Stjórnarskipunarlög

8. fundur
Miðvikudaginn 26. ágúst 1992, kl. 14:01:48 (68)


     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að leiðrétta mismæli mín sem urðu áðan. Ég veit að

hann meinti ekkert nema vel með því. Það er rétt, skýrslan er frá mars 1991. En ég vil vekja athygli á því að þó að rétt sé að EES-dómstóllinn sé ekki lengur í samningnum þá er kominn annar dómstóll, reyndar tveir, EFTA-dómstóll og EB-dómstóll. Og það breytir alls ekki því að EES-samningunum var alls ekki lokið þegar þessi skýrsla var gerð. Langt frá því, langt frá að þeim væri lokið. Samningarnir voru þá í burðarliðnum og mjög margt gerðist eftir að þessi skýrsla var samin. Og það er með tilliti til þess sem ég las áðan sérstaklega þessa setningu: ,,Fari landsdómstóll ekki eftir túlkun EES-dómstólsins í málinu þá gildir niðurstaða landsdómstólsins gagnvart aðilum málsins.`` Hér átti að vera sameiginlegur EES-dómstóll og hann átti ekki að vera æðri landsdómstóli. Og sömuleiðis eins og ég las áðan, ég bið afsökunar á að þurfa að endurtaka það, að framkvæmd samkeppnisreglna átti aðeins að vera að framfylgja í heimalandinu fyrir atbeina þar til bærra stjórnvalda. Þ.e. íslensk stjórnvöld urðu þar milligönguaðili við framkvæmd á niðurstöðum þessarar eftirlitsstofnunar. Þetta er hvort tveggja í raun horfið út. --- Horfið út, jú. Það er horfið út. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því. Við höfum farið hér vandlega yfir það að landsdómstóll er ekki lengur til kvaddur þegar um úrskurði dómstólanna í Evrópu er að ræða sem nú eru raunar orðnir tveir. Og það er með tilliti til þessara staðreynda sem utanrrh. kemst að þeirri niðurstöðu að hann standist sjórnarskrána eins og áður var. Það er sama og með Mannréttindadómstólinn, íslenskir dómstólar hafa síðasta orðið, og því stenst hann stjórnarskrána nema hann verði gerður að landslögum.