þannig samræmda lagatúlkun í öllum EB-ríkjum.
    Við vissar aðstæður er æðstu áfrýjunardómstólum í EB-ríkjum skylt að óska eftir svonefndum forúrskurðum EB-dómstólsins og eru þeir bindandi. Að hliðstæðu kerfi virðist stefnt innan EES þannig að dómstólum væri í vissum tilvikum skylt að leita forúrskurðar EES-dómstóls um túlkun og beitingu EES-réttar. Þetta virðist hins vegar`` --- segir þarna í þessu áliti mínu --- ,,í augljósri andstöðu við 2. og 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar þar sem dómsvaldið er skipað með íslenskum lögum. Framsal þess í hendur erlendra aðila er hvergi heimilað og stjórnsýsluaðilum og löggjafarvaldi eru settar skorður að því er varðar fyrirmæli til dómara. Hér blasir því við valdaafsal sem vart gæti orðið að veruleika nema að undangenginni stjórnarskrárbreytingu.
    Grundvöllurinn að formlegum samningaviðræðum um EES felur þannig í sér stórfellda skerðingu innlends löggjafar- og dómsvalds og afsal þess til yfirþjóðlegra stofnana. Spurningin sem ósvarað er varðar aðeins útfærslu á því valdaafsali.``
    Þetta læt ég, virðulegur forseti, nægja sem tilvitnun í álitsgerð frá vorinu 1990 um stöðuna eins og hún blasti þá við mér sem fulltrúa í Evrópustefnunefnd Alþingis, miðað við þá pappíra og umræðu sem fram hafði farið á vettvangi nefndarinnar. Ég vil nefna það í þessu samhengi að eitt af því sem Evrópustefnunefnd aðhafðist þennan vetur, 1989--1990, var að ræða einmitt og reyna að draga fram upplýsingar um væntanlegan stofnanaþátt EES-samnings. Í því sambandi fengum við á fund nefndarinnar Stefán Má Stefánsson lagaprófessor til viðræðna um þetta mál, en hann starfaði þá þegar, og var búinn að starfa þá um skeið, á vegum utanrrn. við að fara ofan í samninginn með tilliti til stjórnarskrárinnar, eða hugsanlegra árekstra við stjóranrskrána.
    Ég hef ekki farið ofan í það hvenær Stefán kom á fund nefndarinnar, mig minnir að það hafi verið tvívegis, eftir áramótin, ég held í febrúar og marsmánuði 1990. Í öllu falli var það á fyrri hluta ársins, fyrstu þremur mánuðum ársins. Hann reifaði mál sitt munnlega á þessum fundum. Við gengum eftir því að hann léði okkur skriflegar greinargerðir sem hann kvaðst hafa látið í té eða hafa handa á milli. Hann varð við því með einhverjum hætti sem ég man ekki hvort að gerðist þannig að hann sendi þær til mín persónulega eða hvort þeim var dreift á vettvangi nefndarinnar í heild. Það hlýtur að vera hægt að sjá af gögnum nefndarinnar. Síðan gerðist það, vegna þess að ég vildi fá þetta frá utanrrn. sjálfu á þessum tíma og herjaði á það að fá þessi málsgögn þaðan send, að mér barst þann 18. apríl 1990 frá utanrrn. greinargerð eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor, sem hann hafði sent Hannesi Hafstein ráðuneytisstjóra, Sverri Hauki Gunnlaugssyni sendiherra og ráðuneytinu. Ég ætla að lesa fylgibréfið. Þar stendur:
    ,,Hjálagt sendist þér samkvæmt samtali yðar við Hannes Hafstein skýrsla Stefáns Más Stefánssonar prófessors um forúrskurði og dómstól EES. Vinsamlegast athugið að skýrslan er vinnuskjal um efni sem

er í frekari athugun hjá höfundi en ekki greinargerð til birtingar að hluta eða öllu leyti.``
    Með þessu fylgdi þetta málsgagn sem ég má segja að mér hafi borist litlu fyrr frá Stefáni persónulega eða verið dreift á vettvangi nefndarinnar.
    Í þessum álitsgjörðum Stefáns er fjallað með athyglisverðum hætti um stöðuna eins og hún lá fyrir þá. Það er fróðlegt, bæði vegna þeirrar umræðu sem nú liggur fyrir og er í gangi sem og vegna þess álits sem Stefán Már hefur sent frá sér sem einn af fjórum fulltrúum í nefnd utanrrh., að líta á þessa pappír þó það liggi á mér sú kvöð að birta þá ekki sem móttakandi þeirra á sínum tíma, en þetta eru nú að verða söguleg atriði.
    Ég vil í þessu sambandi minna á það að þeir þættir, sem snerta bæði EES-dómstól og dómskerfi í þessum samningi, sem og forúrskurði, tóku miklum breytingum í tímans rás á meðan á þessum samningaviðræðum stóð 1990, alveg sérstaklega, og reyndar á fyrri hluta árs 1991, þangað til frá var gengið. Ég vil aðeins eftir minni --- og bið hæstv. ráðherra aðeins að hlýða á það ef hann vill nema og telur einhvers virði að ég rifji þetta upp --- að þannig voru mál að gert var ráð fyrir í málsreifun veturinn 1989 og 1990 EES-dómstól með meiri hluta dómara frá EB-dómstólnum og minni hluta frá EFTA. Þannig var þetta allt þar til 14. des. 1991 að dómstóll Evrópubandalagsins í Lúxemborg sló þetta hugverk af vegna stofnanaþáttarins, vegna árekstra við Rómarsamninginn sem leiddi til uppnáms um skeið og varð til þess að dómstólaþátturinn sérstaklega var tekinn til endurvinnslu og endurmats og það var púslað saman nýju kerfi, þessum EFTA-dómstól, sem varð niðurstaðan í þessu samhengi og menn kannast við. Ég held það hafi verið 14. febrúar sem viðbrögðin lágu fyrir frá dómstólnum í Lúxemborg varðandi hina nýju skipan mála og síðan var samningurinn undirritaður líklega 13. maí eða í byrjun maí 1992 sem samningurinn er loks endanlega frágenginn.
    Þá er þess að geta varðandi forúrskurðina að það voru miklar hugmyndir um það að innleiða þessa forúrskurði með ósköp hliðstæðum hætti og þeir eru praktíseraðir í Evrópubandalaginu. Á þeim bæ hins vegar hefur þetta þróast samkvæmt hefð, þau atriði sem snúa að forúrskurðum. Það eru engin ákvæði í sjálfum Rómarsáttmálanum sem byggt er á varðandi forúrskurðina heldur hafa þeir þróast svona sem praxís í Evrópubandalaginu og það eru engin bundin ákvæði um það að dómstólum þjóðlanda í Evrópubandalaginu sem leita forúrskurða séu skuldbundin til að fara eftir þeim. Það hefur ekki verið njörvað niður á pappír samningsbundið í Evrópubandalaginu nema þá kannski í Maastricht-sáttmálanum sem ég man ekki hvort tekur á þessu atriði. Hins vegar hefur þetta þróast þannig að í reynd hafa dómstólar í EB-ríkjum tekið fullt og óskorað mið af niðurstöðu og leiðsögn dómstólsins í Lúxemborg, forúrskurða dómstólsins í Lúxemborg.
    Það var ósköp eðlilegt að menn horfðu dálítið á þetta atriði, einnig Stefán Már Stefánsson, og litist ekki á blikuna miðað við nefndar greinar stjórnarskrárinnar. Samt voru menn að vinna með þessa forúrskurði býsna lengi og við gengum út frá því að þetta mundi verða inni hjá utanrrh. og hjá EFTA, það horfði svo, en það gerðist þó, líklega seint í apríl eða öndverðum maí 1991 að þessu er kippt út. Og þegar fundað er á vegum EFTA til að gera málin upp, ég held það hafi verið 13. maí 1991, þetta er sagt allt eftir minni, þá er birt áfanganiðurstaða og átti að fara í lokasóknina sem átti tvímælalaust að ljúka fyrir júlílok þá um sumarið, þá voru þessir forúrskurðir allt í einu úti, ekkert að sjá um þá, þeir eru horfnir. Við sögðum sem litum á þetta: Ja, þið eruð komnir fram hjá einu jarðsprengjusvæði af mörgum varðandi stjórnarskrána. Jú, þeir voru nú þeirrar trúar, bæði aðalsamningamaður og ég held ráðherra líka að þetta stæðist allt stjórnarskrána, það væri ekki þess vegna, og það væri eftirsjá, ég man vel eftir því að þeir sögðu að það væri eftirsjá að þessir forúrskurðir væru fallnir út. En þannig leit þetta út á lokasprettinum sem menn væntu að yrði þá um sumarið.
    En síðan gerist það að þessir forúrskurðir ganga aftur, koma aftur inn, að vísu í svolítið öðru samhengi en þeir höfðu legið fyrir áður og nú er þannig um hnútana búið að þeir eru sem sagt teknir inn en það er sett, eins og þið þekkið úr ákvæðum samningsins og bókunum sem fylgja þeim, að það þurfi að fjalla sérstaklega um þetta mál og lögfesta það sérstaklega og það þurfi breytingu á stjórnarskránni til þess að gera þetta gildandi. Þá viðurkenna menn það með þessum sérkennilega hætti sem fyrir liggur í samningnum að það standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, að lögleiða þetta eins og það liggur fyrir í samningstextanum sjálfum og ætla að komast fram hjá stjórnarskrárbreytingunni með því að segja: ,,den tid, den sorg``. Þetta er sem sagt heimild fyrir ríkisstjórnir í EES-löndunum til þess að leita eftir forúrskurði hjá EB-dómstólnum. Heimild. Og ráðherrann hefur sagt og á sjálfsagt eftir að endurtaka það: Ja, við höfum eiginlega ákveðið að nota ekkert þessa heimild, og hér liggur það fyrir að það þurfi að breyta lögum til þess. En ég spyr hér: Er þetta nú hægt? Er hægt að ganga fram með þeim hætti að ætla að lögfesta hér samning með þessum ákvæðum inni og hafa síðan aðeins í greinargerð með frv. það álit að það þurfi sérstök lög til þess og það þurfi að breyta stjórnarskránni?
    Ég held að þetta gangi ekki upp og ég bið menn sem fjalla um þessi atriði í þingnefndum að líta á þessa refilstigu og þessa króka fram hjá keldunni sem hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin er að reyna að fara varðandi þetta mál sérstaklega. Og vel að merkja, ef leitað er úrskurða þá er gengið svo langt í þessu að þeir skuli vera bindandi. Það er alveg ótvírætt í samningstextanum. Þá skuli niðurstaða Evrópudómstólsins vera bindandi. Þannig liggur málið fyrir okkur hér og nú.
    Virðulegur forseti. Það mætti mjög margt segja um þennan stjórnarskrárþátt. Ég flutti svo ásamt

þremur öðrum hv. þm. tillögu hér á síðasta vetri, í febrúarmánuði, um EES-samning og íslenska stjórnskipun þar sem við lögðum til að sett yrði á fót óháð nefnd til þess að fara ofan í þessa sauma, nefnd sex aðila, tilnefndra af þremur aðilum, Dómarafélagi Íslands, lagadeild Háskóla Íslands og Lögmannafélagi Íslands, til þess að setjast á rökstóla, hlusta á þingflokka og aðra sem vildu koma sínum áhyggjum á framfæri, fara yfir málið og reiða fram álit. --- Þetta mátti ekki sjást, á þetta mátti ekki hlusta af hálfu stjórnarliðsins hér á Alþingi. Það var aðeins formaður utanrmn. sem í umræðunni tók undir þessa tillögu, en honum var auðvitað alveg bannað að hreyfa sig í nefndinni með þetta mál og hann var þar í framboði alveg fram undir það síðasta sem væntanlegur formaður og menn verða að skilja hans aðstöðu út frá því, ég vil a.m.k. hafa þann velvilja í hans garð að líta á hans aðstöðu, að hann skyldi ekki afgreiða tillöguna frá nefndinni með stjórnarandstöðunni, með þeim meiri hluta sem hægt væri að mynda um þetta mál í nefndinni, til þingsins. En það hefði auðvitað verið betra fyrir alla aðila og alveg sérstaklega fyrir ríkisstjórnina. Hv. þm., fyrrverandi formaður utanrmn., hefði ekki gert ríkisstjórninni meiri greiða heldur en að afgreiða þessa tillögu þannig að þingið hefði tekið á henni og þessi vettvangur hefði orðið til. Og til að reyna að hjálpa ríkisstjórninni fram hjá þessum jarðsprengjusvæðum sem hún er stödd á með þetta mál allt saman, gagnvart því sem æðst er í íslenskri stjórnskipan, sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, þá sendi ég utanrmn. bréf þann 7. ágúst sl. og óskaði eftir því að þessi tillaga yrði tekin fyrir og afgreidd úr nefndinni til þáverandi þings sem hefði t.d. 16. ágúst sl. getað komið saman, afgreitt málið, sett þennan vettvang á laggirnar ef menn hefðu talið ástæðu til þess til viðbótar við þær mörgu ágætu álitsgerðir sem fyrir liggja.
    Ég er að nefna þetta hér til þess að sýna mönnum að það er ekki nein ný bóla á ferðinni af minni hálfu og margra annarra að hafa áhyggjur af íslensku stjórnarskránni, lýðveldisins okkar í sambandi við þennan samning. Mér finnst það satt að segja með fádæmum að menn skuli vera að reyna að setja á svið loddaraleik af því tagi sem hér fór fram í dag í andsvörum að lokinni ræðu núv. formanns utanrmn. og reyna að leiða getur að því að núv. stjórnarandstaða hafi engar áhyggjur efnislega af þessu máli heldur sé bara að reyna að bregða fæti fyrir ríkisstjórnina í sambandi við þetta mál.
    Ég verð að segja það að ummæli hv. þm. Björns Bjarnasonar í þessari umræðu, að því er snerti stjórnarskrána okkar, ollu mér miklum vonbrigðum. Hæstv. utanrrh. hafði reynt að lyfta föður hans til vitnis í sambandi við þetta mál sérstaklega. Það var drengilega gert með tilliti til alls og alls af hæstv. utanrrh. Auðvitað reynir hann að tjalda því sem til er. Hann dró upp orð Bjarna Benediktssonar, svona tekin kannski eitthvað úr samhengi, ég hef ekki farið ofan í það, í sambandi við þetta mál, en hér kemur síðan hv. þm. Björn Bjarnason og segir okkur í rauninni að með þetta plagg megi fara eins og mönnum sýnist og þeir séu bestir sem mest gera af því að fara með sem frjálslegustum hætti um stjórnarskrár og dró til einræðisherra, fallna og kannski lifandi, sem settu oft einhverjar voða fínar stjórnarskrár, svona upp á punt, og gerðu svo ekkert með þær. Er þetta málflutningur sem er boðlegur á Alþingi Íslendinga? Mér finnst það ekki. Til hvers erum við að halda formi og vernda form í störfum Alþingis með undirritun þingmanna sem fyrsta gjörningi hér á þingi að undirrita drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins?
    Ég lýsi hryggð yfir þessum málflutningi og ég ræð ríkisstjórninni að taka þann þátt sem snýr að þessum samningi, stjórnarskrárþáttinn upp hið fyrsta, eins og vera ber, og bera hér sjálf fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni eða slást í hóp með okkur stjórnarandstæðingum sem stöndum að baki fram komnum frumvörpum og hreinsa frá þennan þátt áður en þeir ætla að reyna að troða þessum samningi fram til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Ég spái því að það verði ansi djúpt á því að Alþingi taki þetta mál, þennan samning til efnislegrar afgreiðslu ef þannig á að standa að verki, ef þannig á að halda á máli að því er varðar íslenska stjórnskipun.
    Það er mikil bjartsýni að ímynda sér það að hægt sé að ganga yfir Alþingi Íslendinga með þeim hætti sem mér heyrist að hér séu hugmyndir um af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar og ég er alveg sannfærður um það að þeir eru margir í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem almennt séð hafa stutt ríkisstjórnina sem ekki munu verða reiðubúnir til að ganga þá götu með henni. Ég tel líka, eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að það væri mjög illa farið ef menn ætluðu að fara að reyna að þröngva þessum samningi í afgreiðslu án þess að hafa tekið á stjórnarskrárþætti málsins sérstaklega og afgreitt hann sér á parti áður en samningurinn kemur til efnislegrar afgreiðslu hér á þingi.
    Virðulegur forseti. Það er margt sem freistandi er að ræða um í sambandi við þetta stóra mál. Ég á hér margt órætt. En ég ætla senn að ljúka mínu máli því að það gæti þess vegna orðið tvisvar eða þrisvar sinnum lengra ef ég ætti að víkja að því sem þörf væri að ræða hér í sambandi við 1. umr. málsins.
    Hver er staða þessa máls á Alþingi? Hver er hugur þingmanna til þessa máls? Ég hef gert stjórnarskrárþáttinn að umræðuefni og endurtek það ekki. En hvernig liggur málið efnislega hér á Alþingi hvað snertir afstöðu og viðhorf manna? Ég vil halda að það sé langt frá því að það sé ráðið að þessi samningur hafi meirihlutafylgi í þinginu. Ég hef heyrt það áhyggjuefni hjá einlægu stuðningsfólki núv. stjórnarflokka að því er snertir þetta mál að þeir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl., sem ætla sér að fylgja þessu máli eftir og styðja það í afgreiðslu, eru ekki í takt við það fólk, sem veitt hefur þeim umboð hér á Alþingi, a.m.k. margir hverjir. Það er ég fullviss um.
    Ég þekki að vísu betur til úti á landi heldur en hér í höfuðborginni. Og ég fullyrði að þetta mat mitt að því er snertir landsbyggðina og afstöðu fólks þar til þessa samnings, þá eru þar yfirgnæfandi gagnrýn viðhorf og örugglega drjúgur meiri hluti sem er andsnúinn þessum samningi. Mér finnst að það sé kominn tími til fyrir þingmenn að ræða þessi efni við sína umbjóðendur, opna hug sinn og efasemdir, koma þeim á framfæri og fá aðstoð í opinni umræðu til þess að átta sig á þessu viðamikla máli.
    Það eru tveir þingflokkar hér á Alþingi sem hafa þegar kynnt afstöðu sína til málsins, Alþb. og Kvennalistinn, og lýst andstöðu við samninginn og reitt fram rök af margvíslegu tagi til stuðnings máli sínu. Framsfl. sem er í stjórnarandstöðu með þessum flokkum hefur ekki enn þá gert upp hug sinn. Það er auðvitað alveg ljóst að Framsfl. hefur að líkindum örlög þessa máls í hendi sinni. Ef það á að vera von til þess að hægt sé að vísa þessum óheillasamningi frá hér á Alþingi, þá þarf atfylgi og stuðningur, óskoraður stuðningur þingmanna Framsfl. að koma til og eru þá ekki nema 27 talsins ef stjórnarandstaðan leggur saman sínar reytur, sín atkvæði og atfylgi. En ég er nokkuð viss um að það er nægur efniviður gagnrýninna viðhorfa og efasemda inni í stjórnarflokkunum sjálfum til þess að tryggja þá viðbót sem þarf við sameinaða stjórnarandstöðu hér á Alþingi og fella þennan samning ef einhvern tíma reynir á hann hér í afgreiðslu þinginu.
    Ég skora á alla þingmenn að leggja sig fram um það og gera það upp við sig fyrr en seinna því að það lækkar ört í stundaglasinu, tíminn líður hratt. Við þurfum á því að halda að átta okkur á þessari stöðu og bera okkur saman hér í þinginu um þessi mál á meðan við förum yfir þau frumvörp sem liggja fyrir og samninginn sjálfan og fylkjum liði, þeir sem sammæli eiga í þessu stóra máli, til þess að hjálpa hæstv. utanrrh. í niðurstöðu sem ein fær samræmst íslenskum hagsmunum og verður honum sem öðrum fyrir bestu þegar til lengri tíma verður litið. Það er enn þá ráðrúm til að snúa frá í þessari siglingu og við eigum að tryggja það að niðurstaðan verði með þeim hætti sem samræmist hagsmunum þjóðarinnar, alveg sérstaklega til lengri tíma litið.